Jól í Keflavík um þarsíðustu aldamót

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Í jólablaði Faxa árið 1945 birtist grein eftir Mörtu Valgerði Jónsdóttur sem bar heitið „Minningar frá liðnum stundum – Jól í Keflavík um síðustu aldamót“. Þar lýsir Marta jólahaldi og áramótum í Keflavík aldamótaárið 1900. Þá var Keflavík smáþorp með einungis 280 íbúa og lífsþægindi öll gjörólík því sem við þekkjum í dag. Marta Valgerður skrifaði reglulega greinar í Faxa um langt árabil og í dag eru skrif hennar ómetanlegar heimildir um sögu bæjarins og líf íbúanna.  Ritverkið „Keflavík í byrjun aldar”, sem kom út árið 1989 byggði á skrifum og heimildasöfnun Mörtu Valgerðar. Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla birti ég hér frásögn Mörtu Valgerðar sem ég myndskreyti með eigin ljósmyndum af vetrar-og jólastemmningu í elsta bæjarhluta Keflavíkur.

Jól í Keflavík um síðustu aldamót

 Fjörtíu og fimm ár eru ekki langur tími, þegar horft er til baka yfir farinn veg, en það man ég að óralangt fannst mér að horfa fram á leið, er ég aldamótakvöldið var að bollaleggja í barnslegri einfeldni um framtíðina.
 Hvernig myndi Keflavík líta út eftir 40-50 ár? Eða þá næstu aldamót?
 Spurningarnar þyrptust fram, enda heyrði ég þá margt rætt um framtíðina.
 Og það var spáð og óskað og vonað að sú nýja öld færði björg og blessun í bú.
 Um síðustu aldamót var Keflavík smáþorp, um 280 íbúar, ein aðalverslun, eða öllu heldur einokunarverslun, íbúarnir flestir fátækir, húsin lág og lítil og nokkrir hálffallnir torfbæir. Öll lífsþægindi, er nú þykja sjálfsögð, vantaði.
 En fólkið sem bjó í þessum lágreistu kotum og litlu húsum ól í brjósti sér von um betri daga og bætt kjör og margur hver kunni jafnframt svo prýðilega þá list að lifa sér og öðrum til gagns og gleði.
 Sú hjartans góðvild, er lýsti sér í margskonar hjálpsemi og góðgjörðum við þá er bágt áttu eða þurftu á annan hátt hjálpar við, er mér minnisstæð og á drjúgan þátt í þeirri gleði er ævinlega fyllir hugann, er ég lít til baka yfir æskuár mín í Keflavík.

 Það var venja í Keflavík á fyrri hluta vetrar, þegar útistörf minnkuðu að komið var á fót söngfélagi, hafði svo verið löngu fyrir aldamót. Í þessu litla bæjarfélagi fundust ævinlega nægilega margir til þess að mynda dálítinn blandaðan kór og svo heppilega vildi þá til að venjulega var einhver í þorpinu, annað hvort búsettur þar eða þá í dvöl yfir veturinn, sem gat tekið að sér söngstjórn.
 Þórður Thoroddsen læknir og frú Anna kona hans bjuggu þá í Keflavík, voru þau bæði prýðilega menntuð í söng og tónlist og hin áhugasömustu um að fræða aðra um þau mál, enda leiðbeindu þau söngflokknum oft á æfingum. Var aðstoð þeirra ómetanleg.
 Aldamótaveturinn var Þorgeir Pálsson, nú framkvæmdastjóri í Reykjavík, söngstjóri kórsins, var hann prýðilega smekkvís um söng og organleik og þótti öruggur söngstjóri. Var þessi kór Keflvíkingum mikill gleðiauki þann tíma er Þorgeirs naut við.
 Það vissi ég að söngfólkinu þótti mikið til Þorgeirs koma, heyrði ég oft minnst á hann löngu eftir að hann var farinn burtu úr Keflavík og ævinlega á einn veg, með aðdáun og söknuði.

 Þegar ég hugsa um jólin í litla bænum, verður efst í huganum ljósum prýddir gluggarnir á litlu húsunum. Í alla glugga var raðað smákertum, sex í gluggakistuna og sex á hillu, sem sett hafði verið í miðjan gluggann, fannst okkur börnunum þetta bæði fagurt og hátíðlegt og öllum mun hafa verið kærkomið að sjá ljós í hverjum glugga mitt í skammdegismyrkrinu.
 Á aðfangadagskvöld jóla voru ekki höfð gestaboð, fólk undi við sitt, hver á sínu heimili. Víða var lesinn húslestur og sums staðar sungið fyrir og eftir lestur. Þá voru gefnar gjafir og mundu þær gjafir flestar þykja smáar nú. Ég man t.d. eftir því að aldamótajólin gaf ég móður minni sykurker og rjómakönnu úr glæru gleri, sem kostaðu 80 aura og hafði ég verið lengi að safna svo miklu fé saman. En þótt gjafirnar væru smáar var gleðin oft næg. Ekki mátti snerta spil á aðfangadagskvöld, það var lesið í góðum bókum, sungið og talað saman.
 Heimboð voru mikil jóladagana og var þá ein helsta skemmtun að spila á spil, og var þá einkun spilað púkk og alkort. Tafl var mikið um hönd haft, bæði manntöfl,  goði og kotra.
 Þá voru dansleikir milli jóla og nýárs, bæði „paraböll“ sem svo voru kölluð, herrarnir buðu þá dömunum. Aðrir dansleikir voru innan félaga, einkum Góðtemplarastúkunnar og var þá öllum félögum heimill aðgangur, varð þá oft ójöfn tala pilta og stúlkna og voru stúlkur þá ævinlega í meirihluta, urðu þá margar „að sitja eftir“ sem kallað var og þótti það óskemmtilegt hlutskipti, einkum ef það féll oft hlut sömu stúlku. Dansleikir voru þá ævinlega byrjaðir með „March“.

