Þerribjarg og Landsendi – Á slóðum Jóns lærða og Eyjaselsmóra

posted in: Íslandsperlur | 0

Þerribjarg er heiti á afar fallegri náttúruperlu undir Kollumúla við nyðri enda Héraðssands. Þar eru mjög litrík björg sem tilheyra fornri, útkulnaðri megineldstöð, um 14-15 milljóna ára gamalli, sem kölluð er Fagradalseldstöð. Hún er mikið rofin við haf svo innviðir hennar blasa við í mikilfenglegum berggöngum, keilugöngum og bergæðum, sem skera fagurgul berglögin þvers og kruss. Fagradalseldstöðin er líklega elst megineldstöðva á Austurlandi og að hluta til sokkin í haf þannig að í raun má sjá þarna þversnið af eldfjalli.


Sumarið 2008 fór ég í eftirminnilega gönguferð með hressu fólki úr Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs niður í fjöruna undir þessum björgum. Reyndar var þetta á köflum meiri klifurferð heldur en gönguferð því við þurftum stundum að nota bæði hendur og fætur til að fikra okkur niður þessar snarbröttu hlíðar eftir örmjórri kindagötu. En að standa þarna niðri í fjörunni undir þessum stórkostlegu hengiflugum var algjörlega magnað og ólýsanlegt. Er fjaran kölluð Langisandur. Á leiðinni þangað er gengið niður að Múlahöfn. Þar má sjá gamlar tóftir en útræði var stundað frá Múlahöfn um aldir. Höfnin er frábær náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu. Múlahöfn var gerð löggild verslunarhöfn árið 1890 en aðeins var skipað þar upp einu sinni þar sem erfitt var að koma vörum til byggða.

Göngufólk í fjörunni undir stórkostlegum björgum Þerribjargs. Fjaran er kölluð Langisandur.
___________________


Áður en ekið er upp á Hellisheiði eystri austan megin er komið að Landsenda. Upplagt er að leggja bílnum við veginn og fá sér göngutúr eftir fallegri gönguleið út að Landsendahorni þar sem virða má fyrir sér litfögur strandfjöllin sem eru úr líparíti. Ofan við svokallaðar Móvíkur er um 2-300 metra há fjöll og snarbrattar skriður. Á Landsenda var búið fyrr á öldum og sjá má minjar um það á svæðinu. Ásamt Landsendabýlinu var þar forn verstöð sem nefndist Ker. Á upplýsingaskilti er að finna fróðleik um dvöl Jóns lærða á Landenda á árunum 1632 – 1635. Hann kom þangað 58 ára gamall eftir hrakningsferð um hávetur 1632. Hafði mistekist að koma honum með haustskipi til Kaupmannahafnar eftir að hann hafði verið dæmdur á Bessastöðum til útlegðar af Íslandi fyrir galdra og kukl. En Jón átti velunnara sem komu honum í skjól á Landsenda. Sem gamall útræðisbóndi af Ströndum var hann kominn þar í kunnuglegar aðstæður, sér til bjargar. Ekki var honum samt lengi vært á Landsenda. Nýr umboðsmaður höfuðsmanns lýsti eftir Jóni á Alþingi sumarið 1635 og lagði fé til höfuðs honum. Brugðu velunnarar Jóns á það ráð að koma honum fyrir í Bjarnarey fyrir mynni Héraðsflóa. Þar var hann uns hann silgdi til Kaupmannhafnar og fékk dóm íslenskra yfirvalda felldan úr gildi.

Einhvern veginn er það nú svo að sögufrægir staðir á Íslandi eru fremur lítilmótlegir ef ekki hefur verið þar alminnilegur draugagangur. Og Landsendi átti sinn draug, Eyjaselsmóra sem ku vera með mögnuðstu draugum sem hafa verið vaktir upp á Íslandi. Hann var pestardraugur, sagður hafa risið upp úr meðalaglasi á Ketilsstöðum, næsta bæ fyrir innan Landsenda en flutti sig svo í Eyjasel, austar á Héraðssandinum. Mun draugsi hafa verið nokkuð fyrirferðarmikill í 150 ár og drap bæði menn og skepnur. Var hans vart allt til 1930.
Ég hafði um nokkurn tíma gælt við þá hugmynd að fljúga drónanum út með þessum stórbrotnu björgum og mynda þau. En til þess þurfti helst að vera logn því ég þurfti að fljúga drónanum um 6km vegalengd og samt eiga nóg eftir af rafhlöðunni til að geta myndað og síðan flogið honum til baka. Og þar sem það er yfirleitt vindur á daginn og logn á nóttunni, gekk ég eina fagra sumarnótt í júní síðastliðnum með drónann út á Landsendahorn og var þar staddur um hálfþrjúleitið þegar sólin var að koma upp með hlýrri og fallegri birtu í nánast logni, hitti sumsé á kjöraðstæður. Það var dásamlegt að vera þarna einn með sjálfum sér í kyrrlátri sumarnóttinni og gera það sem mér finnst skemmtilegast. Þessi skot má sjá í meðfylgjandi myndbandi.

Í fjörunni undir björgunum má finna þessa sérkennilegu grjóthnullunga.

Dökkar bergæðar skera ljóst líparítbergið. Þarna má í raun sjá þversnið af fornri eldstöð sem er að sökkva í haf.
__________________

Selskópur spókar sig í fjörunni á Landsenda.
_________

Horft niður í Múlahöfn, þar sem sjá má tóftir eftir fyrri tíðar athafnasemi manna. Útræði var þar stundað um aldir.
__________________

Leifar af fornum berggangi á gönguleiðinni út á Landsendahorn.
___________________

Útsýni yfir ós Fögruhlíðarár, yfir Héraðssand. Borgarfjarðarfjöll í fjarska.
_______

Leifar af fornum berggöngum setja svip sinn á umhverfið við Landsenda. Þessi er formfagur með gati.
______________