Votlendi/Wetlands er heiti á myndaseríu sem ég er að vinna að þessi misserin. Fólki finnst votlendi yfirleitt fráhrindandi svæði og sér fyrir sér fúafen og drulludý sem best er að forðast, annars blotnar maður bara í fæturna. Þessum svæðum er því almennt lítill gaumur gefinn, þangað fara fáir og því eru þau tilvalin til að njóta kyrrðar, næðis og einveru í náttúrunni. Mér er ekki kunnugt um að votlendissvæðin hafi verið ljósmynduð neitt sérstaklega en þau búa yfir ákveðinni fegurð sem sést best frá sjónarhorni vængjaðra íbúa þeirra. Þau eru mikilvæg búsvæði fyrir fugla og aðrar lífverur og hafa þýðingarmikið hlutverk í vistkerfinu.
Undanfarna áratugi hefur verið gengið mikið á votlendi landsins með framræslu sem styrkt var með opinberum fjárframlögum. Mýrar voru framræstar í stórum stíl til að gera tún og beitarland, auk þess sem framkvæmdir við virkjanir, vegagerð, aukið þéttbýli og aðrar athafnir mannsins hafa tekið sinn toll. Afleiðingin er sú að lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Einungis 3% votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og 18% votlendis á Vesturlandi, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Votlendissjóðs. Umræðan um endurheimt votlendis hefur fengið aukið vægi á síðustu árum enda orðið almennt viðurkennt að endurheimtin stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni, bætir fuglalíf og vatnsbúskap í veiðiám auk þess að minnka losun koltvísýrings.
Hér að neðan eru nokkrar myndir úr seríunni en fleiri myndir má sjá í þessu galleríi. Fleiri myndir bætast við eftir því sem verkefninu miðar áfram.