Náttúrupælingar á Mýrdalssandi

posted in: Ljósmyndablogg | 0

„Það er rigning og myrkur og meinlegir skuggar
á Mýrdalssandi og hvergi skjól að fá.“

Flestir ættu að kannast við þessar línur úr Mýrdalssandi, þekktu dægurlagi sem Bubbi Morthens og Rúnar Júlíusson fluttu fyrir mörgum árum við miklar vinsældir. Í texta lagins er kaldranalegum andblæ lífvana auðnarinnar lýst, þar sem „óttinn fangar þig með sína ísköldu hlekki og þú sleppur ekki“.  
Margt býr í þokunni og ekki þykir gott að vera einn á ferð þar sem  „menn finna sárt til ömurlegrar auðnar og allsleysis við að líta yfir þetta heljarveldi dauðans og auðnarinnar þar sem ekkert strá vex og engin skepna staðnæmist“, eins og Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)  lýsir Mýrdalssandi í bókunum Sögur frá Skaftáreldi, sem komu út í árið 1912 og 1913.  „Á slíkri reginauðn verður lítið úr hverjum manni,“ segir Jón Trausti í sínum magnþrungnu náttúrulýsingum.
En er hægt að draga þessa sömu stemmningu fram í ljósmynd?

Hugrenningartengsl við hið myndræna.

Dramatísk ljósmynd, þar sem þykk þoka sveipar svarta sandauðnina óræðri dulúð getur kallað fram hughrif og tilfinningu fyrir óendanlegri víðáttu einsemdar og tómleika þar sem auðvelt er að villast í myrkri og þoku. „Ein mynd segir meira en þúsund orð“, er orðatiltæki sem flestir kannast við. En stundum er það hægara sagt en gert. Erfitt getur verið að lýsa myndrænt einhverju sem býr í hugarheimi heillar þjóðar. Við getum reynt að skapa þessi ákveðnu hugrenningartengsl í mynd en það verður ekki gert með góðu móti ef áhorfandinn hefur ekki tengslin við þann hugarheim sem orðið hefur til í sambúð þjóðar við óblíð náttúruöflin í landi sem um aldir var svo harðbýlt að kalla mætti á mörkum hins byggilega. Rætur þessarar stemmningar og hughrifa, sem ljóðskáld, rithöfundar, listmálarar og ljósmyndarar hafa reynt að draga fram í verkum sínum í gegnum aldirnar, ljóðrænt og myndrænt, liggja í sagnaarfinum og sambandi manneskjunnar við náttúruna. Íslensku þjóðsögurnar bera um það glöggt vitni. Erfitt er að koma þessum hughrifum á framfæri við þann sem ekki er í neinum tengslum við náttúruna og söguna. Hann sér bara mynd af þoku og svörtum sandi og finnst lítið til koma.

Forneskjan og ímyndunaraflið.

Rithöfundinum Jóni Trausta tekst hins vegar afar vel að koma þessu til skila af einskærri ritsnilld þegar hann segir frá ferð sögupersónanna Vigfúsar og Ólafs gamla yfir Mýrdalssand. Þeir höfðu hist í Hafursey og ákveðið að verða samferða yfir sandinn. Texti Jóns Trausta, þegar hann lýsir því sem hann kallar „forneskjuna“, er svo magnþrunginn og leiftrandi að hann vekur auðveldlega upp ímyndunarafl lesandans og gerir ljóslifandi fyrir honum þann hugarheim sem að ofan er getið, eitthvað sem erfitt væri að gera með ljósmynd.

