Magnþrungin fossasinfónía í Mjóafirði

posted in: Íslandsperlur | 0

Þótt Mjóifjörður sé ekki ýkja langt frá Egilsstöðum er hann samt svo undarlega afskekktur vegna erfiðra samgangna. Þangað liggur mjór og brattur fjallvegur sem ekki er fær nema yfir sumartímann og kannski eitthvað frameftir hausti ef tíð er góð. Hinir fáu íbúar Brekkuþorps, krúttlegasta smáþorps landsins, verða að reiða sig á áætlunarbát frá Norðfirði mestallan veturinn. 
Að koma niður í Mjóafjörð með einhverjum sem ekki hefur komið þangað áður er ákveðið upplifelsi – að verða vitni að því hvernig viðkomandi grípur andann á lofti af hrifningu yfir þeirri yfirþyrmandi náttúrufegurð sem mætir manni þegar komið er niður af heiðinni, því þannig upplifði maður sjálfur Mjóafjörð í fyrsta skipti. Og hrifningin er litlu minni í hvert skipti sem maður heimsækir Mjóafjörð á ný.

Leið hundrað lækja

Mjóifjörður er sannakallað fossaland. Að ætla að telja alla fossana í Mjóafirði er svona svipað og reyna telja eyjarnar í Breiðafirði. Í bröttum og gróðursælum hlíðum tignarlegra fjalla falla óteljandi, sindrandi fjallalækir og fossar. Mesta djásnið í þessari magnþrungnu fossasinfóníu eru Klifsbrekkufossar í botni fjarðarins. Þar gefur að líta eina fallegustu fossaröð landsins þar sem hún fellur í mörgum stöllum niður klettarið hlíðarinnar. Til að átta sig betur á öllum þessum fjölda lækja og fossa í Mjóafirði má geta þess að einn heimamanna mun einhverju sinni hafa ráðist í það að telja lækina á veginum frá þorpinu inn í fjarðarbotn, alls um 11-12km vegalengd. Reyndust þeir vera eitt hundrað talsins. Þeir renna nú allir til sjávar í gegnum rör undir veginum svo hægt er að gera sér í hugarlund um hvernig það hefur verið að komast þarna um áður en gripið var til þeirra ráðstafana.

Klifsbrekkufossar í Mjóafirði.
_______________________

Minnsta þorp landsins

Mjóifjörður telst vera 18km langur og í honum miðjum stendur Brekkuþorp. Samkvæmt því sem næst verður komist eru 14 manns með fasta búsetu þar í dag. Fyrrum var mun fjölmennara í firðinum. Árið 1904 urðu íbúar flestir 412, þar af 156 í Brekkuþorpi. Umsvif Norðmanna fyrr á árum, bæði við síld- og hvalveiðar, hélt uppi fólksfjöldanum. Þeir byggðu hvalveiðistöð í firðinum um þar síðustu aldamót, sem á þeim tíma var sú stærsta í heiminum með um 200 starfsmenn. Minjar hennar má sjá á Asknesi.  Einnig var önnur hvalveiðistöð í Hamarsvík en hún var vart nema hálfdrættingur á við Asknesstöðina.
Í Morgunblaðsviðtali árið 2000 er haft eftir Hjálmari Vilhjálmssyni, innfæddum Mjófirðingi fæddum árið 1937, að í hans æsku hafi verið búið meira eða minna allt umhverfis fjörðinn, væntanlega á bilinu 150 til 200 manns. „Sú saga hefur verið sögð að eftir að strandferðaskip hafi getað lagt að bryggju í Mjóafirði hafi helmingur íbúanna flutt burt. Eftir að vegurinn var lagður yfir heiðina hafi hinn helmingurinn, þ.e. sá sjóhræddi, flutt í burtu,“ segir Hjálmar í viðtalinu árið 2000. Í þessari kankvísi er þó alvarlegur undirtónn. Á þeim tíma sem viðtalið birtist voru íbúar 32 á níu heimilum, samkvæmt því sem fram kemur í greininni. En nú eru aðeins 14 eftir en eitthvað fleiri dvelja þar yfir sumarið.

