Hin töfrandi Kálfshamarsvík

posted in: Íslandsperlur, Ljósmyndablogg | 0

Stuðlaberg vekur gjarnan hrifningu og aðdáun enda kitlar formfegurð þess fegurðarskyn fólks. Ísland býr yfir mörgum stöðum þar sem berja má augum formfagra stuðlabergshamra sem jafnast fyllilega á við hið vinsæla Stuðlagil á Jökuldal. Einn af þessum stöðum er Kálfshamarsvík á Skagaströnd þar sem finna má afar falleg og áhugaverð myndefni.

Kálfshamarsvík er heillandi staður. Þangað fór ég tvisvar sinnum síðasta sumar og í annað skiptið upplifði ég þar íslenskt sumarkvöld eins og þau gerast best. Hitti á blankalogn og gullfallegt sólsetur í þessu firnafallega umhverfi, kyrrlátt og friðsælt þar sem ekkert heyrðist nema yndisleg hljóðin í fuglunum og seiðandi gjálfur öldunnar í fjöruborðinu. Ég var eina manneskjan á staðnum, ekki einu sinni einn bíll uppi á vegi.  Svona kvöld bjóða upp á hughrif, náttúrutöfra og ógleymanlega upplifun sem nærir sálina lengi.

Heillandi sumarkvöld í Kálfshamarsvík.
______________________________________

Kálfshamarsvík býr ekki eingöngu yfir fallegu umhverfi heldur einnig áhugaverði sögu. Þar má sjá veggjabrot og tóftir byggðar sem var blómleg um nokkurt skeið. Fyrsta húsið í Kálfshamarsvík var reist um aldamótin 1900. Á fyrstu áratugum aldarinnar var mikil útgerð á staðnum og um 1930 voru 150 manns þar heimilisfastir. Þorpið bjó meðal annars yfir samkomuhúsi og skóla. Halla fór undan fæti þegar fiskleysi og þjóðfélagsbreytingar á stríðsáranum urðu til þess að fólki fækkaði ört. Síðustu íbúarnir fluttu þaðan veturinn 1947-1948. Sem fyrr segir má sjá tóftir og minjar um þessa byggð í Kálfshamarsvík og við þær  hafa verið settar upp  merkingar með fróðleik um húsin og íbúana. Er það afar lofsvert framtak sem gerir staðinn enn áhugaverðari.

Reisulegur viti stendur í Kálfshamarvík, falleg og stílhrein bygging sem sómir sér vel innan um formfagurt stuðlabergið. Axel Sveinsson hannaði vitann og var hann reistur árið 1939.
Stundum er talað um að hinn eða þessi staðurinn sé mjög „myndvænn“, þ.e. bjóði upp á áhugaverð og fjölbreytt myndefni og er sannarlega hægt að segja það um Kálfshamarsvík.

Stuðlabergið í Kálfshamarsvík liggur þvers og kruss. Það er um 2ja milljóna ára gamalt.
________________________________________________________________
Veggbrot af gömlum bæ. Í Kálfshamarsvík var blómleg byggð um tíma.
_________________________________________________________________
Minjar gömlu húsanna í víkinni hafa verið merktar með upplýsingum um íbúana. Er þetta afar lofsvert framtak sem gerir staðinn enn áhugaverðari.
_____________________________________________________________________