The Shambles: Í anda Harry Potter

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Borgin York í Norður- Yorkshire á Englandi er einkar áhugaverð og sjarmerandi með mikla og aldagamla sögu og menningu. Á meðal gimsteina borgarinnar er dómkirkjan York Minster en hún er næststærsta gotneska dómkirkjan Evrópu, á eftir dómkirkjunni í Köln. Elstu hlutar hennar eru frá 8. öld, en núverandi kirkja var vígð 1472. Í kirkjunni eru m.a. stærstu kirkjugluggar Englands, allt að 15 metra háir.  Þetta er stórbrotin bygging sem gaman er að skoða. Annað djásn borgarinnar er húsaröðin The Shambles en þegar gengið er eftir þröngu, hellulögðu stræti hennar kemur Harry Potter upp í hugann.

Þegar komið er í The Shambles verslunargötuna er engu líkara en maður sé staddur í kvikmyndasetti í Harry Potter mynd en sagt er að hún sé ein af fyrirmyndum Diagon Alley í þeim þekkta söguheimi. Flestar byggingarnar eru frá 14. og 15. öld og þykir gatan ein sú best varðveitta á heimsvísu frá þessum tíma.  Fyrr á tímum höfðu slátrarar borgarinnar bækistöðvar og starfsemi í götunni og er nafn hennar dregið af því. Slátrararnir eru löngu horfnir og þar sem nýslátrað kjöt hékk áður á krókum yfir  söluborðum slátraranna eru nú verslunargluggar þar sem líta má ýmsan áhugaverðan söluvarning, handverk og fleira. Yfir sumum gluggunum má ennþá sjá gömlu kjötkrókana . Gaman er að rölta eftir götunni, skoða mannlífið, renna niður alvöru chappuccino á einu kaffihúsanna og kíkja í búðirnar. Meðal þeirra er að finna nokkrar galdrabúðir í anda Harry Potter myndanna þar sem kaupa má þarfaþing eins og galdrasprota.  

Meðfylgjandi myndir tók ég fyrir tæpum tveimur árum á ferð minni í York. The Shambles er einkar skemmtilegt myndefni og eflaust væri gaman að vera þar með myndavélina árla morguns áður en strætin fyllist af fólki.