Þjórsárver: Lítt snortin, einstök og mikilfengleg náttúruperla

posted in: Íslandsperlur | 0

Náttúrufegurð Þjórsárvera og umhverfis þeirra, með Hofsjökul í baksýn, er magnþrungin. Fjölbreyttur gróður, tjarnir og vötn, mikið fuglalíf og smærri dýr, jökulár og víðernið gera þetta friðsæla svæði einstakt í sinni röð.
________________

Þjórsárver eru algjörlega einstök í íslenskri náttúru, gróðurvin í yfir 600 metra hæð sem stingur í stúf við harðneskjulegt eyðimerkurlandslagið á Sprengisandi. Þjórsárver geyma einar mestu gróðurvinjar sem fyrirfinnast á hálendi Íslands. Sérstaða veranna felst í samspili jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Þjórsárver eru eitt allra mikilvægasta votlendi Íslands og jafnframt talin meðal helstu votlendsvæða á Norðurlöndum. Einstök friðsæld og magnþrungin fegurð ríkir í Þjórsárverum.

Í Þjórsárverum eru gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með fjölbreyttu gróðurfari og þar er eitt stærsta sífrerasvæði landsins. Fimm af þeim sex vistgerðum sem taldar eru hafa mest verndargildi á miðhálendinu finnast á svæðinu. Að minnsta kosti 663 tegundir háplantna, mosa og fléttna finnast í Þjórsárverum, þar af 187 tegundir háplantna, 237 tegundir mosa og 239 tegundir fléttna. Margar sjaldgæfar tegundir vaxa á svæðinu. Fjórar háplöntutegundir á válista finnast þar. Í Þjórsárverum hafa sést 47 fuglategundir og hafa allt að 27 tegundir orpið á svæðinu, þar af fimm tegundir sem eru á válista. Svæðið er skilgreint mikilvægt fuglasvæði og heyrir undir Ramsar-samþykktina. Heiðagæsin hefur verið ríkjandi tegund á svæðinu en verin voru lengi mesta varpland heiðagæsa í veröldinni. Meðal annarra tegunda í verunum eru rjúpa, heiðlóa, sandlóa, óðinshani, kjói, hávella og straumönd, himbrimi og álft. Einnig má þar stundum sjá fálka og jafnvel snæuglu.

Horft með flygildi beint ofan í fallega uppsprettu, eina af mörgum í Þjórsárverum.
______

Verin eru lítt snortin af ágangi manna og voru fyrst friðlýst sem friðland árið 1981. Friðlýsta svæðið er í dag 1.563 ferkílómetrar að stærð og nær yfir öll Þjórsárver, Hofsjökul í heild sinni og nágrenni. Markmið friðlýsingar er að tryggja víðtæka og markvissa verndun gróðurlendis Þjórsárvera í heild sinni, vistkerfi veranna, rústamýrarvist, varpstöðvar heiðagæsa, víðernis, sérstakrar landslagsheildar og menningarminja. Auk þess er henni ætlað að stuðla að fræðslu til almennings um verndargildi svæðisins. Einnig njóta Þjórsárver alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsar-sáttmálanum en hann nær yfir votlendissvæði sem þykja mikilvæg á heimsvísu. Þá hafa Þjórsárver fram að þessu verið í verndarflokki rammaáætlunar. Það er er því ákaflega dapurlegt að Landsvirkjun skuli sækja það stíft að ná Þjórsárverum úr verndarflokki í biðflokk. Tilgangurinn er auðvitað sá að ná svæðinu síðan í orkunýtingarflokk og endurvekja drauminn um Norðlinga- og Kjalölduveitur svo þessari einstöku náttúru á heimsvísu verði hægt að sökkva í miðlunarlón.

Þegar horft er yfir svæðið úr lofti kemur í ljós gríðarlega fallegt náttúruafstrakt með mikilli litadýrð.

____

Ferðafólk virðir fyrir sér tóftir í Eyvindakofaveri. Hér munu frægustu útilegumenn Íslandssögunnar, þau Fjalla-Eyvindur og Halla, hafa haldið til í nokkur ár fram til 1772. Talið er að þau hafi byggt fleiri en einn íverustað í verunum.  Það er ótrúlegt að þau skötuhjú hafi getað þraukað veturna og lifað af fimbulfrost og illviðri svo langt uppi á hálendinu en þau voru bæði þrautseig og útsjónarsöm.
_____

Göngufólk veður Þúfuverskvísl í Þjórsárverum og nýtur náttúrunnar. Hágöngur í fjarska á bak við regnbogann.
______

Þjórsárver og Múlajökull. Þjórsárver njóta alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsar-sáttmálanum en hann nær yfir votlendissvæði sem þykja mikilvæg á heimsvísu.
_______

Heimild: Umhverfisstofnun, ust.is