Á þessum aldamótajólum varð sá viðburður í skemmtanalífi Keflavíkur að sýnt var á leiksviði þáttur úr Manni og konu. Var það Kvöldvakan í Hlíð. Þórður Thoroddsen læknir setti þáttinn á svið og sá um æfingar. Þótti þetta hin prýðilegasta skemmtun. Þessi leiksýning var innan Góðtemplarastúkunnar og var ekki sýnd nema einu sinni, að mig minnir. Ég var svo lánsöm að vera boðin á þessa sýningu og þótti mér mikið til koma.
 Mun leiksýning þessi vera fyrsti vísir að því er síðar varð – að hinni vinsælu sögu „Maður og kona“ var breytt í leikrit.

Á gamlársdag, síðasta dag 19. aldar var viðbúnaður nokkur til almennrar skemmtunar í Keflavík. Um morguninn var hlaðinn gríðarstór köstur úr tjöruköggum og öðru timbri uppi við Nónvörðu, en þar átti að verða brenna og álfadans. Um klukkan fimm var kveikt í kestinum, var þá margt manna þar  samankomið, en enginn sást álfurinn.
 Leið nú örlítil stund, eldurinn læsti sig um tjörukaggana og logaði villt og vel. Þá sást hilla undir álfafólk milli klettanna suður og upp af Nónvörðunni, kom þar konungur og drottning ásamt fylgdarliði, gengu þau hægt og hátíðlega niður að brennunni og sungu. Varð nú eins og klettabeltið yrði allt með lífi, því hér og þar smeygðu sér álfar fram á milli klettanna, hoppuðu niður að brennunni, kveiktu í blysum sínum og gengu svo syngjandi inn í álfahópinn sem fyrir var.  Ég varð strax hugfangin af álfafólkinu og brennunni og fannst eins og ég væri gengin inn í ævintýri.

 Þegar álfarnir héldu á brott gengu þeir syngjandi upp í heiðina og hurfu þar fyrir klettabelti.
 Hafði þessi álfadans tekist prýðilega og hef ég aldrei síðan séð álfadans svo haglega og fagurlega fyrir  komið. Eftir þess góðu skemmtun hélt hver heim til sín.
 Síðar um kvöldið var skemmtun í Góðtemplarahúsinu, sem þá var eina samkomuhús þorpsins, það hús stóð til skamms tíma og var pakkhús Edinborgarverslunar sunnan megin við Hafnargötuna. Þessi skemmtun byrjaði með fróðlegum og skemmtilegum fyrirlestri um Keflavík á 19. öld, er Þórður Thoroddsen læknir flutti en söngflokkur Þorgeirs Pálssonar söng mörg lög.
 Að lokum steig unga fólkið dans fram undir morgun, en um það leyti er dansinn hófst fóru krakkar heim,  margir í fylgd með foreldrum sínum og svo var um mig. Þótti mér þetta hinn skemmtilegasti og merkasti dagur og var ánægð yfir öllu því er ég hafði séð og heyrt.
 Veðurblíða hafði verið um daginn og þótti það eitt á skorta um ánægju að tungl var ekki í fyllingu og því nokkuð jarðdimmt en þá voru engin götuljós.

Enn er ótalinn einn merkisviðburður ævi okkar Keflavíkurbarnanna um þessi aldamót. Þá sendi frú Ása Olavsen okkur jólatré í fyrsta sinn, lét hún eftir það halda árlega jólatrésskemmtun og bjóða öllum börnum í Keflavík til þeirrar hátíðar.
 Var það sá viðburður er við hlökkuðum mest til enda var allt gjört til þess að við nytum þeirrar hátíðar sem best. Þessi skemmtun var í fyrstu haldin í Góðtemplarahúsinu, sem áður er nefnt. Var hrifning okkar mikil og djúp er við komum inn í salinn á þessa fyrstu skemmtun og sáum stórt og fagurlega skreytt jólatré, ljósum prýtt í miðjum salnum.
 Sá ég þá jólatré í fyrsta sinn og þótti mikið til koma. Kvöldið leið í sælum draumi við dans og söng og er við héldum heim á miðnætti vorum við öll leyst út með gjöfum: Epli í poka og leikfang. Þessi jólatrésskemmtun sem Keflavíkur- og síðar Njarðvíkurbörn nutu í svo ríkum mæli í 20 ár, átti sína forsögu og kemur mér í hug að segja hana hér.

