Kvíárjökull – Falin perla við þjóðveginn

posted in: Íslandsperlur | 0

Kvíárjökull er skriðjökull sem skríður niður sunnan við Öræfajökul. Þar er að finna stórbrotið landslag sem margir veita litla athygli þegar þeir bruna eftir hringveginum um Öræfasveit og nærliggjandi svæði sunnnan Vatnajökuls. Samt er þessi náttúruperla nánast alveg við þjóðveginn en hún lúrir í felum á bak við mikla jökulruðninga sem gefa svæðinu tilkomumikinn svip þegar betur er að gáð.

Kvíárjökull er nánast við þjóðveginn. Til vinstri er Kvíármýrarkambur og Kambsmýrarkambur hægra megin. Þessum jökulöldum ruddi jökullinn upp þegar hann var upp á sitt besta.
______________________________

Þegar ekið er austur þjóðveginn sýnist jökulaldan vera myndarleg hæð í landslaginu en hinum megin við hana er landslag sem vert er að skoða. Hægt er að beygja af veginum inn á malarveg sem liggur um mynni jökulgarðanna en skammt fyrir innan er bílastæði. Þaðan er hægt að fá sér göngutúr inn að litlu jökullóni framan við sporð Kvíárjökuls og virða fyrir sér það hrífandi landslag sem þarna mætir manni.
Það sem helst gerir Kvíárjökul og svæðið við hann svo stórfenglegt eru þær gríðarmiklu öldur sem jökullinn hefur rutt upp þegar hann var upp á sitt besta. Sýna þessir jökulgarðar vel hversu langt jökullinn náði í byrjun síðustu aldar. Jökulaldan austan megin við ánna Kvíá er kölluð Kambsmýrarkambur og er um 129 m hár, en vestan megin við ánna er Kvíármýrarkambur sem er um 150 m hár, skv því sem fram kemur á vefsíðu Vatnajökulsþjóðgarðs. Þótt jökullinn sé í dag vart svipur hjá sjón miðað við það sem hann áður var, er hann fyllti upp í kvína milli jökulruðninganna, er engu að síðar áhrifamikið að sjá þessi ummerki eftir hann. Þegar jöklar gengu hvað mest fram á 19. öldinni mun jökultungan hafa svo gott sem fyllt upp í kvína milli kambanna.
Sem fyrr segir er þetta stutt frá þjóðvegi 1 og því tilvalinn staður til að gera stuttan stans og njóta magnþrunginnar náttúru.

Pínulítið fólk í stórbrotnu landslagi jökulsins.
__________________