Ummerki náttúruhamfara á Skeiðarársandi

posted in: Íslandsperlur | 0

Þann 4. nóvember 1996 hófst ógnarmikið hlaup í Skeiðará þegar gríðarlegt magn bræðsluvatns braust undan sporði Skeiðarárjökuls, ruddist niður sandinn og olli miklu tjóni á vegum og brúarmannvirkjum. Þetta er talið mesta Skeiðarárhlaup Íslandssögunnar. Vatnsmagnið náði 45 þúsund rúmmetrum á sekúndu eða sem nemur hundraðföldu rennsli Ölfusár. Flaumurinn bar með sér feiknastóra, tuga tonna ísjaka langt niður á sandinn, marga á stærð við nokkurra hæða hús. Í dag má sjá skýr ummerki eftir þetta hamfarahlaup á Skeiðarársandi og önnur á undan, sem sjá má í meðfylgjandi myndefni.

Stór Skeiðarárhlaup bera með sér mikla ísjaka niður á sandinn þar sem þeir stranda. Með tímanum bráðna þeir og eftir verða gígar sem kallast jökulker. Þegar svæðið er skoðað úr lofti má sjá fjöldann allan af þessum gígum eftir Skeiðárhlaup fyrri tíma.
________________________________________


Fimm vikum fyrr, þann 30. september, hafði eldgos byrjað í Gjálp og lauk því 13. október. Búist var við hlaupi, enda mátti reikna með að gosið hefði brætt milljónir rúmmetra af ís þegar það braust upp úr jöklinum gegnum 500 metra þykka íshelluna. Hlaupið lét hins vegar standa á sér. Bræðsluvatnið rann undir jöklinum niður í Grímsvötn og safnaðist þar fyrir. Vatnið lyfti smám saman íshellu Grímsvatna þar til 4. nóvember að ísstíflan þar brast með feiknamiklu hlaupi. Það kom meðal annars fram í farvegum Skeiðarár og Gígjukvíslar og varð hámarksrennsli þess um 45 þúsund rúmmetrar á sekúndu, sem fyrr segir. Krafturinn var gífurlegur og vatnsmagnið engu líkt. Mér eru minnstæðar magnaðar fréttamyndir Ómars Ragnarssonar sem hann tók úr flugvél yfir jöklinum þegar þetta var að gerast. Þar mátti glögglega sjá hversu ótrúleg og mikilfengleg ógnaröfl voru þarna að verki. Mikið tjón hlaust af þessum hamförum. Brúin yfir Gígjukvísl flaut í burtu og miklar skemmdir urðu á Skeiðarárbrú. Um 15km af þjóðveginum skolaði í burtu. Einnig varð tjón á rafmangslínum og ljósleiðara. Þegar yfir lauk hafði ströndin færst fram um 900 metra vegna þess mikla aurs sem flóðið bar með sér og íshellan yfir Grímsvötnum hafði sigið um 150 metra.

Svartur ís við jaðar Skeiðarárjökuls. Hér eru upptök Gígjukvíslar. Framundan sést inn í Morsárdal með Morsárjökul í botni hans. Til hægri við hann er Skaftafellsheiðin og Kristínartindar upp af henni. Lengst til hægri gnæfir svo Öræfajökull yfir í þessu stórbrotna landslagi.
_______________________________


Undirritaður fór í eftirminnilegan könnunarleiðangur upp með Gígjukvísl stuttu eftir þetta hamfaraflóð. Þar mátti sjá gríðarstóra ísjaka sem borist höfðu með flaumnum niður sandinn og strandað þar. Sumir jakarnir voru á stærð við íbúðablokkir, tugir tonna á þyngd, þvílíkur var krafturinn í flóðinu. Myndirnar sem ég tók glötuðust því miður í húsbruna fyrir tveimur árum. En sú ótrúlega sjón sem mætti manni þarna á sandinum lifir vel í minningunni.
Ummerki eftir þessar hamfarir og önnur Skeiðarárhlaup á undan eru mjög greinileg á sandinum. Jakarnir bráðna með tímanum og skilja eftir sig gíga eða jökulker eins og þeir kallast og má sjá fjöldann allan af þeim á sandinum. Þegar ekið er eftir þjóðveginumm um Skeiðarársand, er best að beygja við skilti um miðjan sandinn, merkt Háöldukvísl. Það er um 14km vestan við Skaftafell. Haldið er upp með kvíslinni í átt að jöklinum eins og langt og komist verður uns komið er að Gígjukvísl. Þar má sjá útfall hennar. Frá þessum stað er gott útsýni upp Skeiðarárjökul, til Skaftafellsfjalla, inn í Morsárdal, til Skaftafellsheiðar og Öræfajökuls. Frá þjóðveginum og að Gígjukvísl eru ekki nema um 2 kílómetrar þannig að þetta er áhugaverður og flottur áfangastaður á ferð um hringveginn.