Lónsöræfi: Einstök, stórbrotin og litrík

posted in: Íslandsperlur | 0

Eitt magnaðasta göngusvæði landsins er að finna austan Vatnajökuls í Lónsöræfum, einnig nefnd Stafafellsfjöll.  Ekki er hlaupið að því að draga fram magnþrungna náttúrufegurð Stafafellsfjalla  í ljósmyndum – sum náttúrusvæði eru einfaldlega þannig að maður verður að fara þangað og upplifa þau og þetta er eitt af þeim.  Hrikalegt landslag, fagrir fjallasalir og mikil litadýrð er meðal þess sem svæðið hefur upp á að bjóða en stórbrotið svipmót þess hefur mótast af því að þarna eru fornar megineldstöðvar sem jöklar ísalda hafa sorfið duglega svo innviðir þeirra koma í ljós.

Um er að ræða eitt af stærstu verndarsvæðum landsins, um 320 ferkílómetrar að flatarmáli og hefur það verið nefnt Friðland á Lónsöræfum þótt heimamenn almennt vilji frekar kalla það Stafafellsfjöll.  Háir fjallgarðar, víða yfir 1000 metra, mynda umgjörð friðlandsins á þrjá vegu, krýndir fönnum og jöklum sem senda frá sér skriðjökultungur.

Fjölbreyttar  jarðmyndanir, fallegir dalir, mikil litadýrð, hrikaleg gljúfur og fossar.

Í lýsingu á vef Umhverfisstofnunar segir m.a um jarðmyndanir og lífríki friðlandsins:

„Fjölbreyttar og litríkar jarðmyndanir setja svip sinn á svæðið.  Þær eru að meginstofni 5-7 milljón ára gamlar en þær yngstu eru orðnar til á ísöld.  Innan friðlandsins og í næsta nágrenni þess eru leifar margra megineldstöðva, svo sem Lónseldstöðvar næst byggð, Kollumúlaeldstöðvar í hjarta friðlandsins, Flugustaðaeldstöðvar á austurmörkum og Eyjabakkaeldstöðvar að norðvestan.  Allar segja þær til sín með súrum gosmyndunum, líparíti og innskotum, og auk þess hefur jarðhiti átt þátt í ummyndun og litauðgi bergs á svæðinu… Gífurlegir rofkraftar ísaldar hafa sorfið landið og gefa því það stórfenglega svipmót sem nú blasir við. Þannig hafa jöklar heflað út Jökulsárdal og Víðidal og árnar síðan bætt um betur með hrikalegum gljúfrum.  Nokkrir fossar prýða svæðið, fossar í Jökuslá innst í Vesturdal, fagur og hár foss í ánni sem fellur suður úr Vatnadæld, geysihár foss af Suðurfjalli gegnt Tröllakrókum og í Víðidalsá fossar eins og Dynjandi og Beljandi. Birkikjarr er víða inn með Jökulsá, einna vöxtulegast í Leiðartungum og sunnan í Kollumúla, þar sem einnig vaxa nokkur reynitré.  Fjallaplöntur eins og jöklasóley og melasól fylgja skriðum niður undir láglendi og gullsteinbrjótur minnir á sérkenni austfirskrar flóru.“

Háir fjallgarðar, víða yfir 1000 metra, mynda umgjörð friðlandsins Hér er það Sauðhamarstindur sem gnæfir hæst.
___________

