Rauðanes: Ein fallegasta klettaströnd Íslands.

posted in: Íslandsperlur | 0

Þistilfjörður er búsældarleg sveit sem býr yfir fjölbreyttu og fögru landslagi. Nyrst í firðinum er að finna eina mögnuðustu náttúrusmíð landsins á ægifagurri klettaströnd sem er engu lík. Þar eru nafntogaðastir svonefndir Stakkar, sérkennilegar móbergsmyndanir úr fíngerðu kubbabergi sem taka á sig hin sérkennilegustu form og kynjamyndir. Óhætt er að segja að við Rauðanes skorti ekki myndefnin, svo mikið er víst.

Um Rauðanes liggur stikuð, auðfarin gönguleið, um það bil sjö kílómetra löng. Á leiðnni er hægt að virða fyrir sér ýmsa furðusmíð náttúrunnar, stórkostlega steinboga og gatkletta, fallegt Stuðlaberg í Lundastöpum og marga dulúðuga sjávarhella. Eitt vinsælasta myndefnið á þessum slóðum er Gatstakkur, sérkennilega lagaður.  Stakkar heita tveir stórir drangar sem rísa háir og tignarlegir upp úr sjónum og í Stakkatorfu er all nokkur Lundabyggð. Blómlegt fuglalíf þrífst í björgunum á vorin þegar sjófuglinn sest upp. Útsýni af nesinu er mjög víðfemt og fagurt. Maður ætti umfram allt að gefa sér góðan tíma til að staldra við á Rauðnesi til að njóta þessarar stórkostlegu náttúruperlu. Rauðnes hefur stundum verið kallað eitt best varðveitta leyndarmál íslenskrar náttúru því fáir höfðu gefið þessari náttúruperlu sérstakan gaum fyrr en í seinni tíð.

Lagskipt berg á Rauðanesi.
______________________________________
Í klettunum eru ýmsar kynjamyndir. Kletturinn fyrir miðju minnir á höfuð snáks eða eðlu.
____________________________
Gluggur, kallast þessu mikilfenglegi steinbogi. Hér hefur verið myndarlegur sjávarhellir.
Þegar þak hans hrundi stóð steinboginn eftir.