Gosdyngjurnar á Reykjanesskaga: Eru risarnir að vakna?

posted in: Reykjanesskagi | 0

Eftir árþúsunda svefn gosdyngjanna á Reykjanesskaga er ný að fæðast í Geldingadal.

Ný gosdyngja, sú fyrsta í sjö þúsund ár, virðist vera að fæðast á Reykjanesskaga samkvæmt því sem jarðvísindamenn telja.  Efnasamsetning kvikunnar sem kemur upp í Geldingadal gefur til kynna að hún komi djúpt úr iðrum jarðar en einmitt það einkennir dyngjugos. Þetta eru afar merkilegt tíðindi, svo ekki sé meira sagt. Reykjanesskaginn hefur að geyma nokkrar myndarlegar gosdyngjur en þær hafa ekki verið virkar í árþúsundir og því kemur gosið í Geldingadal á óvart. Á skaganum eru taldar 25 gosdyngjur og í þessum pistli er fjallað um þær helstu.

Gosdyngjurnar, hinir fornu risar eldvirkninnar á Reykjanesskaga, voru upp á sitt besta um það leyti sem ísaldarjöklarnir voru að sleppa hrömmum sínum af landinu fyrir um 10-12 þúsund árum. Dyngjunar mótuðu landslag skagans fyrstu árþúsundin eftir það en fyrir um það bil 6-7 þúsund árum breyttist  gosvirknin þegar sprungugosin tóku við og dyngjurnar lögðust í dvala. Þær eru samt sem áður

innan hins virka gosbeltis og í þeim skilningi ekki útkulnaðar eins og hinar fornu megineldstöðvar sem rekið hefur út úr gosbeltunum í milljóna ára landreki. Eðlismunur á þessum tveimur gerðum eldstöðva er líka mikill. Það sem einkennir dyngjugosin er að kvikan kemur beina leið upp úr möttlinum en safnast ekki fyrst í kvikuhólfi eins og í öðrum eldstöðvum.

Í dyngjugosum kemur kvikan beint upp af miklu dýpi. Í Geldingadal er talið að það sé 17-20 kílómetrar. Kvikan er þá úr basalti. Í annars konar eldstöðvum safnast kvikan fyrst fyrir í kvikuþró áður en hún finnur sér leið upp á yfirborð. Því lengur sem hún mallar í kvikuhólfinu, því þróari verður hún og kemur þá upp t.d. sem líparít í megineldstöðvum eða súrt berg.

Tvær stærstu dyngjurnar á vestanverðum skaganum eru Suðurnesjadyngjurnar Þráinsskjöldur og Sandfellshæð.  Frá þeim rann gríðarlegt hraunmagn enda standa dyngjugosin oftast yfir í langan tíma. Á Hawaii stóð eitt slíkt yfir nánast samfleytt frá árinu 1983 þar til í desember 2018 þegar gosinu var formlega lýst lokið eftir að eldstöðin hafði ekki verið gosvirk í 90 daga.  Kīlauea dyngjan á sér samt mun lengri sögu, talin vera hátt í 300 þúsund ára gömul og gosið margoft. Eldstöðvar af þessari gerð taka sér stundum pásu í einhvern tíma og þegar gos hefst á að nýju verður gjarnan tilfærsla á gosopinu. Þar sem Geldingardalur er ekki svo ýkja

langt frá hinum fornu gosgígum Þráinsskjaldar mætti kannski gera sér í hugarlund að hann væri að vakna af löngum dvala. Það er þó hæpið þar sem langt er um liðið síðan gaus síðast á þessum slóðum og ekki um sömu goshrinu að ræða. Allavega er kvikan sem kemur upp í Geldingadal að efnissamsetningu mjög svipuð að gerð og þau hraun sem Þráinsskjöldur og Sandfell framleiddu (Ólivínþóleiít). Eldstöðvar af dyngjugerð geta framleitt gríðarlegt hraunmagn og má í því sambandi nefna að árið 2016 þakti hraunið úr yfirstandandi goshrinu Kīlauea 144 ferkílómetra lands, sem er svipað og hraunin úr Sandfellshæð þekja.

Þráinsskjöldur og Sandfell:
Á jarðfræðikorti frá Isor hér að neðan sést vel hversu víðáttumikil hraunin eru sem runnið hafa  frá þessum tveimur dyngjum. Kortið sýnir þó eingöngu sjáanlegt hraun á yfirborði en yngri hraun hafa runnið yfir þau gömlu og fyllt upp dali og dældir á milli dyngjanna.

