Jón Trausti á ferð um Reykjanes 1913

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Rithöfundurinn Jón Trausti var mikið náttúrubarn og bera magnaðar náttúrulýsingar í skrifum hans og kveðskap þess merki. Í ritsafni Jóns Trausta er að finna ýmsar ferðaminningar og ferðalýsingar sem hann skrifaði í byrjun síðustu aldar. Eins og gefur að skilja var fátt um ljósmyndir á þessum tíma til að styðja við slíkar frásagnir en til að koma þeim sem best til skila gæddi hann textann lífi með leiftrandi og magnþrungnum lýsingum.
Í desember 1913 birtist í blaðinu Lögréttu frásögn Jóns Trausta af ferðlagi hans kringum Reykjanesskagann. Þetta var vitskuld löngu áður en bifreiðar urðu algengar á Íslandi og slíkt ferðalag var mælt í dögum en ekki klukkustundum, enda farið ríðandi eftir torfærum slóðum og gömlum alfaraleiðum sem bílvegir leystu síðar af hólmi. Í frásögninni kemur t.d. fram að það tók hann fjóra klukkutíma að fara ríðandi frá Grindavík til Krýsuvíkur. Frásögn Jóns er skemmtileg og fróðleg lesning ekki síst vegna þess að þarna lýsir hann Reykjanesinu ósnortnu enda er hún skrifuð mörgum áratugum áður en menn gerðu Reykjanesið að virkjunarsvæði með tilheyrandi eyðileggingu og raski á náttúrunni og umhverfinu.
Eftirfarandi er frásögn Jóns Trausta, örlítið stytt en stafsetning þess tíma látin halda sér. Með henni fylgja ýmsar ljósmyndir sem ég hef tekið á Reykjanesskaganum í gegnum árin.

Kringum Reykjanesskagann

„Oft var ég að velta því fyrir mér, hvort það mundi vera tilvinnandi að fara í kringum Reykjanesskagann. Mér fannst þó jafnan eitthvað vanta á þekkingu mína á Íslandi, ef ég vissi ekkert meira um þennan útskaga en það, sem stóð í landafræðibókum alþýðuskólanna.
Nú, jæja. Þegar guð hafði loksins gefið þessu blessuðu alþingi, sem hafði haft mig í þjónustu sinni, náð til að ljúka störfum sínum og þingmenn voru lagðir heim á leið með hroll í brjósti undir næstu kosningar, lagði ég á stað með nesti í malnum og nýja skó á hestunum og ætlaði hvorki meira né minna en leggja undir mig Reykjanesið”, skrifar Jón Trausti í upphafi frásagnarinnar. Þar lýsir hann einnig Keflavíkurveginum eða öllu heldur þeirri miklu umræðu sem orðið höfðu um hann á Alþingi á síðustu árum. „En hvað sem þessu líður öllu saman, þá er það víst, að Keflavíkurvegurinn er prýðisfallegur og vel lagður. Hann liggur yfir hraun og klungur suður alla Vatnsleysuströnd, ofan við Vogana, yfir Vogastapa og endar í Keflavík,” skrifar Jón Trausti um gamla Keflavíkurveginn.
Og frásögnin heldur áfram: „Keflavík er lítill og laglegur kaupstaður. Húsin standa í vingjarnlegri hvirfingu fyrir botninum á dálítilli vík, sem skerst inn á milli kletta. Sléttlent er undir kaupstaðnum og sléttlent í kringum hann, og dálítið hefir verið grætt þar upp, auðvitað með mikilli fyrirhöfn, því að land er þar mjög blásið og bert. Frammi á víkinni vögguðu sér mótorbátar, og á landi stóðu nokkrir fiskibátar, vandlega byrgðir, og biðu eftir þurkinum, sem aldrei kom – ekki einu sinni með mér.
Keflavík lifir á sjónum, og þegar ekki er hægt að koma fiskinum á markaðinn, líður henni illa.
Fagurst er úr Keflavík að sjá inn á fjöllinn, Esjuna, Akrafjallið, Hengilinn o.s.frv. Þó ekki væri annað þangað að sækja, væri það eitt til vinnandi. Nágrannafjöllin okkar Reykvíkinga eru sömu lögum háð og önnur fjöll. Þau verða því fegurri sem þau færast fjær. Alt, sem lýtir þau, hverfur í blámann í hæfilegri fjarlægð, og þau eru búin að fá annað útlit í Keflavík en þau hafa héðan – horfa öðruvísi við þaðan.
„Í fjarlægð eru mennirnir miklir og fjöllin blá”.
Í Keflavík gerði ég þá einstöku og ergilegu uppgötvun, að ég væri kominn of langt.
Fyrst ég ætlaði mér ekki í kringum Garðskagann, átti ég að fara út af veginum fyrir miðjum Njarðvíkum og þaðan beint suður í Hafnir. Ég skal muna eftir þessu næst. En það verður líklega ekki í þessu lífi.
Þegar suður kemur á Njarðvíkurheiði – eða hvað hún heitir heiðin suður í Hafnirnar – ég hafði engan kunnugan með mér, svo að öll örnefni geta vel verið vitlaus hjá mér – er góði vegurinn á þrotum. Þó er þar ruddur vegur, en ruddir vegir eru oft grátlega grýttir. Og nú stóðu leirpollar í öllum veginum, eftir rigningarnar.
Þó hafði ekki ringt svo mikið, að drekkandi væri neinstaðar á leiðinni. „Við getum hvergi vatnað hestum alla leið kringum Reykjanesskagann, nema heima á bæjunum, fyr en kemur inn í Krísuvík”, sagði kunnugur maður við mig. Reykjanesinu svipar í þessu til annars frægs staðar – fyrverandi stórveldis – sem guðfræðingarnir eru nú hættir að minnast mikið á. Hraunin gleypa alt vatn, sem úr loftinu kemur, og skila því hvergi fyrir ofan fjöruborð. Til þess að ná í vatn, verða menn að grafa brunna með mikilli fyrirhöfn, og í sumum þeirra er vatnið salt.
Af heiðinni er mikil útsýn, en fögur er hún ekki fyr en lengra dregur frá auganu. Heiðin er gróðurlaus að mestu, en fjallalitirnir voru myrkbláir og mildir milli regnskúranna. Fjöllin í suðrinu báru það með sér, hverrar ættar þau voru. Alstaðar var þar keilir við keili og alstaðar sýlt ofan í toppinn.
Þegar suður kemur af heiðinni, verður fyrir manni vogur, sem langt skerst inn í landið, fullur af flúðum og skerjum. Við hann utanverðan stendur Kirkjuvogur og allmikið þar í kring. Þaðan beygir vegurinn – ef veg skyldi kalla – suður með sjónum í stefnuna á Reykjanes.
Nú var ég eiginlega kominn þangað, sem ég þráði að koma. Ég er útskagabarn, og útskagalífsins hefi ég nú lengi saknað. Þetta umhverfi, strjálbygð strönd með heiðauðnir fyrir ofan sig og endalausan útsæ fyrir framan sig, var mér eitthvað gamalkunnugt. Mér var einhver sjaldgæf hressing í því að sjá yfir svona mikið haf í einu, að heyra brimniðinn rétt hjá mér og finna saltkendan þarailminn leggja fyrir vitin á mér. Mér var það nýtt að sjá stórar malir, sem sjórinn hafði rótað saman, sjá þar menjar eftir stórbrim, grjótið brimsorfið og fágað í fallega hnöllunga – alt þetta, sem einkennir útskagana. Það er sitt hvað að litast um á útnesjum eða inni á reginöræfunum, þar sem alt er stirt og steindautt. Á útnesjum er sjórinn helmingur sjóndeildarhringsins eða meira, og sjórinn er ætíð lifandi. Hann er er ætíð kvikandi, glampandi, með óþrjótandi blæbrigðum og eilífri auðlegð af allskonar dutlungum. Hann er fegurri að sjá hann af landi en af skipi, því að festa og alvara landsins gerir hviklyndi hans ennþá áburðarmeira. Og það er ekki þögn og dauði með útskagaströndunum, þar sem stórir flotar af fugli synda með fjöruborðinu og aðrir flögra uppi yfir í veiðihug, kvakandi og skrækjandi með allskonar rómbrigðum, en bátar vagga fyrir framan og skip reykja úti fyrir.
Þannig var í þetta skifti, er ég kom að sjónum sunnan við Kirkjuvog. Menn voru þar á sjó, þó að brimgnauð væri dálítið við ystu oddana, og þótti sjóveður gott. Þeir eru ekki betra vanir. Bátarnir voru að koma að, talsvert signir. Úti fyrir brunuðu botnvörpungar, og suður í hafi sást Eldey eins og blár bólstur.
Nú tók vegurinn að þyngjast fyrir alvöru. Nú lágu troðningarnir í þungum sandi með sjó fram, innan um blásin börð og hraunklungur, og þetta fór síversnandi alla leið suður á Reykjanes.

