Draumaskotið

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Í öllum þeim þúsundum ljósmynda sem finna má í myndasafninu mínu er engin sem ég get sagt að sé uppáhalds myndin mín. Vissulega eru þarna margar myndir sem mér finnst betri en aðrar og ég myndi hafa í öndvegi t.d. á ljósmyndasýningu. En engin þeirra stendur upp úr sem uppáhalds myndin – sú sem ber af öðrum. Ég trúi að ég eigi eftir að taka hana.  Það er eitt af því sem rekur mann áfram í ljósmynduninni – eltingaleikurinn við draumaskotið, nærður af ástríðunni.

En hvernig gæti draumaskotið litið út?

Ég veit það ekki almennilega. Veit bara að sú mynd yrði að innihalda óendalega fegurð og hughrif sem fengi fólk til að grípa andann á lofti af hrifningu – eitthvað verulega magnþrungið.

Ég sá svona mynd um daginn – þessa fullkomnu ljósmynd. Í henni er ólýsanleg fegurð, óaðfinnanleg myndbygging, draumkennt landslag, falleg birta og litir.  Myndin virkar eins og hlýlegt málverk eftir Thomas Kinkade – mann langar að fara þangað, vera þarna, upplifa þetta sjálfur, vera einn af þeim sem stendur á klettinum í þessu ævintýralega landslagi. Þessi mynd hefur allt sem prýðir frábæra og einstaka landslagsmynd.

Myndin er eftir Max Rive og er tekin í Hvanngili við Fjallabak syðra. Fjallið fyrir miðri mynd er Stórasúla.Þá er það stóra spurningin – hvað þarf til að ná svona myndum, sjálfu draumaskotinu?
Hugsanlega heppni, eða hvað? Jú, stundum er maður réttur maður á réttum stað á hárréttum tíma og þetta kemur einhvern veginn upp í hendurnar á manni. Bara steinliggur. En sjaldnast er það nú þannig.

Ég held að þeir sem hafi mest fyrir hlutunum nái bestu myndunum:  Stríðsfréttaljósmyndararnir sem leggja líf sitt í hættu á átakasvæðum. Dýralífsljósmyndararnir sem leggja mikla vinnu í að stúdera atferli dýra og eltast við þau jafnvel dögum, vikum og mánuðum saman til að ná hinu fullkomna augnabliki. Landslagsljósmyndararnir sem leggja á sig langar og krefjandi gönguferðir um fjöll og firnindi frá sólarupprás til sólseturs, dögum saman, til að ná fallegustu birtunni í stórbrotnasta landslaginu.  Og áfram mætti telja.
Þetta kemur nefnilega ekki af sjálfu sér. Það þarf að hafa fyrir hlutunum.  Og eftir því sem ástríðan er sterkari þess meira er maður tilbúinn að leggja á sig.

Landslags- og náttúruljósmyndarar eru upp til hópa sannir náttúruvinir.

Þeir eru í tengslum við náttúruna – eru náttúrubörn. Þeir hafa eytt löngum tíma í að stúdera náttúruna og birtuna og öðlast þannig tilfinningu, næmt auga og innsæi fyrir undrum hennar, duttlungum og eðli.  Það gerir þá að góðum náttúruljósmyndurum fremur en tæknileg þekking í ljósmyndun. Ef náttúruvinur og virkjanasinni stæðu andspænis beljandi jökulfossi og festu hann báðir á mynd myndi ég veðja á að ljósmynd náttúrubarnsins yrðu miklu betri. Hann sæi nefnilega fegurðina í  fossinum á meðan hinn sæi megavött.

 

 

Mögnuð mynd eftir Max Rive
Mögnuð mynd eftir Max Rive

Leave a Reply