Flikrubergið í Berufirði

posted in: Íslandsperlur, Ljósmyndablogg | 0

Á ferðum mínum um landið í sumar kom ég meðal annars við í Berufirði, sem skartar mikilli náttúrufegurð, umkringdur  tignarlegum fjöllum sem jöklar ísalda hafa sorfið all duglega svo óteljandi hraunlagastaflar fjallanna blasa við. Hér hafa miklir náttúrukraftar verið að verki, sumir mjög ógnvænlegir og það voru einmitt merki um þá krafta í jarðsögunni sem ég hafði hug á að ljósmynda.

Norðan megin fjarðar er náttúrufyrirbæri sem flestir aka framhjá þegar þeir eiga leið hjá. Í fjöruborðinu, skammt austan við bæinn Fagrahvamm, rís sérkennilegur klettahamar sem er ólíkur öllu öðru bergi þar um slóðir bæði vegna litar og áferðar. Hefur klettahamarinn verið nefndur Blábjörg, sem segir til um lit hans.
Hér er um að ræða flikruberg, um það bil 9 milljón ára gamalt. Klettahamarinn er vitnisburður um stórkostlegan atburð í jarðsögu Íslands en flikruberg myndast við gjóskuhlaup í miklum sprengigosum. Þegar gosmökkurinn verður þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman svo úr verður gjóskuhlaup þar sem brennheit gjóskan þeytist á ógnarhraða niður hlíðar eldfjalla. Er hraðinn slíkur að ekki er á færi nokkurs manns að forða sér undan slíku. Eitt frægasta dæmið um þetta er rómverska borgin Pompeii.  Atburðir af þessu tagi eru ekki mjög algengir í gossögu Íslands. Rannsóknir benda til þess að slíkt hafi gerst 45 sinnum síðustu 6 milljón árin, eða á 130.000 ára fresti að jafnaði. Ekki eru þekkt dæmi um meiriháttar gjóskuhlaup hér á landi síðustu 10 þúsund árin. Þó þykjast menn sjá merki um að gjóskuhlaup hafi orðið við gosið í Öræfajökli árið 1362. Það gos er eitt mesta sprengigos hér á landi á sögulegum tíma.

Ég kom í Berufjörð seint um kvöld og var því búinn að missa alla birtu til myndatöku. Kom samt við hjá Blábjörgum til að skoða þetta merkilega berg. Tók nokkur HDR skot (mynd að ofan) en ákvað að koma aftur að morgni næsta dags þegar sólin skini á bergið en veðurspáin gerði ráð fyrir bjartviðri. Renndi inn í Berunes þar sem finna má gott tjaldsvæði með tilheyrandi aðstöðu. Ég hafði veitt því eftirtekt að tjaldsvæðið á Djúpavogi var yfirfullt en í Berunesi voru fáir á ferli, gott næði og friðsæld. Mæli hiklaust með Berunesi á ferð um Austurland.

Fór síðan um morguninn og ljósmyndaði Blábjörg áður en ég hélt leið minni áfram upp á Öxi og naut ómótstæðilegrar náttúrufegurðarinnar í botni fjarðarins. Var því með myndir af berginu teknar á mismunandi tíma sólarhringsins og þegar kom að því að velja myndir í nýju ljósmyndabókina var virkilega erfitt að gera upp á milli myndanna. Svona getur nálgunin á myndefnið verið mismunandi eftir tímasetningu og birtu og hvaða áhrifum við erum að sækjast eftir hverju sinni. Þess vegna fer maður oft á sömu staðina til að ljósmynda þá við mismunandi birtu og aðstæður. Einnig stoppar maður á sumum þeirra, kemur sér fyrir í tjaldinu og ljósmyndar við breytilega birtu á mismunandi tímum sólarhringsins.