Junkaragerði við Kalmanstjörn. Snæfellsjökull í fjarska.
____________________________________________________

Ég kom heim að Kalmanstjörn, þó að enga hefði þar viðdvöl. Ég spurði dreng til vegar, sem ég sá þar úti, og þegar hann hafði gert mér það skiljanlegt, hvert halda skyldi, reið ég á stað aftur. Gömul kona var þar úti stödd heima við bæinn. Hún skygði yfir augun og horfði hvast á mig. Spurningarnar las ég á vörum hennar – þessar algengu, einfaldlegu spurningar alþýðufólks, sem koma í þaula hver á eftir annari, án andartakshvíldar: Hvað heitir þú? Hvaðan ert þú? Hvert ætlar þú, o. s. frv. Ég er nokkrum sinnum búinn að svara þessum spurningum, og það hefir sýnt sig á eftir, að blessað fólkið hefur verið jafnnær – ekkert við mig kannast. Þessi kona spurði mig einskis, svo ég þurfti engu að svara.
Á Kalmanstjörn er stórbýlislegt. Þar er timburhús stórt, og voru silkifloshúsgögn úti til viðrunar. Ekki mun hafa af veitt, því Englendingar höfðu verið þar um nóttina. Ólafur, sem þar býr, er talinn efnamaður. Jörðin er ein sú mesta að landrými, sem ég hefi séð, meiri en jarðir á Sléttu, og eru þær þó ekkert smáræði. Hún á alt Reykjanesið fyrir sunnan sig alt að landamerkjum Staðar í Grindavík. En það held ég, að væri til lífs síns vinnandi að telja stráin, sem á þeirri miklu landareign vaxa fyrir utan túnið.
Rif, þar sem ég er fæddur, er á norðurhjara Íslands, og fallegt er þar ekki. Þó er þar ekki grýttara né gróðurlausara en í kringum Reykjavík. Rifshörgur er norðlenzk útgáfa af Öskjuhlíðinni. En auðnin suður af Kalmanstjörn er það átakanlegasta, sem ég hef séð í heimalandi. Til þess að sjá annað eins þarf langt inn í óbygðir. Þar sjást í sandorpnu hrauninu girðingar og húsatóftir, fleiri en tölu verður á komið, og er það ætlun manna, að þar hafi blásið upp heil kirkjusókn, sem nú finst hvergi stafur fyrir. Að minsta kosti þykjast menn hafa orðið þar varir við kirkjugarð í sandinum.

…og er það ætlun manna, að þar hafi blásið upp heil kirkjusókn, sem nú finst hvergi stafur fyrir. Að minsta kosti þykjast menn hafa orðið þar varir við kirkjugarð í sandinum.
_______________________________________________

Vegurinn var sífeldur, hvíldarlaus sandþæfingur, í hófskegg og stundum upp á legg á hestunum, og hraunstrýturnar alstaðar upp úr. Þegar nokkuð leið á veginn, sá ég Reykjanesvitann upp yfir allar hraunstrýturnar og litlu síðar reykina úr hverunum. Nú hélt ég, að allar þrautir væru bráðum á enda, en það var nú öðru nær. Fyrst komu sandvíkur við sjóinn og síðan aftur hraun, hálfu verra en hið fyrra og hálfu hrjóstugra, úfnara og illilegra. Hvergi var strá handa hestunum, hvergi vatn, hvergi hægt að fara af baki, nema ofan í sandkafið. Ég var orðin stirður og dofinn að ríða þessa sandkafla fór fyrir fót, og hestarnir orðnir þreyttir á því ýmist að vaða sandinn eða stildra á grjótinu. Ofan á þetta bættist að ég fór vitlaust í hrauninu, fylgdi vörðum, því að götur sáust engar, en sú leið er nú aflögð síðan vitinn var reistur, og liggur nú góður vegur ofan að lendingunni á Reykjanesi, sem er norðan á tanganum. – Eftir mikla mæðu komst ég þó loksins heim að Reykjanesi góðri stundu áður en rökkva tók um kvöldið.
Reykjanesið er undarlegur skapnaður, undarlegt sambland af frosti og funa, eins og þar stendur. Ekkert er þar nógu stórvaxið til að geta kallast hrikalegt, en alt er þar úfið, svipþungt, grettið og grimmúðlegt, og þó yfir því einhver hátíðleiki og alvöru-yndi, sem hrífur hugann.