Hin víðfema Kollumúlaeldstöð

Í Árbók FÍ árið 1993 skrifar Hjörleifur Guttormsson greinargóða lýsingu á svæðinu og getur sérstaklega um Kollumúlaeldstöðina í hjarta friðlandsins. Hina rómuðu litadýrð Lónsöræfa megi helst rekja til hennar.  Þar segir að Kollumúlaeldstöðin hafi verið virk í eða um yfir eina milljón ára á skeiði sem hófst fyrir 5,5 – 5,9 milljónum ára. „Miðja eldstöðvarinnar hefur verið  í Víðibrekkuskerjum skammt vestur af Illakambi. Mikil jarðhitavirkni hefur fylgt eldstöðinni og hefur hún valdið mikilli umbreytingu á bergi umhverfis eldstöðina og innan hennar þar sem jarðlögin taka víða á sig fölgræna  eða grænhvíta áferð vegna leirsteinstegunda, einkum klóríts. Vegna ummyndunarinnar er víða erfitt að gera greinarmun á líparíti og myndbreyttu basalti. Enginn jarðhiti er lengur virkur í eldstöðinni, en síðustu leifar hans koma fram í kolsýruríku vatni í ölkeldum í ölkeldugili vestan Illakambs og í Kambagili austan í Kjarrdalsheiði,“ skrifar Hjörleifur meðal annars í fróðlegum texta. Þar segir einnig að á síðari hluta æviskeiðs Kollumúlaeldstöðvar hafi myndast í henni sporöskulaga askja um 35 ferkílómetrar að flatarmáli og 200 – 300 metra djúp.  Bermyndanir af ýmsum gerðum á svæðinu megi rekja til hennar, líparíthraun, móberg, flikruberg og innskot.

Berglög og tilkomumikill berggangur í Þilgili. Hér hefur ísaldarjökullinn sorfið duglega í jarðlagastaflann svo æðakerfi gömlu eldstöðvanna koma vel ljós.
_____________________________________

Einstakt og fagurt gönguland

Lónsöræfi bjóða upp á margar fjölbreyttar og mislangar gönguleiðir og umfram allt ætti maður að gefa sér nokkra daga í að njóta þeirra. Fyrir þau brattgengu er kjörið að fara frá Múlaskála á fjöll eins og Sauðhamarstind (1319 m) og Kollumúla (901 m). Einnig eru  fallegar gönguleiðir yfir í Víðidal, um Leiðartungur upp í Egilssel með viðkomu við Tröllakróka, svo eitthvað sé nefnt.  
Umferð velknúinna ökutækja er bönnuð í friðlandinu og ekki verður komist lengra en inn á Illakamb á vel útbúnum fjallabílum en fara þarf yfir Skyndidalsá sem er frekar óárennileg og alls ekki á færi „slyddujeppa“. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafa boðið upp á reglulegar ferðir inn á Illakamb. Þaðan er svo hægt að ganga niður í Múlaskála með farangurinn á bakinu. Einnig er hægt að láta ferja sig til og frá Austurskógum, fara þar yfir göngubrú og ganga eftir gríðarfallegri gönguleið inn Kambagil og Svínadal upp á Illakamb og þaðan áfram í Múlaskála.
Tvívegis hef ég farið í samtals 9 daga gönguferðir um Lónsöræfi.  Í fyrra skiptið tjaldaði ég við Múlaskála og fór þaðan í daglangar gönguferðir út frá tjaldinu. Í seinna skiptið kom ég gangandi yfir heiðarnar ofan frá Eyjabökkum, hvoru tveggja mjög gefandi.  Eftir það upplifelsi fullyrði ég að friðlandið í Stafafellsfjöllum er ein mesta náttúruparadís landsins, einstakt jarðsögulega og draumaland allra sem elska göngur í fallegri, íslenskri náttúru.

Fátt er meira hressandi en að fá sér kalt fjallabað í tærum hyl við fallegan foss á heitum göngudegi. Myndin er tekin í Víðidal.
___________________________________
Við Tröllakróka.
_____________________
Við Tröllakróka.
___________________
Fjölbreyttar og litríkar jarðmyndanir setja svip sinn á svæðið.
______________________
Múlaskáli í kvöldsólinni. Bak við hann er Illikambur.
_______________
Göngufólk á leið upp Illakamb. Fjær sést til Múlaskála.
_________________
Ferðafólk drekkur morgunkaffið við skálann í Egilsseli.
___________________________
Bergangar af öllum stærðum setja svip sinn á svæðið enda um fornar eldstövar að ræða sem roföflin hafa sorfið svo innviðir þeirra blasa við.
_________________________________________________
Göngufólk á ferð um Leiðartungur.
__________________________
Á svokallaðri Kambaleið milli Illakambs og Eskifells. Hér er magnþrungin náttúrufegurð.
___________________________

Upphaflega birt 3. september 2021.