Kerlingarfjöll – stórbrotið landslag mikilla andstæðna

posted in: Íslandsperlur | 0

Á Kili er eitthvað seiðmagn sem dregur mann þangað aftur og aftur. Kjalvegur er kannski ekkert skemmtilegur yfirferðar, allavega á köflum, en býr yfir ákveðnum sjarma og andblæ óbyggðanna sem alls ekki ætti að eyðileggja með því að gera hann að uppbyggðum heilsársvegi, eins og rætt hefur verið um. Það væri stórslys af mannavöldum.  Um Kjalveg liggur leiðin að ýmsum heillandi náttúruperlum hálendisins eins og Hvítárnesi, Hveravöllum, Jarlhettum og Kerlingarfjöllum í kynngimögnuðu landslagi umgirtu  tignarlegum íshettum Langjökuls og Hofsjökuls.  Í þessum pistli er fjallað um þá síðastnefndu í máli og myndum. Kerlingarfjöll eru stórbrotin með öllum sínum tindum, gnípum, eggjum, röðlum og litadýrð sem gerir landslag svæðisins svo einstaklega fjölbreytt að það á sér fáar eða engar hliðstæður.

Heitt og kalt. Andstæður í Kerlingarfjöllum eru miklar þar sem sjóðheit hverasvæði og ískaldur jökulís kallast á.
__________________________________________

Endalaus uppspretta myndefnis

Kerlingarfjöll voru lengi ókönnuð og fáir lögðu leið sína þangað. Gagnamenn fóru ekki um þau fyrr en eftir miðja 19.öld. Þau voru því lengi vel sveipuð dulúð sem kynnti undir sögusagnir um útilegumannabyggðir í fjöllunum.  Árið 1938 var fyrst  farið á bíl yfir Kjöl og það er ekki fyrr en 1941 sem Kerlingarfjöll voru könnuð til hlítar af Ferðafélagi Íslands.
Kerlingarfjöll hafa um árabil notið vinsælda sem útivistarsvæði enda á allan hátt firnaskemmtilegt gönguland með ótal möguleika til styttri sem lengri gönguferða eftir hentugleik hvers og eins. Margir eiga góðar minningar frá þeim árum þegar skíðaskóli var rekinn í Kerlingarfjöllum en vegna hlýnandi loftlags hefur skíðaiðkun þar lagst niður.
Fyrir ljósmyndara eru Kerlingarfjöll endalaus uppspretta myndefnis í landslagi mikilla andstæðna þar sem sjóðheit hverasvæði og ískaldar jökulfannir kallast á. Ummerki íss og elds eru óvíða jafn áþreifanleg og þarna.  Litadýrð svæðisins skemmir heldur ekki fyrir og allt þetta samspil gerir svæðið að myndrænu veisluhlaðborði fyrir auga ljósmyndarans. Þarna er hægt að að vera dögum saman við að ljósmynda einstaklega fallega og stórbrotna náttúru og af nógu er að taka.
Kerlingafjöll setja mikinn svip á landið þegar ekið er yfir Kjöl þar sem þau rísa hátt í sléttlendri og mikilli víðáttu Hrunamannaafréttar.  Fjallaklasinn í heild nær yfir um 140 ferkílómetra. Öræfin í kringum fjöllin eru almennt í 600-700 metra hæð yfir sjávarmáli á meðan hæstu tindar Kerlingarfjalla rísa snarbrattir upp í yfir 1400 metra hæð. Hæstur er Snækollur, 1488 metra hár.

Gönguhópur á leið upp á Fannborg, 1458 metra háa. Útsýnið ofan af henni er óviðjafnanlegt. Hér er horft til suðvesturs. Tindarnir Röðull til vinstri, Höttur fyrir miðju og Ögmundur til hægri, 1357 metra hár.
________________________________