„Reykjanesið er undarlegur skapnaður, undarlegt sambland af frosti og funa, eins og þar stendur. Ekkert er þar nógu stórvaxið til að geta kallast hrikalegt, en alt er þar úfið, svipþungt, grettið og grimmúðlegt, og þó yfir því einhver hátíðleiki og alvöru-yndi, sem hrífur hugann.”
_____

Gamlir, æruverðir eldgígar liggja frá nesinu svo langt norður og austur í fjallgarðinn sem augað eygir. Þeir eru misstórir og mismunandi að útliti, en allir hafa þeir spúð eldi og eimyrju – einhvern tíma. Á duggarabandsárunum þeirra hefir mátt nefna Reykjanes með réttu. Nú er þar orðið lítil til nafnfesti. Nokkur móbergsfell standa upp úr hraununum til og frá. Ef til vill eru þar líka gamlir gígar, miklu eldri en hinir, og móbergið myndað af ösku og gjalli. Alt annað er bruni frá yngri tímum. Milli gíganna og alt í kringum þá er eintóm hraunstorka, hver blágrýtissteypan ofan á annari, – hraun, hraun, ekkert annað en hraun, sandorpnir og róðurlausir hraunflákar, alt nesið, allur skaginn, reginöræfi alt í sjó fram, ódáðahraun af versta tagi, sem manneskjur eru þó altaf að basla við að halda bygðu og fara ferða sinna um. Framan af öllur þessu hrauni er nú sjórinn að sverfa og vinst vel á.

Gægst ofan í eldgíg í Stampahrauni.
____________________

Á einum eldgígnum stendur nú vitinn. Það er keilumyndaður hóll, nokkuð hár og ofurlitlar grastór utan í hliðunum á honum, og hefir hann verið nefndur Valahnúkur, þó að engan veginn eigi hann hnúks-nafnið skilið. Hann er upphár, eldgamall gjallhaugur og ekkert annað, og guð má vita, hvort hann fer ekki að gjósa undir vitanum ; ég hefði að minnsta kosti ekki viljað treysta honum. Sunnan undir hólnum stendur bærinn, eða réttara sagt hús vitavarðarins, bygt á landssjóðs kostnað. Ofurlítill túnskækill er græddur upp í brekkunni kringum bæinn. Þá mega heita upptaldar grasnytjar þær, sem vitavörðurinn hefur.

Suður og austur frá bænum er hraundyngja allmikil, sem nefnd er Skálarfell. Kvað vera skál ofan í hana miðja. Það er merkilegast við þessa dyngju, að hún rýkur öll eins og kolabingur sem kastað hefir verið ofan á glæður. Það er hveragufur, sem alstaðar leggur út úr henni, hátt og lágt. Norðan undir henni eru hverirnir, sem nesið dregur nafn sitt af. Vestan undir dyngjunni er gjá mikil og gengur hún alt í sjó fram. Gjáveggurinn eystri er nokkuð hærri en hinn og báðir barmar mjög klofnir og sprungnir. Hveragufur leggur alstaðar upp um glufurnar. Vestur af bænum eru leifar af gömlum gígum eða móbergshnúðum, sem sjórinn er nú að brjóta upp. Enginn veit, hve margir þeirra eru horfnir í brimið. Leifarnar af einum þessum hnúð standa fyrir framan fjöruborðið. Er það drangur mikill og heitir Karlinn. Aðrar leifar, og þær allra mestar, standa úti á reginhafi fram undan nesinu. Er það drangur hár og digur, sem nefnist Eldey. Þessi gígaröð nær langt út í hafið. Eitt hnúkbrotið frammi við sjóinn, sem nú stendur líklega tæpur helmingur eftir af, heitir Litli – Valahnúkur. Þar stóð vitinn áður, og mátti víst ekki seinna vera, að hann væri fluttur. Vitaturninn gamli var sprengdur sundur með púður skotum, svo ekki skyldi hann skyggja á nýja vitann, og liggja brotin úr honum þar uppi á hólnum.
Á milli þessara hnúka, sem eru lausir í sér og eyðast fljótt, skellur brimið á hörðum hraunbrúnunum og vinnur þar seint á. Þeim er það að þakka, að ekki er útsynningurinn búinn að skola meira burtu af Reykjanesinu.
[ ]

Horft yfir Skálarfell í átt að Reykjanesvita. Eins og Jón Trausti lýsir Skálarfelli hefur verið
talsverð gufuvirkni í og kringum fellið snemma á öldinni.
___________

Þessi mynd tók ég 1987 eða 1988 en þá stóð rúst gamla vitans enn uppi á Valahnúki.
____________

Ég læt nægja að taka það fram um Reykjanesvitann, sem er víst stærsti og dýrasti viti á „voru landi Íslandi”, að hann er bygður úr steinsteypu, veggjaþyktin neðst um 5 álnir að neðan. Hann brennir steinolíu, um 10 fötum á ári, og allur beinn starfrækslukostnaður við hann er 3100 kr. á núgildandi fjárlögum. Lampinn í honum er ekki tiltakanlega stór, ekki ýkjamiklu stærri en stærstu lampar sem notaðir eru í húsum. Lampinn stendur niðri í hylki, sem fylt er kvikasilfri, og er í sambandi við gangverk, sem snýr lampanum, ásamt öllu, sem honum fylgir og fylgja ber, í hring. Gangverkið er svipað gangverkinu í gömlu Borgundarhólmsklukkunum. Hanga þar þung lóð í sterkjum strengjum, og ganga þau ofan að botni turnsins á 4 klukkustundum. Þá verður að draga gangverkið upp að nýju. Lampinn gengur einn hring á hverri hálfri mínútu, og ríður á, að því skeiki ekki hið allra minsta, því að einmitt á þessu þekkja sjómenn vitann frá öðrum vitum. Á þessari hálfu mínútu sendir hann tvo blossa hringinn i kringum sig.
[ ]