Minnsta þorp landsins baðað kvöldgeislum sólarinnar á fallegu sumarkvöldi í Mjóafirði.
_____________________________________
Þessi landgönguprammi í flæðarmálinu var upphaflega notaður af ameríska hernum við flutninga til ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli. Þegar komið var upp síldarplani í Brekkuþorpi árið 1965 var pramminn fenginn vélarlaus austur til að flytja burt síldarafskurðinn. Var hann þá dreginn frá Mjóafirði til Norðfjarðar þar sem landað var í bræðslu. Hann þótti hins vegar óþjáll í notkun og voru menn hvað eftir annað rétt við það að missa hann niður á leiðinni til Norðfjarðar. Hann var því einungis notaður í tvö sumur og lagt síðan á þessum stað þar sem hann er nú einskonar minnisvarði um fyrri tíðar atvinnuhætti í Mjóafirði.
_______________________________________________

Einstakur staður og sérstök stemmning

Gaman er að koma á svona einstakan stað sem Brekkuþorp og Mjóifjörður er. Slíkir staðir búa yfir sérstakri stemmningu og andblæ liðins tíma. Uppskrúfuð yfirspenna nútímans í skarkala þéttbýlisins nær ekki til slíkra staða. Þar er annar lífstaktur – enginn að flýta sér neitt sérstaklega. Og þegar maður kemur við í Sólbrekku og kaupir sér rjúkandi kaffibolla með nýbakaðri rjómavöfflu gefur gestgjafinn, sem er innfæddur Mjófirðingur, sér tíma til að setjast hjá manni út í sólskininu og segja manni sögur og fróðleik af staðnum. Slíkt myndi örugglega ekki henda á kaffihúsi í Reykjavík.  

Og Mjóifjörður er sannarlega ríkur af sögu, sem m.a. sést á þeim minjum, hvarvetna í firðinum, sem bera vitni um fyrri tíðar búsetu og lífsháttu. Einn af þekktustu sonum Mjóafjarðar, Vilhjálmur Hjálmarsson, kenndur við Brekku, ritaði margt um sögu fjarðarins og gaf út bækur. Einhverjar þeirra er hægt að kaupa með kaffinu í Sólbrekku.

Ef þú ert intróverttýpan sem sækir í fámenni, kyrrð, frið og fallega náttúru þá er Mjóifjörður klárlega draumastaðurinn fyrir þig til að búa á eða að minnsta kosti dvelja um stund.

Merkilegar minjar og fallegir fossar. Þetta er Mjóifjörður.
____________________________________
Þetta hús í Brekkuþorpi var heldur óhrjálegt að sjá þegar ég átti leið þar um fyrir nokkrum árum. Það hefur nú verið endurbyggt af miklum metnaði og natni í upprunalega mynd, eiganda þess og Brekkuþorpi til mikils sóma.
__________________________________________
Kirkjan að Brekku var byggð 1891 eftir að kirkjan í Firði var lögð niður en hún átti sér langa sögu, sumar heimildir nefna frá árinu 1062. Í kirkjugarðinum er m.a. steinsteypt grafhýsi sem hýsir Konráð Hjálmarsson, kaupmann (1858-1939). Hann var ættaður héðan og stóð sjálfur fyrir byggingu grafhýsisins meðan hann lifði. Kirkjunni er vel við haldið svo prýði er að.
______________________________________
Sumarkvöld í Mjóafirði.
Ef farið er niður í Mjóafjörð er um að gera að aka áfram út á Dalatanga. Vegurinn þangað liggur undir bröttum hlíðum hrikalegra fjalla. Á Dalatanga er að finna tvö vitahús. Þetta á myndinni er frá 1895, er fyrsti ljósviti á Austurlandi og annar á Íslandi. Nýrri vitinn er byggður 1908. Útsýnið frá Dalatanga er stórkostlegt.
__________________________________
Horft yfir Mjóafjörð á leið niður af heiðinni.
___________________________________
Foss í Hofsá á leiðinni út á Dalatanga.
__________________________
Horft yfir hina firnafallegu Klifsbrekkurfossa úr lofti.
_____________________________
Andblær hins liðna.
Einhverjum gæti fundist þetta vera bölvað drasl og lýti á umhverfinu sem ætti fjarlægja
en á stað eins og Mjóafirði er það einhvern veginn ekki þannig.
Þetta felur í sér einhvern anda um hverfandi byggð og gengnar kynslóðir.

Og er ákaflega gott myndefni.
____________________
Eitt af ótalmörgum fossagiljum í Mjóafirði er hið stórbrotna Prestagil.
Nafnið er til komið vegna skessu sem seiddi til sín prestana á staðnum, grandaði þeim í

gilinu og lagði sér til munns, samkvæmt þjóðsögunni.
_____________________________
Minjar, fossar, hrikaleg fjöll og hafið, Þetta er Mjóifjörður.
_________________________

Upphaflega birt 5.júlí 2021.