„Allt þetta svipmikla landslag var mjúkt og milt vegna veðurblíðunnar. Þýð lognmóða lá yfir því öllu, svipur náttúrunnar var móðurlega ástúðlegur, fullur blíðu og alvöru. Þetta hrikaríki dauðans og auðnarinnar blessaðist af kyrrð og friði vorsins og yl og yndisleik himinsins. Samt var eitthvað þunglyndislegt, nærri því raunalegt í þessu öllu saman, eitthvað dularfullt og varhugavert. Mýrdalsjökull bjó yfir mörgum þungum minningum og mörgum geigvænlegum spádómum. Inni á milli þessara bláu hnúka í norðrinu lá eldgjáin mikla. Einhverntímann í fyrndinni höfðu hraun frá henni runnið alla leið fram í sjó. Hvernig færi nú ef jörðin færi að skjálfa og fjöllin að gjósa eldi? Hvernig færi nú ef skriðjökullinn springi og spyrntist fram á sandinn fyrir ofurmagni vatnsflóðsins? Þá kæmi dauðinn hastarlega yfir allt sem þar lifði.
Svo ógurlega atburði þurfti ekki til. Aðrir tíðari og hverdagslegri voru meiri en nóg til þess að ekki yrði mikið úr þessum mannpeðum sem voru að mjakast um sandinn. Hvernig færi ef afspyrnurok brytist fram á milli þessara kröppu fjalla og breyttu öllum sandinum í glórulaust moldviðri? Hvernig færi ef blindbylur brysti á eða þétt logndrífa þar sem allt var slétt og vegalaust?


Þeir Vigfús og Ólafur gamli voru ekki að hugsa um þetta en það læddist þó að þeim óvörum. Náttúran vafði allar hugsanir þeirra og tilfinningar hárfínum vef sem þeir vissu ekki af. Einhverju sem gagntók þá með hljóðlátri alvörugefni og undarlegum, óljósum beyg. Þeir gáfu útsýninu engan gaum en það læsti sig samt inn í meðvitund þeirra og lagði þar allt með litblæ sínum. Þar voru engir glampandi sólskinsfletir né geigvænlegir skuggar heldur allt milt og móðudregið, samlitt, svipdökkt og leyndardómsfullt. Þeir fetuðu götuslóðan hvor á eftir öðrum, Vigfús á undan og Ólafur á eftir […] Langa stund eftir að þeir fóru af stað úr Hafursey töluðu þeir fátt saman, ekki nema orð og orð á stangli. En jafnframt því sem gekk á sandinn, gekk einnig á daginn og loftið varð svalara. Þá fór samtal þeirra að lifna við. Og þá greip það til strengjanna sem innst lágu og dýpst í eðli þeirra beggja. Það sem borið var af náttúrunni, eyðilegri og viðsjárverðri og náttúran sjálf afturvakti til máls með svip sínum og útliti. Það var FORNESKJAN – þetta illa og óguðlega sem dregur að sér sálir mannanna með alsigrandi hrikaleik og skelfir þá jafnframt frá sér með feigð og firnum. Þetta, sem eins og stígur upp af jörðinni þar sem hún er auðust og ægilegust og lyftir huganum á risavöxnum öldum yfir allan veruleika. Þetta, sem gefur ímyndunaraflinu sterka, stælta vængi og skerpir svo sjónina að hún sér í gegnum holt og hæðir. Sér sálirnar í steingervingum náttúrunnar. Þá verður allt fullt af lifandi verum, sýnilegum og ósýnilegum, að ýmsu leiti með mannseðli í stórum og hrikalegum myndum en að ýmsu leiti líka með eðli ferlíkja og fláttskapar, sem hefur yndi af dauða og tortímingu.

Fjöllin fyrir norðan þá voru ekki auð og óbyggð. Nei, þar bjuggu tröll og forynjur. Sannorðir menn höfðu mætt þeim á sandinum hvað eftir annað, þegar þau fóru fram að sjó til að sækja sér vænan landsel í soðið. Sumir höfðu gert þeim greiða, lánað þeim hestana sína þegar illa stóð á fyrir þeim og þegið af þeim margfalda þökk órjúfandi vináttu með þeirri tryggð sem tröllum einum er gefin. Aldrei báðu þau mennina um neitt sem þeir gátu ekki veitt þeim ef þeir vildu. En ef þeir neituðu þeim um greiðann vissu þeir síðar í hverju horninu þeir höfðu þau. Og þeir voru ótaldir sem þau höfðu tekið og étið.
Í nábýli og jafnvel tvíbýli við tröllin bjuggu útilegumennirnir. Í rótargiljum og jökuldölum höfðu menn orðið þeirra varir. En hver þekkti alla þá dali sem ef til vill lágu inn á milli jöklanna? Heimturnar á haustin sýndu það best hvort ekki var nóg til af þeim. Og þeir sem höfðu komist í klærnar á þeim norður í óbyggðum fýstust ekki þangað aftur. Vötnin, sem ultu kolmórauð undan jöklunum, voru full af óvættum í öllum myndum. Þau voru þjóðgötur sjóskrímslanna til stórra, djúpra og dimmra vatna sem lágu undir jöklunum og ekkert mannsauga hafði séð. Á þau vötn skein hvergi sól og þar kunnu þessi kvikindi við sig. Svo kom það fyrir, þegar þau voru á leiðinni upp eftir jökulánum að þau villtust upp í tæru árnar en komust þá í ógöngur. Þá gengu þau á land til að leita að réttri leið. En sælir voru þeir sem ekki urðu þá fyrir þeim. Árnar á Mýrdalssandi voru illræmdar fyrir skrímsli.