Þannig er nú Reykjanesvitinn. Tveir menn verða að gæta hans á hverri nóttu, sem hann er kveiktur. Er þeim ætlaður klefi í efsta lofti vitaturnsins rétt undir lampanum, og gert ráð fyrir, að þeir geti lagt sig út af til skiftis stund og stund í einu. En nákvæmlega verða þeir að vaka yfir því, að vitinn sé jafnan í lagi, hafi næga olíu, gagni jafnt og reglulega og stöðvist ekki eitt einasta augnablik, því að af því gæti leitt hið sorglegasta sjóslys. Þeir eiga að halda áhöldum vitans hreinum og fáguðum, fága glerveggina umhverfis lampann, þegar t.d. fennir á þá, og þeir eiga að hafa æfingu í því gera fljótt við það, sem kann að fara aflaga, setja varaáhöld inn í gangverkið o. s. frv. Vitavörðurinn hefur 1500 kr. í föst laun og auk þess ókeypis bústað og ókeypis heimflutning á nauðsynjum sínum tvisvar á ári, um leið og flutt er til vitans, og ljósmeti af forða vitans. En af kaupi sínu verður hann að gjalda aðstoðarmanni sínum.
Frá bænum og upp á Hólinn, þar sem vitinn stendur, er snarbrött brekka, og þótt ekki sé leiðin löng, – líklega sem 50 faðmar, – er fullilt að komast þetta, þegar svell er lagt í brekkuna, en stórviðrin hamast um hólinn. Er því strengdur vír á staurum milli hússins og vitans, til að halda sér í og jafnvel rata eftir í náttmyrkri og blindbyl. Samt var mér sagt, að oft liðu svo heilar, langar vetrarnætur, þegar veður væru verst, að ekkert samband væri milli bæjarins og vitans. Kvenfólk treystist þá varla upp í vitann til karlmannanna, þó að eitthvað gangi á heima.

_____________
„Þannig er nú Reykjanesvitinn. Tveir menn verða að gæta hans á hverri nóttu, sem hann er kveiktur. Er þeim ætlaður klefi í efsta lofti vitaturnsins rétt undir lampanum, og gert ráð fyrir, að þeir geti lagt sig út af til skiftis stund og stund í einu. En nákvæmlega verða þeir að vaka yfir því, að vitinn sé jafnan í lagi, hafi næga olíu, gagni jafnt og reglulega og stöðvist ekki eitt einasta augnablik, því að af því gæti leitt hið sorglegasta sjóslys.”
_______________


Þann tíma dagsins, sem ekki er kveikt á vitanum, er heimilt að sýna hann ferðamönnum. En samkvæmt reglum, sem Björn heitinn Jónsson, sem var ráðherra , þegar vitinn var bygður, samdi, ber að greiða vitaverði 25 aura fyrir það ómak að sýna manni vitann. Núverandi vitavörður vill ekki við þessu fé taka, finst sér skylt að sýna vitann, sem bygður er fyrir almenningsfé, ókeypis. Þó vil ég ráða þeim, sem vitann skoða, til þess að greiða þennan lögeyri beinlínis eða óbeinlínis, því að vitavörðurinn er fátækur ómagamaður og kaup hans mjög skorið við neglur – eins og vant er að var um alþýðumenn í þjónustu hins opinbera. Þetta mun verða mönnum því geðfeldara, sem vitavörðurinn og fólk hans sýnir ferðamönnumm einstaka alúð og vill þeim alt gott gera af sínum litlu efnum.
Það sem mest gekk fram af mér, er ég skoðaði vitann, var veggjaþyktin. Hugsið ykkur 5 álna þykka veggi – 5 álna þykkar gluggakistur á þessum löngu og mjóu gluggaborum, sem ekkert eru! Ég geng frá að lýsa því. Það minnir allmikið á riddaraborgirnar frá miðöldunum, sem bygðar voru víðsvegar um lönd – þó engin á Íslandi – og áttu að vera vera „óvinnandi”.
[ ]

Þrep upp af þrepi, altaf í hring. Ó, hvað ég var lúinn í fótunum! Loks var lokið upp hurð, sem ekki gekk þó lengra upp en svo, að ég þurfti að renna mér á rönd inn með henni – og nú var ég kominn í klefa vitavarðanna. Þar lá á litlu borði ferðamannabók, sem ég átti að skrifa nafnið mitt í. Ég varð svo feginn að geta látið líða úr mér þreytuna á meðan. Svo lá leiðin upp einn stigann til, snarbrattann, því að hann hafði ekki rúm til að hallast. Þar varð ég að klifra upp – upp í það allra heilagasta, upp að sjálfum lampanum. Ég hafði hjartslátt af áreynslunni, og nú tók ekki betra við, því mig snarsvimaði, er ég leit út um glervegginna og ofan til móður vorrar jarðarinnar. En svo var mér boðið út á svalirnar kringum ljóskerið! Ég mátti ekki láta það á mig ganga, að ég þyrði ekki, en guð veit, hvernig mér hefir tekist að bera mig mannalega. Kringum svalirnar eru ramgervar járngrindur, en mér fanst samt varla vogandi að treysta þeim. Þarna verða þeir að ganga, sem fága glerin að utan, það verður að gera á hverjum degi og oft á hverri nóttu, þegar snjókoma er. Þá er harðstiginn klaki á svölunum, glerháll og afsleppur. Þá á maður á hættu að renna út um járngrindurnar eða fjúka út fyrir þær, – að vera slitinn burtu af rokinu. Hvar skyldi maður þá koma niður? Einhverstaðar úti í hrauni. Og hvernig skyldi maður líta út á eftir? – Jæja, ég sæki líklega ekki um það að vera vitavörður.
En margt mega þeir menn hugsa, sem sitja geispandi og skjálfandi í þessum vitaturni um koldimma vetrarnótt. Þetta leggja þeir á sig í þarfir heimsmenningarinnar. Þessir tveir ljósgeislar, sem vitinn sveiflar út í kuldann og blásvart náttmyrkrið tvisvar á hverri mínútu, eru boðberar frá mönnum til manna, hrópandi rödd um það, að hér sé land, sem siðaðar manneskjur byggi, kveðja frá Íslandi á tungumáli, sem allar menningarþjóðir jarðarinnar skilja. Þeir, sem vitans gæta, hafa litla hugmynd um það, hverja geislarnir frá þeim hitta í náttmyrkrinu. Auðvitað fara margar geislarnir svo allan hringinn, að þeir hitta ekkert skip, ekkert mannsauga. Auðvitað fer ekki hjá því, að vitinn eyði afli sínu, ljósi sínu og glaðningu sinni nótt eftir nótt til ónýtis, sendi geislaörvar sínar árangurslaust í allar áttir, leiti án þess að finna, hrópi án þess að fá nokkurt svar. En svo koma aðrar nætur, sem margbæta það upp, og þær eru fleiri en hinar. Ég hefi sjálfur oftar en einu sinni heyrt og séð og tekið þátt í þeirri gleði, sem af því leiðir meðal sjómanna að sjá vita, sem menn þekkja – að hafa fálmað sig áfram sama sem blindandi yfir hina bláu og sollnu úthafseyðimörk, fulla af allskonar villum og lævísi, hafandi ekkert til að treysta á annað en útreikning eftir sjóbréfum og himintunglum, sem margsinnis getur skeikað, og gerir það líka nærri því æfinlega, hvað samviskusamlega sem reiknað er. Og sjá svo vita í náttmyrkrinu, – blossandi stjörnu niður við hafsbrúnina, sem kemur og hverfur með sekúndu nákvæmni! Þá er sjómaðurinn öruggur.
[ ]

