Þegar þunnfljótandi hraun rennur frá eldgíg myndast gjarnan í því farvegir, einskonar hraunár. Yfirborð þessara farvega storknar og hraunið fer þá að renna í göngum neðanjarðar undir storkinni hraunhellunni. Kvikan getur runnið langar leiðir eftir þessum göngum. Undir lok gossins, þegar kvikan hættir að streyma frá eldstöðinni, tæmist stundum hraunrásin ef hún hallar undan landi. Myndast þá holrúm eða göng ef yfirborð rásarinnar er nógu sterkt. Ef ekki, hrynur þak rásarinnar niður í hana og hrauntröð myndast sem opin rás, einskonar skurður frá gígnum. Haldist hins vegar rásin heil getur hún opnast við hrun á einum eða fleiri stöðum (niðurföll) þannig að fært verður inn í rásina. Það er þó ekki gerlegt fyrr en jafnvel nokkrum árum eftir gos þegar hraunið hefur fullstorknað og losað út allan hita og gas. Ekki er loku fyrir það skotið að nýir og stórbrotnir hraunrásarhellar myndist í jarðeldunum sem nú standa yfir í Geldingadölum en hraunið rennur nú að mestu neðanjarðar og hefur bunkast upp í allt að 100 metra þar sem það er þykkast.
Mörgum stendur stuggur af hraunhellunum. Við erum alin upp við sögur af alls kyns illþýði sem á sér bólfestu í hellunum, þar búa Grýla, tröll eða óvinveittir útilegumenn. Kvikmyndasagan segir okkur að hellar séu ekki góðir staðir, þar búi alls kyns óvættir og hætti maður sér inn í helli er líklegt að maður hafi ratað í veruleg vandræði. Af þeim sökum eru hellar í hugum margra dimmir, kaldir og fráhrindandi staðir.
Íslensku hraunflákarnir búa hins vegar yfir undursamlegum leyndardómum sem finna má í hraunrásarhellunum, undurfagra veröld fulla af djásnum sem hraunelfan skapaði er hún rann glóandi um göngin undir niðri. Þar er mikið fjölbreytni í alls kyns myndunum sem vekja aðdáun og undrun.
Í hraunhellum er einhver viðkvæmasta náttúra sem fyrirfinnst og eitt óvarlegt skref getur auðveldlega eyðilagt mörg þúsund ára djásn sem er þá að eilífu glatað. Þessa náttúru ber því skilyrðistlaust að umgangast af mikilli nærgæti og virðingu. Því miður er það svo að umgengni í hraunhellum Íslands hefur víðast hvar alls ekki verið til fyrirmyndar.
Byggt á texta úr ljósmyndabókinni Reykjanesskagi – Náttúra og undur sem kom út 2018.
Uppfært 21.6.2021.
Upphaflega birt 5.apríl 2021.
Að ofan: Þegar hraun storknar til fulls, 2-3 árum eftir gos og hersla verður í berginu kreistist út úr því þunn hraunbráð sem dropar niður úr loftinu. Við það hlaðast upp dropsteinar á gólfi því dropinn storknar fljótt eftir að hann lendir. Ofan við dropsteina má yfirleitt finna hraunstrá í loftinu. Þessi fyrirbæri eru mjög viðkvæm og brotna við minnstu snertingu. Því ber að umgagast slík djásn mjög varlega og af virðingu.
Mikil litadýrð einkennir marga íslenska hraunrásarhella.