Á sandinum sjálfum voru vofur á reiki. Það voru svipir dáinna manna sem þar höfðu farist af slysum. Hver leið um sandinn var mörkuð óteljandi mannaleifum, fleiri en nokkur vissi. Allsstaðar lá feigð og hætta í leynum og vakti yfir hverju misstignu spori. Þegar dimmt var á sandinum fóru vofurnar á kreik. Þá heyrðist til þeirra í öllum áttum eins og spunnar væru snældur. Og þá brá þeim fyrir á sandinum í líki vina eða vandamanna vegfarandanna. Öll starfsemi þeirra laut að því að villa menn og leiða þá í ógöngur.

Og loks var sjórinn við sandana. Hann söng líka yfir sínum römmu og raunalegu minningum og sínum ömurlegu óheillaspám. Hvenær rann sá dagur að það væri víst að ekki væri lík að velkjast þar í brimgarðinum? Hvenær hafði síðasti skipstapinn orðið og hvenær myndi sá næsti verða? Eins og hamrammur griðungur beljaði hann mönnum ógnanir og ósköp í eyru bæði nætur og daga. Hann var líka byggður yfirmannlegum verum. Þar heyrðust neyðarvein og skelfingaróp, formælingar og ferlegar særingar í brimsúgnum. Sjódrukknaðir menn risu upp og börðust við brimrótið. Bátar, sem enginn maður vissi deili á, renndu sér þar eins og hvalfiskar, stungu sér í gegnum öldurnar og sýndu ýmist á sér borðstokkana eða botninn. Og þegar minnstum vonum varði kom skip af hafi með himinkljúfandi strók af seglum. Það öslaði áfram í öskuroki beint  upp í sandinn. Þar stóð það blýfast og sjóarnir brotnuði á því. Illa farnaðist þeim sem þá brugðu við til bjargar. Þeir lentu í síki og sandbleytum, tíndu gripum sínum eða jafnvel sjálfum sér því að skipið var draugaskip. Það var strandað fyrir mörgum öldum, sandorpið fyrir löngu. Það hafði verið ræningjaskip, guðs reiði elti það upp í sandinn og hvert mannsbarn týndist.“

Horft í suðurátt yfir jaðar Kötlujökuls niður með Múlakvísl. Hafursey til vinstri og fjalllendi Höfðabrekkuafrétta á hægri hönd. Undan sporði Kötlujökuls hafa flest hamfaraflóðin komið í Kötlugosum. Tuttugu slík hafa orðið síðan land byggðist og af engum jökli hér á landi stendur meiri ógn eins og Mýrdalsjökli, sem hefur að geyma illræmdustu eldstöð landsins, sjálfa Kötlu. Kötluhlaup eru með stærstu vatnsflóðum á jörðinni.
__________________________________________________________________________

Samband þjóðar og náttúru í þjóðtrúnni.