Við Gunnuhver á Reykjanesi.
________________________

Það er leitt að fá illviðri, hvar sem maður er á ferð. En það get ég fullvissað hvern mann um, að ekki er það skemtilegast suður á Reykjanesi.
Og illviðri fékk ég, daginn sem ég fór þaðan. Ósvikinn landsynning með hellirigningu. Hestarnir voru rennvotir, eins og dregnir af sundi, þegar þeir voru teknir þar á túninu um morguninn, og hálfskulfu af kulda, og ég var gegndrepa við það eitt að leggja á þá. Vitavörðurinn og menn hans voru í þjónustu Englendinganna niður við sjóinn, að koma hverahrúðrinum út í mótorbát, að ekki voru aðrir heima en kvenfólk og börn. Systir vitavarðarins átti að fara með lausa lánshesta „upp” í Grindavík, og ég átti að njóta leiðsagnar hennar og samfylgdar. Stúlka þessi var norðan úr Þingeyjarsýslu, svo að við höfðum þó ofurlítið umtalsefni um fornar og fjarlægðar stöðvar.
Leiðin lá um Hveravelli, sem eru svo sem 2 km frá vitanum. Þar var Gunnuhver (eða bara Gunna), frægasti hverinn á fyrri tímum og eini hverinn þar, sem maður las um í landafræðinni sinni. Allir muna eftir sögunni af Reykjanes-Gunnu. Hún var rammaukin afturganga og flakkaði um nesið, þar til Eiríkur á Vogsósum sendi henni magnaðan trefil og sagði, að ef hún fengist til að taka í trefilinn, mundi mega teyma hana hvert sem verkast vildi. Gunni leist illa á trefilinn, en um síðir var hún þó særð til að taka í hann, og þá gat hún ekki slept honum framar. Var hún síðan teymd í hverinn og henni komið þar fyrir. Nú er Gunnuhver bráðum úr sögunni, hættur að gjósa og hættur að sjóða að mestu. Örlítinn eim leggur upp úr honum, og langt niður í gjótunni sýður þykkur leirgrautur. Nú er annar hver drotnandi á Hveravöllum. Þannig skiftast sköp veraldar. Þessi nýji hver kom fyrst upp við jarðskjálfta einhvern tíma skömmu eftir 1900 og gýs látlaust síðan. Það þarf ekki að dekstra hann með sápu og allskonar hundakúnstum, eins og gamla Geysi, og eiga samt á hættu, að hann verði ekki svo náðugur að sýna dýrð sína. Reykjaneshverinn er slitviljugt grey, en hann er heldur ekki hálfdrættingur á við gamla Geysi. Vera má, að hann verði tregari síðar. Sumir eru ötulastir, meðan þeir eru að verða frægir, en verða síðan stórbokkar, sparir á kostum sínum, og vilja láta ganga fast á eftir sér. – Fyrsti maðurinn, sem athugaði þennan hver vísindalega, var dr. Knebel heitinn, sá er fórst í Öskjuvatninu. Þá gaus hverinn smágosum með 10 mínútna millibili. Nú gýs hann með 30 – 40 mín. millibili, en gosin eru orðin miklu stærri og aflmeiri. Sennilegt er, að gosin eigi eftir að stækka að mun, en verða jafnframt sjaldgæfari. Nú ná þau 30 – 40 feta hæð og standa yfir í um 5 mínútur, og eru það ekki alllítil gos. En hitt er þó engu að síður merkilegt, að hverinn gýs sjó, eða brimsöltu vatni. Það er nokkuð ósennilegt, að sjór nái svo langt inn í landið gegnum gjár og jarðsprungur, þó að vel geti það verið, en þá liggur sú hugsun nærri, að saltlög séu þarna í jörðu, sem hveravatnið leysi upp. Ég veit ekki hvort vatnið í hvernum hefir verið efnafræðilega athugað.En hvernig fer um einkaleyfið hans Páls, ef það skyldi nú sýna sig, að hverinn „ynni salt og fleira úr sjó” og lægi innan við það stað starfssvið, sem lögin ákveða honum? Nú, Hekluhraunin gjósa líka salti, hreinu matarsalti. Það sýndi sig við gosið í vor. Þar er opin leið til einkaleyfis.

Horft yfir Gunnuhver. Í frásögn sinni lýsir Jón Trausti goshver nokkrum og má af henni ráða að hverinn hafi verið nokkuð fjörugur á þeim tíma. Í dag er hann horfinn. „Þessi nýji hver kom fyrst upp við jarðskjálfta einhvern tíma skömmu eftir 1900 og gýs látlaust síðan. Það þarf ekki að dekstra hann með sápu og allskonar hundakúnstum, eins og gamla Geysi.”
_________________________

Á þessum Hveravöllum eru gríðarmiklar dyngjur af gömlum, gullhvítu hverahrúðri, vottur um mörg þúsund ára starfsemi jarðhitans. Það er í þessum hverahrúðursdyngjum, að því, sem þeir kalla sillicum (það er silicium, kísill). Einu sinni gaus sá kvittur upp, að þetta væri postulínsleir, og þá var farið að stofna félag til að koma þar upp postulínsverksmiðju. Nú er það orðið að kísilnámu. Í sumar fluttu Englendingarnir gríðarmikið út af leirnum til „athugunar”. Næsta sumar koma lílega aðrir Englendingar og flytja annað eins út til „athugunar”. og landinn lætur sér þetta vel líka. Ef til vill gengur þetta þangað til náman er tæmd og Englendingarnir búnir að vinna radium fyrir mörg hundruð þúsund krónur úr öllum „sýnihornunum”. Hvers vegna eru ekki þessar „athuganir” látnar fara fram hér á landi og undir íslenzku eftirliti? Nægir ekki til athugunar dálítið minna en Englendingarnir tóku í sumar? Spyr sá, sem ekki veit.
Viðstaðan á Hveravöllum var ekki löng. Grindavíkurhestarnir voru heimfúsir, og mínum hestum var ekkert um þessar fjúkandi brennisteinsgufur.

