Fyrir sunnan Kalmannstjörn eru grasi vaxnir hólar við sjóinn og ótal rústir og garðbrot; eru þetta leifar af gamalli bygð. Þar var Kirkjuhöfn, og er sagt, að þar hafi verið kirkjustaður til forna og mikið útræði. Einnig var þar býli, er Sandhöfn nefndist.
Nokkru sunnar er nes eitt, er gengur til útnorðurs í sjó fram, fyrir norðan Hafnaberg. Á nesi þessu var býli það, er Eyri hét, og var þar byggð til ársins 1776; fylgdi því töluverð grasnyt og útræði afbragðs gott. Fátt er mönnum kunnugt um fyrri búendur á Eyri, nema Grím þann, er Hallgrímur Pétursson orti um vísuna:
„Grímur á Eyri gerir sem fleiri,
gengur hann út“, o.s.frv.
Var síra Hallgrímur þá prestur á Hvalsnesi. Síðastur bóndi á Eyri hét Ormur Þórarinsson, en kona hans Gunnvör Árnadóttir. Bróðir átti Ormur, er Þórarinn hét og var þá bóndi að Kalmannstjörn. Stundaði Ormur bóndi mest sjómennsku, því að grasnyt var um þær mundir orðin lítil á Eyri.
Sagt er, að haust eitt hafi komið maður nokkur til Orms bónda, er Ari hét. Var hann skipasmiður góður, en dulur í skapi og hjátrúarfullur mjög. Vann hann að skipasmíði hjá bónda og lagfærði ýmislegt, bæði utan húss og innan. Var Ari á Eyri um haustið og fram yfir hátíðir. En eftir nýárið hafði Ari orð á því við Orm bónda, að verið gæti að hann yrði háseti hjá honum um vetrarvertíðina, ef vel semdist með þeim. En svo hagaði til á Eyri, að bærinn stóð alveg fram við sjóinn; var aðeins malarkampur á milli bæjar og lendingar, en á honum stóðu útihús. Sundið var stutt, en í því miðju var sker eitt stjórnborðsmegin, er inn var róið; var það kallað Bænasker, því lesið var ætíð, er farið var fram hjá því á morgnana.
Á þrettánda dags kvöld jóla var veður gott, logn, tunglskin og frost mikið. Fór þá stúlka ein um kvöldið út í fiskihjall að ná í lýsi til ljósmetis. En er hún kemur fram að húsunum, verður henni litið niður að sjónum. Sér hún þá, sér til mikillar undrunar, hvar tíæringur kemur inn sundið og er óðara kominn inn í miðja vör. Það þykir stúlkunni þó kynlegast, að hún heyrir ekkert hljóð í skelliskautunum, og sýndist henni hásetar þó róa knálega, en að sama skapi hengur illa hjá þeim, er inn í vörina er komið. En formaður situr aftur á bitanum og hamlar duglega og kveður vísu við raust, og var efnið svona:
Einn í hóp, einn í hóp
oss skortir enn;
engin óp, engin óp
eiga við menn.
Hleypur nú stúlkan inn í bæ og segir tíðindin. Fer Ormur samstundis út með húskarla sína, en er þeir koma að útihúsunum frammi á malarkampinum, sjá þeir ekkert skip í vörinni, en kjölfarið sjá þeir fram eftir sundinu í logninu. Fara þeir þá til bæjar, og varð mönnum tíðrætt um atburð þennan, og lögðu ýmsir misjafnt til um merkingu hans.
Nokkrum dögum fyrir kyndilmessu, gerði útsynning og brim. Gekk Ari þá morgun einn með sjó fram suður að berginu og leit eftir reka. Fann hann þá vogmey í flæðarmálinu, feikistóra og silfurfagra sýnum. Bregður Ara nú mjög við þetta, því að það er gömul trú á Suðurnesjum, að slíkt vogrek boði annaðhvort hvalreka eða skipstapa.
Kemur Ara þá þegar í hug sýn stúlkunnar á þrettándanum, og finnst honum nú flest bera að sama brunni um forlög Orms bónda og þeirra háseta hans. Tekur hann nú vogmeyna og urðar hana í skyndi uppi í malarkampinum og nefnir ekki atburð þennan við nokkurn mann.
Morguninn eftir klæðist Ari snemma og skreppur inn til Kalmannstjarnar; er hann þar allan daginn og kemur ekki út á Eyri, fyrr en komið er fram á vöku. Segir hann þá Ormi, að Þórarinn, bróðir hans, hafi lagt svo fast að sér að róa á skipi sínu, að hann kveðst loks hafa látið undan þrábeiðni hans og ráðið sig hjá honum um vertíðina. Lagði Ormur fátt til þessra mála, því að kært var með þeim bræðrum, þótti þó miður að missa Ara vegna landverka hans. Fer Ari að því búnu til Þórarins á Kalmannstjörn; takast nú vertíðarróðrar og er allt tíðindalaust.
Vertíð þessa voru gæftir fremur stirðar, er færafiskur var mikill fram undan Kistubergi svo nefndu.
Þá er liðið er nokkuð á vertíð, dreymir konu eina á Kalmannstjörn, að til hennar kemur maður einn og segir við hana: „Ærnir eru ávextir Ægis, en ægilegri tök hans“.
Kveður hann síðan vísu þessa:
Bárafleygur beztur er,
bylgur sævar stillir;
blíðast inn við Bænasker
brimið ströndu hyllir.
Sagði kona þessi Þórarni bónda drauminn, en hann lagði eigi trúnað á. Nokkrum dögum síðar rær Þórarinn suður fyrir Hafnaberg; var þá útsynningur, en lygnt veður og nokkur hroði í sjó. Sat hann stutta sund á færum, því að vind herti og brimaði skjótt. Þá er Þórarinn var kominn inn undir Eyri, var brim töluvert, en samt hélt Þórarinn inn til Kalmannstjarnar. En er að sundinu kom, var þar veltubrim; lagðist hann til laga, en þó fór svo, að skip hans fórst á sundinu. Sagt var, að fært hafi verið að lenda á Eyri, en Þórarinn myndi ekki hafa skeytt því og talið fært að lenda heima hjá sér; en aðrir sögðu, að bárufleygur hans hefði verið í ólagi, er á sundið kom.
Í vertíðarlok rak reyðarfisk mikinn hjá svonefndum Klaufum fyrir sunnan Eyri, nálægt þeim stað, er Ari fann vogmeyna. Var hvalurinn öllum auðfúsugestur. En eftir lát Þórarins fluttist Ormur til Kalmannstjarnar á eign bróður síns, og hefur eigi byggð verið síðan á Eyri.
-Rauðskinna hin nýrri,
frásögn Guðrúnar Guðmundsdóttur frá Kotvogi.