Á hreyfimyndinni hér að neðan sjást helstu dyngjur Reykjanesskagans og hvernig þær mótuðu útlínur hans fyrir um 10-12 þúsund árum.

Þráinsskjöldur:

Hraunskjöldur er annað orð yfir gosdyngju eða dyngjulöguð fjöll (lava shield/shield volcano). Þannig hefur síðari hluti nafnsins komið til en ekki er vitað við hvaða Þráinn dyngjan er kennd.  Hraunbungan er áberandi í landslaginu norðaustur af Fagradalsfjalli og blasir við þegar ekið er eftir Reykjanesbrautinni. Henni hallar niður til Vatnsleysustrandar en byggðin þar stendur öll á hraunum úr þessari mikilvirku eldstöð, Þráinsskjaldarhrauni.

Það hefur runnið þegar sjávarstaða var lægri og er hraunbrúnin nú undir sjávarmáli nokkuð utan við ströndina. Annað sem einkennir þetta landslag eru hinar miklu gjár og misgengi sem rista það að endilöngu til vitnis um toghreyfingar í jarðskorpunni. Myndin hér að neðan er tekin yfir Snorrastaðatjarnir til suðausturs yfir  hraunbunguna. Á henni má sjá hvernig gjárnar skera hraunið.

Sandfellshæð:

Á myndinni hér að ofan er horft yfir Sandfellshæð til norðvesturs. Reykjanesbær í fjarska. Sandfellshæð er mesti hraunskjöldurinn á utanverðum Reykjanesskaga. Nær Hafnabergi eru tvö eldvörp sem tilheyra henni, Berghóll og Langhóll. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar að þau séu eins að gerð og Sandfellshæð, þetta  þrennt hafi líklega orðið til í einni
goshrinu, sem vafalaust hafi verið mjög

löng og tilfærsla orðið á gosopi. Gígur Sandfellshæðar er um 450 metrar í þvermál og 20 metra djúpur. Hraunin frá henni ná frá Ósum til sjávar í og vestan við Grindavík og þekja um 143 ferkílómetra. Yngri hraun úr Eldvörpum hafa runnið upp að henni sunnan frá. Á myndinni hér að neðan er horft yfir gíg Sandfellshæðar til austurs. Þorbjarnarfell og Grindavík í fjarska.

Háleyjarbunga:

Algengasta tegund hrauns úr dyngjum er ólivínþóleiít, sem er frumstæð basaltgerð. Nokkrar af smærri dyngjunum eru úr enn frumstæðari bergtegund sem nefnist pikrít. Ein þeirra er Háleyjarbunga á Reykjanesi, um 9 þúsund ára gömul.  Á myndinni að neðan er horft í austurátt yfir gosgíg hennar.

Nokkru vestar er svo hraunskjöldurinn Skálafell, sjá mynd að neðan. Hann sést sem áberandi bunga í landslaginu sunnan við Gunnuhver.  Skálafell er eitthvað yngri en Háleyjarbunga sem sést á þvi að hraun frá Skálfelli hafa runnið yfir hraun hennar.

Hrútagjárdyngja:

Hrútagjárdyngja er ein forvitnilegasta eldstöðin á Reykjanesskga en hún er nyrst í Móhálsadal og tilheyrir Krýsuvíkur-eldstöðvarkerfinu. Hrútagjárdyngja var virk fyrir um 8 þúsund árum, hraun frá henni runnu til norðurs og mynduðu ströndina milli Vatnsleysustrandar og Straumsvíkur. Eftir að dyngjan var hætt að gjósa varð mikil kvikusöfnun undir henni án þess að kvikan næði að brjótast upp á yfirborðið.

Við það myndaðist gríðarlegur þrýstingur með landrisi sem talið er hafa náð allt að 30 metrum. Að lokum rann kvikan undan dyngjunni niður í sprungukerfið til suðurs og risflákinn seig. Svo mikið hafði teygst og togast á jarðskorpunni að umhverfis dyngjuna myndaðist feiknamikil gjá sem kallast Hrútagjá.  Er hún öll hin stórbrotnasta.  Á utanverðum barmi gjárinnar má sjá hvar slétt helluhraun hefur nánast risið upp á endann við landrisið.

Á efri myndinni er horft yfir norðvesturhorn Hrútagjárdyngju og gjárinnar sem hún er kennd við. Í fjarska sést til Keilis og Trölladyngju. Á neðri myndinni er horft yfir gígskál dyngjunnar, kaffærða af yngri hraunum. Höfuðborgarssvæðið í fjarska.

26. mars 2021.
Ellert Grétarsson.