Brimið á Reykjanesi getur orðið all úfið og hrikalegt.
___________________________

Eiginlega hafði það verið aðalerindi mitt suður á Reykjanes að fá að sjá fallegt brim. Alt annað, sem ég vissi, að þar mundi, bera fyrir mig, var mér aukaatriði. Og einmitt þess vegna valdi ég haustdaga til ferðarinnar. Fallegt brim! – Brimið við Rauðanúp á Sléttu, þar sem ég vitkaðist helst, þar er mér enn í minni. Ég hefi minnst á það annarstaðar og ætla ekki að fara að endurtaka það hér. Nú er ég kominn svo langt þaðan burtu, að ekki verður þangað hlaupið, þegar þráin eftir þessum máttuga hrikaleik náttúrunnar kemur að mér. Fallegt brim! Ég veit ekki, hvort menn skilja það. Sjálfsagt hafa margir af lesendum mínum séð það og vita, hvað ég á við, en ekki nándar nærri allir. Ekkert, sem fyrir mig hefir borið, kemst í neinn samjöfnuð við fallegt brim að fegurð og hátign og hrikaleik, – ekkert! Ég hefi séð mikla fossa og fagra fossa, ég hefi séð gjósandi hveri og gjósandi gígi, ég hefi séð úthafið í stormi, jöklana í mikilleik sínum, skógana, borgirnar, skipin og hin miklu mannvirki, en ekkert af þessi hefir yfirunnið endurminningarnar um brimið í huga mínum. Það er enn það mikilfenglegasta sem ég hef séð. Ég hefi séð ýmsar eftirlíkingar mannanna eftir mikilleik og fegurð náttúrunnar og oft staðið undrandi yfir því, hvað mönnum hefir tekist að búa til. En brim reynir enginn lifandi maður að búa til, – af skiljanlegum ástæðum. Til þess þarf hvorki meira né minna en heilt úthaf, og þar að auki storm, sem hrakið hefir hafið á undan sér um mörg hundruð mílna veg, æst það og trylt og umhverft því þangað til það er komið í verulegan algleyming. Og svo þarf land eða grynningar handa þessu hafi til að skeyta skapi sínu á. Þetta tekur ekkert leikhús. Til þess að sjá það, þarf norður á Sléttu eða suður á Reykjanes, eða eitthvað þangað, sem opið úthaf er fyrir. Og þar standa menn ekki að jafnaði heldur með kvikmyndavélar. Þær kvikmyndir, sem mér hefir auðnast að sjá af brimi, hafa ekki megnað að fullnægja þrá minni. Ég efast um, að verulegt hafrót við útskaga hafi ennþá borið fyrir augað á nokkurri kvikmyndavél.
En brimið við Reykjanes var mér ekki náðugt. Útsynninginn vantaði. Ég fékk að sjá verksummerkin eftir það, og mér var sýnt, hvað það gengi hátt og hvað það gerði, þegar því tækist upp, en ég varð að láta mér nægja að ímynda mér það sjálft. Ég hef tvívegis siglt framhjá Reykjanesi í hamrömum útsynningi. En það er sitt hvað, að sjá á eftir briminu í land eða á móti því úr landi.
Þó fór ég ekki algerlega á mis við brimið. Af dálítilli hæð skammt fyrir austan Reykjanesvitann sá nokkuð langt inn með suðurströnd skagans, og þar var brim, – ekkert foráttubrim að vísu, en þó yndislega fagurt. Það skall á svörtum hraunbrúnum og gaus margar mannhæðir í loft upp. Langur, hvítur kögur lá með allri ströndinni, og strókur við strók teygði sig mjallhvítur upp yfir svarta klettana. Ekkert er jafnyndislega dökkblátt eins og útsærinn undir dimmu og drungalegu lofti, og ekkert er til sem hvítara er og mýkra fyrir augað en brimið. Að sjá þennan dimma bláma alt í einu breytast í veltandi, rjúkandi fönn og þeytast í loft upp við kolsvarta klettana, það er ógleymanleg sjón og verður aldrei til fjár virt.

Brim við Karlinn á Reykjanesi. Þessi drangur er það sem eftir stendur af vegg eldgígs
sem þarna myndaðist fyrir margt löngu.
__________________________________________

Staðið á Valahnúkamöl, Valahnúkur framundan. Karlinn til vinstri.
___________________________________

– – – Ætlar þetta helvítis hraun aldrei að þrjóta! Ég á ekki orð yfir það, hvað ég er orðinn óþolinmóður. Brimið var horfið fyrir löngu, útsýnin til sjávarins horfin. Leiðin lá langi inn í hrauninu. Gata sást engin; alt voru berar hraunhellur og klungur. Grindavíkurhestarnir þræddu samviskusamlega leiðina, sem þeir voru vanir að fara og við og við sást sást það á óhreinku eða sliti á grjótinu, að þeir vissu hvað þeir fóru. Leiðin lá í ótal krókum og leyningum innan um hraunið, og sjálfsagt hefi ég verið ramáttaviltur. Mér var sagt það á Reykjanesi, að vegurinn upp í Grindavík væri verri en það, sem ég væri búinn að fara, og því miður var það engin lygi.
Loksins kom ég að grjótgarði, sem stóð á dálitlum hraunhrygg. Ég reið upp að garðinum og leit inn fyrir hann, og – sjaldan hefir gengið meir fram af mér.
Innan við garðinn var breiða af eggsléttum túnum í beztu rækt. Hvernig hafa manneskjurnar farið að því að koma upp öllum þessum túnum? Hvað hafa þær gert af hrauninu? Hvaðan hafa þær fengið allan þennan jarðveg? Hér er starf margra manna á mörgum árum. Hver kynslóðin hefir tekið við þar, sem önnur hætti. Þannig hafa menn með ósegjanlegri þrautsegju smám saman unnið bug á þeim örðugleikum að skapa jafnfögur tún í svo hrjóstrugum jarðveg. En undri er það líkast að líta á mismunin á landinu utan við garðinn og innan við hann. Túnin voru girt sundur með lágum steingörðum og snotur býli um þau til og frá.

Frá Stað í Grindavík.
________

Eitt af þeim býlum er prestssetrið Staður í Grindavík, og er því hverfið kallað Staðarhverfi.
Bygðin í Grindavík skiftist í þrjú aðalhverfi, sem kend eru við höfuðbólin Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Járngerðarstaðahverfið er í miðjunni og er fjölbygðast. Þórkötlustaðahverfið er inst. Ég hafði skamma viðdvöl í Staðarhverfinu, og lá leið mín inn í Járngerðarstaðahverfið. Leiðin lá – auðvitað – um hraun, en þó var meiri gróður í kringum mig en verið hafði. Þegar ég nálgaðist Járngerðarstaðahverfið, sá ég þar timburhúsaþyrping allmikla, og var eitt húsið kirkja. Þetta var mér engin sérleg furða. Hitt þótti mér kynlegra, að spölkorn frá hinum húsunum sá á rautt þak, langt og mikið, eins og á verksmiðjuhúsi. En það kynlegasta var, að þakið hallaðist til annars endans. Þegar nær kom, varð ég þess vísari, að þetta var botnvörpungur, sem lá þar á hliðinni uppi á skeri og sneri að mér rauðum botninum. Hann hafði strandað þar í fyrra vetur og af honum farist fjórir menn.
Járngerðarstaðahverfið er eins og Staðarhverfið samfeld breiða af túnum, en ekki fanst mér þar eins svipfrítt eins og í Staðarhverfinu. Margt ber þess vott að sjó er þar sóttur af miklu kappi, og ekki er það kynlegt, að einmitt úr slíku plássi eignaðist landið fyrsta fiskifræðing sinn. Bjarni Sæmundsson kennari er fæddur og uppalinn í Járngerðarstaðahverfinu.

