Firnafalleg fjalladýrð Borgarfjarðar eystri

posted in: Íslandsperlur | 0

Óvíða má sjá jafn stórfenglega fjallasýn og á Borgarfirði eystri, sem er umkringdur tignarlegum og litríkum líparítfjöllum, sem láta engan ósnortinn af þeirri miklu náttúrufegurð sem þar blasir við. Þegar horft er á þessi fjöll úr lofti má sjá hversu mögnuð þau náttúruöfl hafa verið sem skópu þessa stórkostlegu fjallabálka umhverfis Dyrfjalla- og Breiðuvíkureldstöðvarnar, sem eru tvær af mörgum fornum, útkulnuðum megineldstöðvum Austfjarða.

Talið er að hvergi á Íslandi sé að finna ummerki jafnstórra sprengigosa eins og í Borgarfirði og Loðmundarfirði. Roföflin hafa farið óblíðum höndum um þessi fjöll sem m.a. má sjá á miklu framskriði jarðvegs úr þeim og einkenna landslagið í kringum þau. Þessi fjöll gætu verið um 10-13 milljón ára gömul. Helstu fjöllin eru Dyrfjöll, Staðarfjall, Geitfell og Svartfell. Fjöllin eru úr ljósu líparíti sunnan fjarðar en Borgarfjörður er á mótum líparít- og blágrýtissvæðis og fyrir botni fjarðarins og þó einkum norðan hans er blágrýti mest áberandi.

Eitt sérkennilegasta fjallið á þessum slóðum er Hvítserkur, sem einnig hefur fengið nafnið Röndólfur, líklega vegna dökkra bergæða sem skera fjallið þvers og kruss. Flikruberg verður til í miklum sprengigosum og er ekki óalgengt á Íslandi en einstakt er að finna heilt fjall myndað úr flikrubergi. Olgeir Sigmarsson, jarðfræðingur skrifaði fróðlega og greinargóða lýsinginu af myndunarsögu Hvítserks í Gletting, sem lesa má nánar hér. Hann segir Hvítserk einstaklega vel varðveitt dæmi um viðsnúið landslag. Þar er átt við jarðlög sem lögðust í lægðir á myndunarstigi sínu en finnast nú hærra í landslaginu en eldri jarðmyndanir umhverfis þau.

Olgeir segir ljóst að mikið hafi gengið á þegar fjöllin austur og suður af Borgarfirði mynduðust og talar um frávik í íslenskri jarðfræði.
„Óvenjumikil framleiðsla á súru bergi virðist hafa átt sér stað á allstóru svæði og á jarðfræðilega mjög skömmum tíma. Það er full ástæða til að reyna að skilja betur hverjar orsakirnar voru fyrir þessu fráviki í íslenskri jarðfræði,” skrifar Olgeir.

Meðfylgjandi ljósmyndir og myndskeið tók ég á ferð minni um svæðið í júní síðastliðnum. Þau eru allnokkur skiptin sem ég hef komið niður í Borgarfjörð og alltaf er landslagið og fjalladýrðin jafn hrífandi.
Fyrir þá lesendur sem vilja kynna sér betur jarðfræði svæðisins þá er hér tengill á ágæta grein úr Glettingi eftir Lúðvík Eckardt Gústafsson, jarðfræðing.

Fjallið Hvítserkur með Dyrfjöllin í fjarska. Hvítserkur er sérkennilegt fjall að lit og lögun, úr ljósu flikrubergi og skorið þvers og kruss af blágrýtisgöngum.

Staðarfjall í stórbrotnu umhverfi litfagurra líparítfjalla.

Svartfell heitir fjallið fremst, ljósa fjallið þar fyrir aftan er Súlutindur og vinstra megin við Svartfellið er Geitfell. Hér má glögglega sjá hvernig landslagið hefur mótast af miklu framskriði jarðvegs úr fjöllunum, í Svartfelli stendur bergstálið eitt eftir.

Þorpið Bakkagerði og Dyrfjöllin í bakgrunni. Tæplega 90 manns hafa fasta búsetu í þorpinu.