 Aðalverslun Keflavíkur og þar með Suðurnesja var Duusverslun, stýrði henni á þessu tímabili og lengi síðan, íslenskur maður Ólafur Sveinbjarnarson Olavsen, hann var bróðir frú Kristjönu Duus, er þá var ekkja eftir yngri Duus er svo var nefndur í daglegu tali, var hún eigandi verslunarinnar. Faðir þeirra systkina var Sveinbjörn Ólafsson er um skeið var kaupmaður í Keflavík, en hann var hálfbróðir Ásbjarnar Ólafssonar óðalsbónda í Njarðvík, er sú ætt alkunn.
  Ólafur Olavsen var búsettur í kaupmannahöfn en kom á sumrin upp til Íslands og bjó þá í Keflavík, hann var kvæntur danskri konu, Ásu systur Egils Jacobsens kaupmanns í Reykjavík.
 Sumarið 1900 var frá Ása hér uppi með manni sínum ásamt litlum dreng er þau áttu, það var Ingvar, síðar forstjóri Duusverslunar í Reykjavík. Þetta var fyrsta eða annað sumarið er frú Ása hafði komið til Íslands.
 Þetta sama sumar hafði Duusverslun keypt eignir og hús Fischersverslunar í Keflavík, var sú verslun í miðri Keflavík, stendur sjálft verslunar- og íbúðarhúsið enn þá og er nú hf. Keflavík þar til húsa.
 Um mitt sumar var flutt úr gömlu Duusbúðinni niður í Fischersbúð og um sama leyti var byrjað að flytja úr gamla íbúarhúsinu, er verið hafði kaupmannsíbúð verslunarinnar í 150 ár. Það hús stendur fyrir endanum á Duusgötu, en er nú ekki orðinn svipur hjá sjón, er það illa farið því húsið var vel byggt og fallegt.


 Þá er það einn góðviðrisdag í miðri viku að okkur krökkunum í Keflavík er boðið til veislu í hinum nýju húsakynnum, er Olavsenshjónin voru að flytja í. Það var hin unga danska frú Ása, sem bauð okkur öllum krökkunum sex til fjórtán ára að koma næsta sunnudag klukkan þrjú.
  Við stóðum undrandi og ætluðum varla að trúa því að við krakkarnir værum boðin í svo fínt hús, en það var ekki um að villast, við vorum boðin.
 Ég býst við að fátt hafi rúmast í höfðinu á okkur þessa daga sem eftir voru til sunnudagsins annað en heimboðið. Eftirvænting, tilhlökkun og kvíði um að við kynnum ekki að haga okkur sómasamlega, skiptust á í huga okkar þessa daga.
 Loksins kom sunnudagurinn. Við lögðum af stað þvegin og strokin og auðvitað í bestu fötunum sem til voru með margskonar fyrirsagnir um kurteisi og góða hegðun í veganesti.
 Þegar við komum niður að húsinu sáum við unga stúlku standa á forstofutröppunum, hún heilsaði okkur brosandi og leiddi okkur inn og upp forstofustigann, þar uppi stóð frú Ása Olavsen, heilsaði okkur hjartanlega og bauð okkur velkomin og þar með vorum við komin inn í húsið.
 Í stórri stofu var skeifuborð dúkað og hlaðið hinum girnilegstu kökum, var nú sest að borðum og borið fram súkkulaði, frúin okkar góða, sem á svipstundu hafði unnið hjörtu okkar, sá um að við nytum góðgjörðanna sem best, enda hurfu kökuhlaðarnir á borðunum fljótt og vel, en það gjörði ekkert til, nýjir hlaðar komu jafnóðum.

Þegar staðið var upp frá borðum sagði frú Ása að nú ættum við að dansa og skemmta okkur, var nú tekinn fram lírukassi og spiluð danslög og göngulög og nú máttum við dansa í gegnum stofurnar, út á ganginn og inn í stofurnar aftur, gleði okkar var ósegjanleg, þetta var eins og í ævintýri, við vorum í könungshöll og frú Ása var drottningin okkar góða.
 Þegar dansinn byrjaði hafði stórt fat, fullt af sykurkökum, verið sett í hvern einasta stofuglugga, var okkur sagt að borða þetta góðgæti eftir vild. Má nærri geta, hvort við höfum gleymt því boði.
 Þannig leið tíminn til klukkan sjö að kvöldi. Við stóðum ferðbúin í forstofunni.
 Um leið og frú Ása þrýsti hendur okkar innilega sagði hún: „Ég ætla að muna eftir ykkur á jólunum“.
 Við munum lítið hafa hugsað um hvað hún meinti með þessum orðum. En næstu jól færðu okkur svar. Við skildum þá að þá um sumarið hefur hún verið búin að ákveða að búa okkur þessa jólagleði.
Við vorum öll glöð og þakklát er við héldum heim þetta sunnudagskvöld.
 Ókunn kona, fögur álitum og rík af heimsins gæðum hafði glaðst með okkur og sýnt okkur kærleika.
  Minningin um hana er sveipuð sól og yl.

Upphaflega birt 21. desember 2021.