Ég leitaði uppi eina manninn, sem ég kannaðist við af afspurn á þessum slóðum, Einar Einarsson, kaupmann í Garðhúsum, og bað ég hann að greiða lítils háttar úr ferð minni. Hann tók mér með hinni mestu gestrisni, og stóð ég nokkra stund við hjá honum. Einar er kaupmaður, og átti nú um 700 skpd. af fullverkuðum fiski, sem hann vissi ekki, hvernig eða hvenær hann kæmi af sér, því að ekki eru skipaferðir tíðar til Grindavíkur. Nú lá fiskur þessi allur fyrir skemdum, ef ekki rættist úr því bráðara, og þeir, sem kunnugir eru fiskverkun, fara nærri um það, hvílík fjárhæð hér var í veði. Vera má, að græða megi á verslun í Grindavík. En áhyggjuefni hlýtur einangrunin og brimlendingin a ðvera þeim, sem þurfa að koma þar vörum á land eða frá landi. Og svo er ekki orðinn hár heimur fyrir Grindavík ennþá, að hún standi á áætlun strandferðaskipanna.
Einar kaupmaður sagði mér að lokum vel til vegar, og lagði ég þá á stað inn til Krýsuvíkur.
Oftast er það hlutskifti mitt, þegar ég er á ferð, að vera einsamall, – aleinsamall, ríðandi og teymandi lausan hest við hlið mér. Hitt eru undantekningar, ef ég næ í samferð eða fæ mér fylgd, Þetta gerir mér ekkert til, nema það eitt, að ég verð nokkru fáfróðari um örnefni, læri varla önnur örnefni en þau, sem standa á landsuppdrættinum, sem ég hefi með mér. Og þetta gerir ekki mikið til heldur, því að ferðir mínar eru engar vísindaferðir. Landinu, sem ég fer yfir, man ég vel eftir á eftir; fáar hæðir og dældir verða mér þar ókunnar, og oft fær ég líka talsvert af örnefnum að vita, annaðhvort er ég spyr til vegar eða eftir á.

Vindskafinn ský yfir Grindavík.
____________


Og eitt örnefni lærði ég að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur. Það er Festarfjall, rétt innan við Grindavíkurbygðina. Mér var sagt, að það drægi nafn sitt af því að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum. Frá þeim tíma héngju festar miklar frman á fjallinu ofan bjargið, og væri ein þeirra úr gulli. Þegar ég nálgaðist Festarfjall, sá ég undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefir sprungið sundur við jarðrast einhvern tíma fyrir langalöngu, og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að sprungur þessar hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefir verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna, og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar. Allar bera þeir ofurlítið lit af berginu í kring, og – vel getur verið, að einhver þeirra sé úr gulli.
[ ]

Og leiðin liggur upp í fjallgarðinn á bak við Festarfjall. Framan við það verður ekki komist, því að sjór fellur alveg upp að berginu. Yfir hálsahryggi og dældir milli ótal fella verður maður að krækja og þræða, og aldrei finst manni þessi mæðusama krókaleið ætla að taka enda. Þegar austar dregur, eru dældirnar fullar af hraunum. O-jæja. Það verður ekki mikið úr manni, þó hann sé með tvo hesta, í slíkum hafsjó af fjöllum og hraunum! Af einum hálshryggnum sá ég einhverja örðu á næsta hálshrygg, sem bar við loftið. Mér sýndist hún hreyfast, en var þó ekki viss um, nema mér hefði missýnst. Í miðri dældinni mætti ég prestinum á Stað í Grindavík og konu hans, með þrjá eða fjóra hesta. „Á ég langt eftir til Krísuvíkur?” spurði ég. Presturinn litaðist um til að átta sig betur á , hvar hann væri staddur, og svaraði svo, að ég mundi vera nærri því á miðri leið, – þó varla fyrr en á næstu hæð. Á miðri leið! Þá var ég búinn að vera tvær klukkustundir frá Grindavík, og tveggja stunda æfing til í þolinmæði, ofan í þrjár eða fjórar klukkustundir í Grindavíkurhrauni um morguninn, – nei, það var nærri því of mikið.
Slíkar þrautir líkjast meinlætum einsetumanna á miðöldunum. Nú, oss ber að vera þolinmóðum. Ég kvaddi prestinn og reyndi fyrst og fremst að ná þessari hæð, sem hann sagði, að væri miðleiðis, en ég kveið í hljóði fyrir hraununum, sem hann sagði mér að væru austar á leiðinni.
Himininn gerðir það miskunnarverk á mér í þessum raunum að vera láta vera indælasta veður, langfegursta veðrið, sem ég fékk þessa dagana. Hefði það ekki verið, veit ég varla, hvenær ég hefði komist úr þessum reginöræfum. Hestarnir voru latir og stirðir á þessum eilífu hraunum, höfðu sennilega aldrei á hraun stigið fyr en í þessari ferð, en göturnar á milli hraunanna hálfógreiðfærar líka. Nokkrar vörður eru meðfram veginum, því þetta er póstleið, þó ill sé, og þær voru mér til einskonar stundastyttingar, – einskonar vegarmælir. Að fara yfir vont hraun er líkast því að stafa sig fram úr illu handriti. Maður þarf á öllu sálarþreki sínu að halda. Loks var ég búinn að stafa mig fram úr síðasta og versta hraunhaftinu, sem heitir Ögmundarhraun, – og í hálfmyrkri um kvöldið kom ég til Krísuvíkur.

