Drónar eru skemmtileg tæki. En…

posted in: Ljósmyndablogg | 0

qr-x350-pro-a

 

Svokölluð flygildi eða drónar njóta vaxandi vinsælda. Með tiltölulega litlum kostnaði er hægt að koma sér upp slíku tæki sem veitir manni nýja möguleika við ljósmyndun og videotökur.  Margt ber að hafa í huga áður en maður skellir sér á slíkt tæki.  Að stjórna því er ekki svo auðvelt og krefst talsverðrar æfingar. Fari maður of geyst af stað getur farið illa. Það þekki ég vel eftir reynslu mína í sumar sem ég tel rétt að deila hér fyrir þá sem eru í drónahugleiðingum. Eftir þrjár harkalegar brotlendingar  (og nokkrar misharkalegar) með tilheyrandi tjóni er ég reynslunni ríkari og svolítið fátækari eftir að hafa þurft að kaupa varahluti og að lokum nýjan dróna. Ég þurfti sumé að læra þetta af harðri reynslu sem ég hefði komist hjá ef ég hefði ekki verið svona bráðlátur. Eftir að hafa fengið tækið í hendur fór ég með það út og ætlaði að leika mér. Hélt að það yrði nú lítið mál að stjórna þessu enda átti þetta að vera „ready to fly“ og „plug and play“. Hljómaði mjög einfalt. Þar hafði ég algjörlega rangt fyrir mér. Hér eru nokkur atriði sem ég hefði átt að fylgja í upphafi og hvet þig eindregið til að skoða ef þú ætlar að koma þér upp dróna.

1. Ekki fljúga tækinu fyrr en þú hefur lesið vandlega leiðarvísinn sem fylgir því.  Farðu sérstaklega vel yfir og lærðu undirbúning og stillingar (calibrate) fyrir flug. Það skiptir miklu máli. Skoðaðu myndbönd á Youtube þar sem reynsluboltar miðla af þekkingu sinni og reynslu. Lestu þér til á vefnum. Mæli t.d. sérstaklega með þessari síðu hérna: http://copter.ardupilot.com/

2. Mælt er með því að maður æfi sig fyrst í flughermi.  AeroSIM RC  Training Simulator þykir t.d. góður en með honum fylgir USB snúra sem gerir þér kleift að tengja fjarstýringuna þína við tölvuna og æfa þig með henni. Hann kostar um 100 dollara en þú átt örugglega eftir að eyða öðru eins og meira til í varahluti ef þú ferð of geyst af stað.

3. Þegar þú telur þig tilbúinn að prófa tækið, skaltu finna opið svæði, helst utan við þéttbýlið. Ekki fara út í hraun eða vera nálægt vatni, sjó, klettum og svo framvegis. Veldu helst opið, slétt svæði á graslendi. Það eru nefnilega miklar líkur á því að þú eigir eftir að brotlenda. Langflestir byrjendur lenda í því. Þá er betra að undirlagið sé mjúkt til að minnka hættuna á tjóni.

4. Gættu vel að þínu eigin öryggi og annarra. Alls ekki fljúga yfir byggð,  mannfjölda eða sjó og vötnum. Mér skilst að nokkrir drónar hafi endað ofan í Jökulsárslóni og þú vilt ekki að tækið þitt og myndavélin fái svipuð örlög. Þú vilt heldur ekki missa drónann þinn í höfuðið á einhverjum úr mikilli hæð. Dæmi eru um dauðsföll af þeim sökum.  Þessi tæki geta nefnilega dottið niður úr loftinu hvenær sem er.  Vertu því á öruggu svæði ekki síst á meðan þú ert að öðlast færni og reynslu.

5. Á meðan þú ert að kynnast tækinu og hreyfingum þess skaltu fljúga á mjög afmörkuðu svæði. Fljúgðu lágt og stuttar vegalengdir í einu. Hafðu þetta einfalt í byrjun, t.d. með því að fljúga bara fram og til baka áður en þú ferð að taka snúninga og beygjur. Æfðu þig í að fljúga á milli tveggja punkta og lenda tækinu á fyrirfram ákveðnum stað.  Umfram allt hreyfðu stýripinnana mjög lítið. Galdurinn á bak við farsæla flugferð er að vera mjög nettur á stýripinnunum.

6. Alls ekki skrúfa myndavél neðan á drónann þinn fyrr en þú hefur lært að stjórna honum. Ég var rétt nærri búinn að týna glænýrri 60 þúsund króna GoPro vél daginn eftir að ég keypti hana. Brotlenti drónanum harkalega, gimballinn brotnaði og myndavélin hentist út í móa. Fann hana loks eftir að hafa við þriðja mann skriðið á fjórum fótum um allan móann í dágóðan tíma.  Að taka á loft án þess að ganga úr skugga um hvort allt virki eins og það á að gera er ekki góð hugmynd. Þess vegna eru flugmenn alltaf með tékklista.

7. Gættu vel að flugtímanum. Ef hann er í tæknilýsingu sagður vera allt að 25 mínútum á rafhlöðuhleðslunni, þá skaltu hafa í huga að sá tími er miðaður við að flogið sé í logni (engin vindmótstaða) og enginn viðbótarbúnaður sé á vélinni, t.d. myndavél eða videosendir.  Haltu þig vel innan þess tíma til að vera öruggur. Það ku einnig fara illa með rafhlöðurnar að tæma alveg út af þeim. Þetta er sitt lítið af hverju af því helsta sem ég hef lært á hörðum steðja reynslunnar í sumar og vonandi getur hún nýst öðrum sem hyggjast koma sér upp dróna. Umfram allt gefðu þér tíma til að æfa þig. Og æfa þig ennþá meira. Þessi tæki eru meiriháttar skemmtileg þegar allt gengur vel og með þeim er hægt að gera magnaða hluti. Hér að neðan er t.d. ótrúlega flott video frá einum þeim besta í bransanum, Robert Mcintosh: