Áhrif ljósmynda

posted in: Ljósmyndablogg | 0

yellowstone-hot-springs_18342_600x450

Náttúruljósmyndun er gefandi. Það gleður mig þegar fólk hrífst af myndunum mínum af íslenskum náttúruperlum. Stundum finnst mér ég jafnvel færa fólki eitthvað sérstakt með því að sýna því myndir af stöðum sem það annars gæti ekki notið af ýmsum ástæðum.  Þegar mér tekst að fá áhorfandann til að upplifa í myndunum mínum þó ekki væri nema örlítið af þeim hughrifum sem ég verð fyrir úti í náttúrunni – þá er tilganginum náð.  Mér finnst Ísland svo fallegt að ég hef fundið einhverja köllun í því að deila því með öðrum.

Þess vegna held ég úti heimasíðu og Facebook-síðu. Þess vegna held ég sýningar og fer með fólk í gönguferðir. Þess vegna legg ég á mig langar gönguferðir, stundum í marga daga, til að taka þessar ljósmyndir og njóta náttúrunnar um leið. Þess vegna held ég fyrirlestra um náttúru og jarðfræði Reykjanesskagans sem ég hef ljósmyndað undanfarin sjö ár. Þess vegna skrifa ég og blogga.

Þetta brölt mitt í ótal gönguferðum um Reykjanesskagann frá árinu 2006 á sér tilgang. Ég er að reyna að vekja fólk til umhugsunar. Samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða er opnað fyrir þann möguleika að allt að 16 jarðvarmavirkjanir muni skera Reykjanesskagann endilangan frá Reykjanestá að Þingvallavatni með öllum þeim náttúruspjöllum sem því fylgir. Meðal þeirra svæða sem verða tekin undir orkunýtingu er Krýsuvík. Veit fólk þetta? Hefur fólk kynnt sér málið?
Mér finnst það ekki og þess vegna reyni ég  að vekja máls á þessu.

Þannig lít ég á mig sem náttúruverndarljósmyndara.  Náttúruverndarljósmyndun (Conservation Photography) á sér langa sögu.  Í árdaga ljósmyndatækninnar notaði William Finley ljósmyndir sínar til að sannfæra Roosevelt forseta um að stofnsetja fyrsta verndarsvæðið í Bandaríkjunum fyrir villt dýralíf. Verndarsvæðin urðu fjögur fyrir tilstilli Finleys og eitt þeirra nefnt eftir honum.

Ljósmyndir Williams Henry Jacksons áttu stærstan þátt í því að Yellowstone, fyrsti þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum, var stofnaður árið 1872. Þótt myndir hans væru svart/hvítar og sýndu ekki litadýrð hverasvæðanna í þjóðgarðinum (sjá efstu mynd) höfðu þær engu að síður áhrifamátt. Þá ber að nefna geysisterkar ljósmyndir Ansel Adams sem urðu til þess að King´s Canyon þjóðgarðurinn var stofnsettur árið 1940.

4_the-line-01
Þessi mynd Palíndromo Mészáros er ekki samsett. Eitraða, rauða boxítleðjan lagðist yfir þorpið og umhverfi þess með hrikalegum afleiðingum. Myndin er úr myndaseríu sem ljósmyndarinn kallar The Line og sýnir afleiðingar umhverfisslyssins.

Þessir ljósmyndarar fundu að fegurðin í myndunum væri sterkasta vopnið.  Í seinni tíð hafa náttúruverndarljósmyndarar einnig sýnt umheiminum með sláandi myndum hörmulegar afleiðingar af gjörðum mannanna í náttúrunni . Einn þeirra er t.d. Palíndromo Mészáros sem gerði áhrifamikla myndasyrpu af afleiðingum umhverfisslyss í Ungverjalandi fyrir tveimur árum þegar eitruð úrgangsleðja frá boxítvinnslu lak út og lagði heilt þorp í eyði.

Ljósmyndir hafa áhrif. Ein mynd segir meira en þúsund orð, segir einhvers staðar. Með nútíma samskiptatækni hafa á skömmum tíma opnast ótal möguleikar til að koma málefnum á framfæri. Einn sterkasti miðillinn í dag er videóið. Margir ljósmyndarar nýta sér hann. Það hef ég sjálfur gert og nýlega gerði ég t.d. hálftíma langa heimildarmynd um Krýsuvíkursvæðið þar sem ég nýti það myndefni sem ég hef tekið undanfarin ár í bland við myndskeið. Mér þætti vænt um ef þú horfðir á myndina, lesandi góður.  Í henni  fjalla ég um náttúru svæðisins og sögu og hvaða áhrif fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir munu hafa.  Ég veit ekki hvort þetta hafi áhrif en allavega hef ég einsett mér það að yfirgefa ekki sviðið fyrr en ég get verið fullviss um að ég hafi þó reynt það sem ég gat. Mér finnst það skipta miklu máli, hver sem niðurstaðan verður. Líklega mun þó bíða mín það verkefni að ljósmynda þessi svæði eftir að framkvæmdum líkur til að geta sýnt afleiðingar og áhrif. Því eins og Páll Ásgeir Ásgeirsson orðaði það svo vel í erindi sem hann flutti á Degi íslenskrar náttúru:

Þegar seinasti fossinn á Íslandi hefur verið virkjaður, síðasta hverasvæðið eyðilagt og háspennumöstrin varða sjóndeildarhring okkar hvar sem við komum verður ekki spurt: hver gerði þetta heldur hvað gerðir þú til þess að koma í veg fyrir þetta”.

Leave a Reply