Í fyrri daga bjó að Eyri við Hafnaberg ungur og dugandi bóndi. Átti hann góða konu, unga og fríða sýnum, bóndadóttur austan úr Grímsnesi. Í þá tíð var grasnyt lítil orðin á Eyri, en sjósókn því meiri, því að útræði var afbragð, og sat bóndi því öllum stundum á sævartrjám. Var hin unga húsfreyja óvön slíkum búsháttum, og áður en langt leið, sóttu að henni mikil leiðindi. Varð bóndi því óglaður mjög af þessu, en fékk þó ekki neitt frekara að því gjört.
Nótt eina um haust dreymir húsfreyju, að til hennar kemur há og tíguleg kona og segir við hana: „Viltu gefa mér höfuðið af þeirri skepnu, sem eftir verður á morgun í skutnum hjá bónda þínum, þegar skipt hefur verið afla og tekið á köstum. Mun ég hirða höfuð þetta, sé það látið á naustavegginn, og launa þér með einhverju þótt síðar verði“. Að því búnu fannt húsfreyja kona þessi hverfa burt. Þessa sömu nótt rær bóndi í bíti með falli suður fyrir Hafnaberg og leggst í svonefndri Skjótastaðaholu. Beitir bóndi sig niður og dregur þar flakandi lúðu um fallskiptin, en rétt í því örvast svo fiskur hjá þeim við upptökuna, að ekki stendur á neinu nema grunnmáli og höndum háseta. Fengu þeir brátt góðan afla og nutu að því búna bæði straums og vinds heimleiðis. Þegar heim kom, var borinn upp afli, tekið á köstum og skipt í hluti. Gekk þá húsfreyja til varar og kom að máli við bónda sinn og sagði honum draum sinn. Sagði bóndi henni þá, að flyðra væri óskipt í skut skipsins, og skyldi hann að öllu leyti gjöra samkvæmt vilja hennar. Fór þannig allt eins og fyrr er sagt, og var höfuðið horfið morguninn eftir. Leið svo á vetur með góðum gæftum, því að ýmist var hæg háátt eða andvari af landsuðri með ládeyðu, og var bóndi bæði fisksæll og byrsæll.
En það er frá húsfreyju að segja, að leiðindi hennar jókust svo mjög, að hún tók að fara einförum. Svo var það í lok föstunnar, að húsfreyja fór um lægri dagana inn að Kalmannstjörn sér til léttis og hugarbótar. Dvaldist hún lengi og lagði seint af stað heimleiðis. Segir ekki af ferðum hennar, fyrr en hún kemur suður að svo nefndum Kirkjuhafnarhólum. En húsfreyja var hindruð og settist þar því um stund til að hvíla sig. Þegar hún stóð upp, sá hún allt í einu hólinn standa opinn. Sá húsfreyja þar inn í stóra og mikla hvelfingu.

Þar logaði eldur glatt í hlóðum og hékk pottur yfir hóbandi. Fyrir framan eldinn stóð há og tíguleg kona, sem hafði lítinn hnött undir handlegg sér en sprota í höndum. Varð húsfreyja hrædd við sýn þessa, og hugði að flýja burt sem fljótast. En þá brá hin ókunna kona sprotanum í áttina til hennar. Runnu á húsfreyju töfrar svo miklir, að hún gekk mót vilja sínum beint inn í hólinn til álfkonunnar. Sú tók til orða og mælti: „Vita skaltu það, að þú ert hingað komin af mínum völdum. Ég fékk hjá þér fiskinn, en hef hann að litlu einu goldið þér. En ég veit, að þú unir illa hjá bónda þínum hér við sjóinn. Ég mun því reyna að veita þér hjálp, þótt lítilfjörleg verði“.
Tók þá álfkonan smyrslabauk og smurði bæði augu húsfreyju og mælti: „Upp frá þessu skaltu öðrum augum líta og mæli ég svo um, að lán fylgi þér“. Lagði svo álfkonan hönd sína á höfuð húsfreyju og mælti fram vísu þessa:

Brimhljóð á köldu kveldi
kyrrir og svæfir bezt;
hlóðirnar hlaðnar eldi
huganum sýna flest,
glæður og glitruð bára
gylla muna og rann,
á gleymist sorgin sára,
sæstu við byggð og mann.

Að því búnu leiddi álfkonan húsfreyju út úr hólnum og brá sprota sínum. Brá þá svo einkennilega við, að töfrar allir og leiðsla hurfu jafnskjótt af húsfreyju, og var sem hún vaknaði af draumi. Þó mundi hún vel eftir öllu, sem fyrir hana bar og eins nam hún vísuna, er áður getur.
En nú var álfkonan horfin, og á hólnum sáust engin verksumerki; hann var eins og hann jafnan hafði verið fyrr.
En svo brá við, að húsfreyja varð önnur eftir atburð þennan, hún mátti aldrei af heimili sínu sjá, varð bæði vinnusöm og stjórnsöm, jók kyn sitt og lifði farsællega með manni sínum til æviloka.

-Rauðskinna hin nýrri.