Gígarnir í Álftaveri

posted in: Íslandsperlur | 0

Álftaversgígar er mikil þyrping gervigíga vestan við byggðina í Álftaveri, sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Þessir gígar blasa við sem hólaþyrpingar til beggja handa þegar komið er austur yfir Mýrdalssand og skammt áður en farið er yfir brúna á Skálm. Eins og oft vill verða með náttúrufyrirbæri af þessu tagi er skemmtilegast að skoða þessa gíga úr lofti eins og meðfylgjandi myndefni sýnir.

Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti sem mynduðust í Eldgjárgosinu 934. Eldsumbrotin í Eldgjárgosinu voru gífurleg og hraun vall upp og flæddi fram úr 75km langri gossprungu sem opnaðist á milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. Talið er líklegt að gosið hafi staðið yfir í 3 til 8 ár og því fylgdi mikið hraunflæði, gjóska og stórt jökulhlaup. Eldgjárhraunið flæddi um 70km leið niður í átt til sjávar í nokkrum hrauntaumum. Stærstu taumarnir eru nefndir Álftavershraun, Meðallandshraun og Landbrotshraun.
Sýnt hefur verið fram á að Álftaversgígar mynduðus þegar hraun rann yfir votlendi. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í beint samband við vatnsósa undirlag og veldur hvellsuðu á vatninu með miklum gufusprengingum. Sprengivirknin kemur í veg fyrir frekara hraunrennsli eftir hraunrásinni neðan við gufusprengingarnar og leiðir það til þess að hraunrennslið færist til og nýjar hraunrásir og ný gervigígagos verða til. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til að hraunið hefur unnið sig yfir votlendið og byggt upp þyrpingu af gervigígum. Þar sem mikið vatn er í jarðveginum hlaðast upp gjallhólar en þar sem vatnsmagnið er minna verða til klepragígar og verða þá gígskálarnar litlar og hólarnir oft strýtulaga líkt og algengt er í Álftaversgígum.
Þegar beygt er inn á veginn inn í Álftaver kemur maður fljótlega að útssýnisstað þar sem hægt er að ganga upp á einn hólinn og sjá ágætlega yfir svæðið.