Skáldskapargáfa þjóðarinnar hefur frá fornu fari verið nátengd hinu dularfulla í tilverunni. Lengi vel var fáfarið um óbyggðir landsins sem voru afskekktar og erfiðar yfirferðar. Um þær þorðu fáir að ferðast og helst ekki nema af brýnni nauðsyn. Íbúar landsins báru óttablanda lotningu fyrir náttúrunni, ægiöflum hennar og hinu óþekkta sem í henni gat leynst. Sú tilfinning gat af sér hrikalegar sögur og sagnir um náttúruvætti landsins þar sem tveir heimar kölluðust á; heimar manna og vætta. Undir þetta kynnti myrkur skammdegisins, nauð vindanna og kynjamyndir klettanna.  Í uppeldi kynslóðanna var ungviðinu innrætt að storka ekki þessum dularfullu öflum, því þá gat farið illa. Þau voru frædd um örnefni á stöðum sem best var að forðast vegna þess að þar var „eitthvað óhreint“.  Ekki var gott að vita hvað bjó í dulúð þokunnar og né heldur skyldi maður styggja íbúana í klettahamrinum. Á vegi manns gátu orðið urðarkettir, skoffín, skuggabaldrar, finngálgn, nykrar, galdraflugur og skeljaskrímsli, svo ekki sé nú talað um tröll og útlegumenn. Og ill voru þau örlög að lenda í klónum á Karlinum undir klöppunum. Allt þetta hyski bjó utan garða og þá var eins gott að maður hætti sér ekki einsamall of langt frá bæ. Brýnt var fyrir börnunum að steypa aldrei undan smáfuglum í móanum og sundra hreiðum þeirra, elta ekki uppi mýs í haga og deyða þær og  aldrei slíta niður dordingulsvef, þá myndi ógæfan elta mann jafnvel ævilangt. Þannig var börnunum innrætt mannúð og virðing gagnvart öðru lífi og náttúrunni allri. Siðferðisboðskapurinn átti þannig sterkar rætur í þjóðtrúnni, sem gekk í arf kynslóð fram af kynslóð. En þjóðtrúin var ekki eingöngu tómar bábiljur. Hún er samansafn af reynslu kynslóðanna um aldir. Hún geymir jafnt hin dýpstu sannindi sem ímyndanir og hugarflug, hún er samansafn af skáldskap og hagnýtum hyggindum, þrungin djúpri merkingu.  Hún kenndi aga, varúð og hvöt til manndóms.

Þennan hugarheim í þjóðarvitundinni er erfitt að myndgera í ljósmynd. Við getum ljósmyndað stórbrotið landslagið, tignarleg eldfjöllin og jöklana, leiftrandi fossana, litskrúðug hverasvæðin, víðáttumikil öræfin, dulúðuga eyðisandana  og leyndardómsfulla hraunflákana. Í bland við þjóðlegt stolt og lotningarfulla hrifningu yfir óendanlegri fegurð landsins geta slíkar myndir auðveldlega vakið þessa tengingu og hughrifin sem hún getur af sér. En til þess þarf áhorfandinn auðvitað að þekkja rætur sínar.

Horft í vestur yfir bæjarrústirnar á Hjörleifshöfða yfir Mýrdalssand. Reynisfjall og Reynisdrangar í fjarska. 
Fram á 14. öld náði sjórinn að höfðanum en hann er nú um 2,5 km frá sjó.
Við síðasta Kötluhlaup árið 1918 varð Kötlutangi syðsti oddi Íslands er hann færðist fram um 3 kílómetra.
Þar sem áður var 20 faðma dýpi var komið flæðarmál.
__________________________________________________________________________________________
Vetrarstilla á Mýrdalssandi. Hjörleifshöfði rís upp úr auðninni.
__________________________________________________________________________________________
Horft yfir endalausa víðáttu Mýrdalssands frá Höfðabrekkuafrétti, ofan Þakgils.
__________________________________________________________________________________________
Ekki þótti gott að vera einn á ferð á Mýrdalssandi.
_____________________________________________
Karl og kerling gleymdu sér í kossaflensi út í hrauni og urðu að steini. Svona kynjamyndir í náttúrunni hafa orðið uppspretta marga þjóðsagna. Myndin er tekin í Eldhrauni, gríðarlegu hraunflæmi sem tekur við þar sem Mýrdalssandi sleppir að austanverðu. Hraunið rann í Skaftáreldum 1783 – 1784, sem Jón Trausti gerir að sögusviði bóka sinna Sögur frá Skaftáreldi. Lýsingar hans á hamförum þessum eru magnaðar.