Fágætar jarðmyndanir með hátt verndargildi

Svæðið ber öll einkenni megineldsstöðvar og er þar að finna næststærsta líparítsvæði landsins. Allt líparítið hefur myndast við gos í jökli og sum fjallanna eru líparítstapar, sem þykja sérlega fágæt jarðmyndun á heimsvísu. Líparítmyndanirnar í fjöllunum eru heildstæðar, óraskaðar og teljast hafa mjög hátt verndargildi sökum þess.  Svæðið skartar jafnframt einu fjölbreyttasta hverasvæði landsins í Efri og Neðri – Hveradölum og Hverabotni. Hveravirkni er mikil og telst það fágætt að finna jafn mikinn þéttleika af laugum, hverum og gufuaugum. Og einmitt vegna jarðhitans hafa orkufyrirtækin rennt hýru auga til Kerlingarfjalla. Fjöllin voru hins vegar friðlýst árið 2020 sem landslagsverndarsvæði. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðminjar, landslag, óbyggðir og ásýnd svæðisins, auk þess sem henni er ætlað að efla Kerlingarfjöll sem útivistarsvæði og stuðla að góðri umgengni og bættu aðgengi að svæðinu. Vonandi hefur þar með verið komið endanlega í veg fyrir þá glórulausu eyðileggingu sem borholur, stöðvarhús, affallslón og háspennulínur myndu hafa í för með sér fyrir ásýnd svæðisins. Náttúruperla eins og Kerlingarfjöll á að vera ósnert.

Óhætt er að segja að Kerlingarfjöll búi yfir einstaklega litríku landslagi.
_______________________________
Kynjamyndir í klettum. Einsamall göngumaður röltir hjá.
_____________________

Lifandi og áhugaverð jarðfræði

Kerlingarfjöll eru mynduð við gos í megineldstöð sem hefur verið virk á síðari hluta ísaldar. Fjöllin hafa verið aldursgreind og eru þau öll talin hafa myndast á síðustu ísöld. Elsta bergið finnst í Draugafelli (336.000 ára) og það yngsta í Fannborg (79.000 ára). Á myndunartíma fjallanna lá jökull yfir miðhálendinu.  Ætla má að yfirborð hans hafi verið a.m.k 1600-1700 metrum yfir sjávarmáli þegar Norðurfjöllin mynduðust. Þegar gos náðu uppfyrir íshelluna mynduðust fjöll með neðri hluta úr móbergi en hraunhettu í kolli, eða svokallaðir Stapar. Meðal þeirra þekktustu eru Höttur og Loðmundur. Þeir er nokkuð ólíkir frá flestum öðrum stöpum á Íslandi að því leyti að vera úr súru bergi (líparíti). Hinir háu og svipmiklu tindar Kerlingarfjalla eru að mestu úr þeirri bergtegund. Hið mikla hverasvæði í Kerlingarfjöllum er einmitt eitt einkenni megineldstöðva á Íslandi. Fyrir 30 árum mun Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, hafa fyrstur bent á að greina mætti brot tveggja askja innan fjallanna en um aldur þeirra er ekki vitað. Öskjur eru algengar í megineldstöðvum. Slík fyrirbæri eru oft talin myndast við stórfelld eldgos þar sem kvikuhólf megineldstöðvar tæmist og landsig verður í kjölfarið. Ekki ber sérfræðingum saman um hvort Kerlingarfjöll eru enn virk eldstöð. Hún hefur ekki gosið frá lokum ísaldar en telst enn vera í jaðri hins virka gosbeltis. Fyrir jarðfræðiáhugafólk eru Kerlingarfjöll afar áhugaverð því óvíða er jarðfræðin jafn lifandi og á þessu svæði.

________
Heimildir:
Umhverfisstofnun, www.ust.is (Friðlýst svæði/Kerlingarfjöll)
Árbók FÍ 1996 – Ofan Hreppafjalla, Ágúst Guðmundsson.
Vegvísir um jarðfræði Íslands – Snæbjörn Guðmundsson, 2015.
Hálendishandbókin – Páll Ásgeir Ásgeirsson, 2. útgáfa 2004.

Göngufólk á leið ofan af Snækolli. Fjallið framundan er Loðmundur og Hofsjökull í fjarska.
___________________
Horft til Kerlingarfjalla frá Kjalvegi. Loðmundur til vinstri, Snækollur og Fannborgin til hægri.
_______________________________
Hið stórbrotna Kisugljúfur í austanverðum Kerlingarfjöllum.
________________________________