Horft yfir víðfemt Ögmundarhraunið sem á öldum áður var illfær farartálmi. Hraunið rann í Krýsuvíkureldum á 12. öld.
__________________________________

Ég nenni ekki að lýsa því, hve feginn ég varð, þegar ég kom á endann á dálítilli hæð og sá undir henni afarlangan torfgarð, sem lá svo langt austur í húmið, að ég sá ekki fyrir endann á honum. Rétt á eftir sá ég sjálft býlið. Nokkra stund reið ég með torfgarðinum og leitaði heimreiðarinnar. Nokkrir menn komu frá rétt, sem er suður frá bænum, æðispöl, og þeystu framhjá mér heim undir bæinn. Þeir höfðu verið að inna af hendi fjallskil um daginn. Morguninn eftir átti að rétta.
Krísuvík er heiðarbýli, stendur dálítið sunnar en í miðjum Reykjanesfjallgarðinum, á breiðri sléttu milli Geitarhlíðafjallanna og Sveifluhálsins, suður af Kleifarvatni. Um hálf önnur míla er þaðan suður að sjó. Áður voru þar mörg býli, nú eru þau ekki orðin nema tvö, en rústir hinna eru þar til og frá um túnin og nöfnin enn í minni. Jörðin kvað vera kostajörð mikil, einhver hin mesta á Reykjanesi, og ekki er hún lítil að víðáttu að minsta kosti. Svo sem hálfrar klukkustundar lestaferð frá bænum eru hinar nafnkunnu Krísuvíkurnámur. Þar unnu Englendingar brennistein fyrir skömmu, og stendur þar enn hús þeirra. Fuglatekja er í bjargi frammi við sjóinn. Mælt er að bærinn hafi áður staðið nærr sjónum, en farið af fyrir hrauni. Kvað sjást þar eitthvað til rústa rétt við hraunröndina og er búið að friða þær samkvæmt fornmenjalögunum. Nú býr á aðalbýlinu Jón bóndi Magnússon, bróðir Helga járnsmiðs, sem allir Reykvíkingar þekkja, og eru þeir giftir sinni systurinni hvor. Bæði eru þau hjón lifandi gestrisni, og þó að bygging sé þar fremur hrörleg, – bærinn einn af þeim, sem eiginlega er hvorki gamall né nýr, – er ágætt að gista þar. Veitir ekki af því, því margir eru þar á ferð, meðal annars vegna námanna og náttúrufegurðarinnar.

Krýsuvíkurkirkja sú er brann til kaldra kola árið 2010.
______________________

Sögð var mér sú saga í Krísuvík, að þegar Tyrkir rændu í Grindavík (1627) hafi tveir af ræningjunum komið upp í Krísuvík og ætlað að ræna þar. En Krísvíkingar tóku mannlega á móti þeim og gengu af þeim dauðum. Eru þeir urðaðir uppi á fjalli suður af bænum. Er mælt, að Eiríkur í Vogsósum hafi sungið yfir þeim og hlaðið vörðu á dysinni og mælt svo um, að meðan hún stæði skyldi ekki verða rænt í Krísuvík. Varðan stendur enn – Eíríkur á Vogsósum var prestvígður réttum 50 árum eftir Tyrkjaránið (1677), en – það gerir ekkert til.
Á leiðinni frá Krýsuvík inn í Herdísarvík fékk ég versta veður og versta veg, hellirigning og hraun. Herdísarvík er ofurlítið grænt hreiður austan til í þessari dæmalausu hraunbreiðlu, sem hvarvetna hefur steypst fram af suðurhlíðum Geitahlíðarfjallanna. Þar er ekki búsældarlegt umhorfs, hvernig sem þar kann að vera í reyndinni. Tjörn er við bæinn og hár malarkambur fyrir framan hana, líkt eins og víða er á Sléttu.

Krýsuvíkurberg og Krýsuvík þar upp af.
Í Tyrkjaráninu 1627 komu ræningjar upp á bergið eftir svonefndum Ræningjastíg en fengu óblíðar móttökur frá heimamönnum.
___________________

Nú átti ég aðeins eftir einn stað, sem ég þráði að sjá. Það voru Vogsósar, þar sem Galdra-Eiríkur bjó. Á leiðinni inn í Selvog blasti Strandarkirkja altaf við mér, þessi heilaga áheitakirkja, sem sjálf kvað vera bygð fyrir áheit. Það var sem blesssuð kirkjan byði mér stöðugt heim. En ég gaf mér ekki tíma til að sinna henni að þessu sinni. Það hefði tafið ferð mína um heilan dag. Ég lét nægja að senda henni hlýjar hugsanir.
Aldrei hefur íslenzkri alþýðufyndni tekist eins upp og í sögunum af Eiríki í Vogsósum. Væru þær komnar á aðra tungu, mundu þær verða heimsfrægar; svo er mikið í þeim af skáldlegu fjöri og ímyndunarafli, að þær eiga fáa líka sína, þó að víða sé leitað. Þar hafa áreiðanlega mörg skáld af sannarlegri guðs náð lagt hvert sitt til. Og sennilega hafa þessi frumlegu stórskáld verið vermenn í Reykjanesverstöðvunum, með sigg í höndunum eftir árahlummana og bökin bogin af róðri. Slík hafa lengi verið kjör íslenskra skálda. En öldum saman hafa menn glatt sig yfir skáldverkum þeirra, og enn munu margir eiga eftir að gleðjast af þeim. Ég man eftir einni sögunni, sem séra Ólafur fríkirkjuprestur sagði mér einu sinni í skírnarveislu. Hún var um kirkjukútinn; ég man ekki, hvort hún er prentuð, svo saklaus, að vel mætti segja hana við konungshirð, en svo skemtileg, að aldrei er hægt annað en hafa gaman af henni. Eða þá sagan um púkana, sem áttu að flétta reipi úr sandinum; vísitatiu Jóns biskups Vídalíns, o. fl., o. fl. Eitthvað hefur prestur þessi verið einkennilegur og öðrum mönnum ólíkur, fyrst allar þessar skáldsögur gátu um hann skapast, og myndirnar af honum, sem lifa í öllum sögunum, geyma áreiðanlega eitthvað af honum sjálfum. Og þarna liggur býlið, sem nú er óaðskiljanlegt frá nafni hans. Yfir breiðan en grunnan ós er að fara heim að bænum. Hann er hrörlegur og fólkið, sem þar býr nú, fremur fátæklegt. En það er ómaksins vert að vita, hvernig umhorfs er á Vogsósum.
Nú fór ég að greikka reiðina – yfir Selvogsheiði, inn í Ölfusið og kom að Hrauni í myrkri um kvöldið. Þangað varð ég að ná, ef ég vildi ná heim næsta dag. Það er líka nafnkunnur staður, því að það var þar, sem Lénharði fógeta var stútað.
Þá var ég kominn á þektar stöðvar, og nú er ferðasagan á enda.
Eitt orð enn um Reykjanesskagann.
Hann er eyðilegasti og ömurlegasti útskaginn á Íslandi, allur brunninn og blásinn, eintóm reginöræfi fram á ystu odda, frá ströndum til stranda, ljótur og úfinn og illilegur, eins og guð hafi skapað hann í bræði sinni.
En – hann skagar fram milli einhverra beztu fiskimiða heimsins.
Það gerir gæfumuninn.