Stapavík er lítil og afar falleg klettavík við austanverðan Héraðsflóa. Sléttur fjörusandur í botni víkurinnar er girtur háum hömrum og skartar víkin meðal annars sjávarhellum, firnafallegum bergsúlum og tignarlegum fossi sem steypist fram af bjargbrúninni. Óhætt er að kalla Stapavík eina af náttúruperlum Austurlands og gönguferð í víkina er afar gefandi.
Að ganga í Stapavík er engin ofraun, gangan tekur um þrjár klukkustundir fram og til baka eftir þægilegri og fallegri gönguleið meðfram bökkum Selfljóts. Leiðin er stikuð eftir vel greinilegri slóð sem mun hafa verið kerruvegur í fyrri tíð. Lagt er upp frá bílastæði við túnfótinn á Unaósi og þar er skilti með upplýsingum um Stapavík Þar segir meðal annars að Stapavík eigi sér merkilega sögu sem tengist verslun við Krosshöfða við ósa Selfljóts, litlu vestan við víkina. Eftir að lending við Krosshöfða spilltist smám saman vegna sandburðar var varningi skipað upp í Stapavík eftir 1925. Vörurnar voru dregnar upp á spili eftir vír sem strengdur var þvert yfir víkina. Í fyrstu var spilinu snúið með handafli en síðar var settur upp mótorbúnaður sem virkaði þó aldrei almennilega svo menn urðu að reiða sig meira á handaflið. Spilið stendur enn á klettabrúninni sem minnisvarði um þennan kafla í athafnasögu svæðisins. Einnig sést þar grunnur vörugeymsluhúss. Aðstæður í Stapavík voru alltaf fremur erfiðar. Árið 1933 lést bóndinn á Unaósi við útskipun þar og skömmu síðar skemmdist búnaðurinn í miklu brimi. Vörum var síðast skipað upp í Stapavík árið 1939 en eftir það var landað aftur við Krossvíkurhöfða til ársins 1945 og þar með lauk verslun á staðnum. Um það leyti hafði komist á vegasamband til nálægra fjarða og þá loks var hægt að stóla á vöruflutninga frá öruggum höfnum, samkvæmt því sem kemur fram á upplýsingaskiltinu.
Stapavík er sannkölluð náttúruperla en hún dregur nafn sitt af stapa miklum sem gnæfir yfir víkinni og ef vel er að gáð má sjá í honum ábúðarfullt andlit sem horfir til hafs. Best er að virða hann fyrir sér af sandinum í botni víkurinnar en til að komast þangað þarf að fikra sig niður bratta skriðu meðfram klettaveggnum vestan megin víkurinnar. Það þarf svosem enga ofurhuga í það en betra er að fara varlega og nota bæði hendur og fætur til að tryggja festu og öryggi. Þau sem ekki treysta sér niður skriðuna geta notið útsýnis yfir víkina frá þar til gerðum palli á bjargbrúninni.
Ofan við víkina rennur Stapavíkurlækur sem steypist fram af brúninni í háum og tignarlegum fossi niður í fjöru. Með því að ganga út með læknum er hægt að virða fyrir sér fossinn frá góðu sjónarhorni og að sjálfsögðu smella mynd af honum með áðurnefndum stapa en þetta hvorutveggja á ríkan þátt í að skapa þá miklu náttúrufegurð sem Stapavík býr yfir. Gönguferð í Stapavík á fallegum degi er afar gefandi og um að gera að setja á dagskrá þegar ferðast er um austurland.