Landbrotshólar: Meðal merkilegustu jarðminja Íslands

posted in: Íslandsperlur | 0

Óteljandi, grasivaxnir hólar einkenna landslagið í Landbroti og margur vegfarandinn veltir þeim fyrir sér þegar ekið er eftir þjóðveginum vestan Kirkjubæjarklausturs.  Hólarnir þekja enda stórt svæði og gefa landslaginu sérkennilegt svipmót.  Þeir eru samt ekki af sama meiði og hólarnir í Vatnsdal þótt bæði fyrirbærin séu óteljandi.
Landbrotshólarnir eru með merkilegustu jarðminjum landsins því hér er um að ræða gervigíga sem koma bersýnilega í ljós þegar þeir eru skoðaðir ofanfrá eins og meðfylgjandi ljósmyndir bera með sér. Gervigígar af þessu tagi verða til í miklum gufusprengingum þegar glóandi heitt hraun rennur yfir votlendi, s.s. mýra- og tjarnasvæði. Landbrotshólar eru víðáttumesta gervigíasvæði landsins, um 50 ferkílómetrar að flatarmáli.


Skiptar skoðanir hafa verið um aldur og tilurð gervigíganna í Landbroti enda eru margar eldstöðvar á þessu svæði og kannski ekki alltaf gott að átta sig á því hvers hraun tilheyra hvaða eldstöðvum. Í dag virðist almennt vera litið svo á að hraunið tilheyri Eldgjárgosinu 934. Jón Jónsson skrifaði talsvert um jarðfræðina á þessi svæði og í öðru tölublaði Náttúrufræðingsins árið 1990 skrifar hann að telja verði nær fulla sönnun fyrir því að hraunið sé komið alla leið úr Kambagígum, sem eru norðvestan við Lakagíga, og sé því 7000 ára gamalt. Ekki er mér kunnugt um hvers vegna Eldgjárgosið varð síðar ofaná.

Á Vísindavefnum er að finna greinarkorn eftir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðing, um tilurð gervigíga en hann skrifar:

„1. Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

2. Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).

3. Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.

Ef skoðað er snið í gegnum gervigíga kemur í ljós að fyrsta efnið sem kemur upp í gosinu er yfirleitt mjög ríkt af jarðvegi og undirlagsefnum. Er líða tekur á gosið verða hraunflyksur og gjallmolar hins vegar meira áberandi.

Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. En verði bara nokkrar sprengingar í þeim mynda þeir gjarnan hóla án gígskála. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum.“

Á vísindavefnum segir ennfremur um gervigíga:
„Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.“

Uppghaflega birt 12. ágúst 2021.

Upphaflega birt 12. ágúst 2021.