Ég hef áður komið inn á það sem ég kalla „fullvissu augnabliksins“. Það er þegar maður smellir af og veit um leið að rétta augnablikinu var náð. Þetta „Yessss, ég náði því!“ Ef maður er heppinn getur maður verið á réttum stað á réttum tíma og augnablikið kemur upp í hendurnar á manni. En sjaldnast er það nú þannig. Oftast nær kostar þetta mikla yfirlegu og gríðarlega þolinmæði. Maður þarf sumsé að bíða eftir rétta augnablikinu. Og á bak við myndina geta verið ótalmörg misheppnuð skot.
Einu sinni fór ég í dýragarðinn í Köben. Mér finnst ísbirnir afar heillandi og tignarlegar skepnur og langaði að eiga góða mynd af einum. Fór að ísbjarnagryfjunni og byrjaði að mynda. Þar voru ísbjarnarhjón að svamla um og leika sér. Gaman var að fylgjast með þeim og ég myndaði í gríð og erg. En sama hversu margar myndir ég tók, aldrei kom þetta „Yessss, ég náði því!“ Kannski hafði það eitthvað að segja að skepnurnar voru ekki í sínu náttúrulega umhverfi.
Áfram hélt ég að mynda og tíminn leið. En fullvissa augnabliksins kom ekki. Þetta voru svo sem allt ágætar myndir en málið er að það voru hundruðir annarra gesta í dýragarðinum þennan dag að taka nákvæmlega svona myndir. Þetta voru bara svona venjulegar dýragarðsmyndir. Ég var að bíða eftir einhverju öðru. Augnablikinu sem gerði eina myndina öðruvísi en allar hinar. Augnablikinu sem gæfi myndinni meiri kraft og dýpt. Ég var orðinn dálítið pirraður en ákvað að gefast ekki upp. Loksins kom það. Eftir að hafa svamlað um dágóða stund í lauginni kom karldýrið upp úr. Þar sem hann stendur á bakkanum og byrjar að hrista bleytuna úr feldinum dettur inn sólarglenna beint á dýrið og ég notaði tækifærið. Yess, ég náði því!
Gefðu þér tíma og ekki hætta fyrr en þú veist að þú hefur náð því sem þú vildir. Það getur kostað mikla þolinmæði. Það gæti líka verið næsta skot eða þarnæsta. Það getur jafnvel þýtt að þú þurfir að koma aftur. Eða jafnvel að ísbjörninn sé eina dýrið sem þú ljósmyndar í dýragarðinum daginn sem þú ferð þangað. Ég reyndar náði að taka nokkrar myndir af fílunum og flamingóunum líka. En það var ekkert varið í þær. Og mér var nokk sama – ég náði því sem ég sóttist eftir.
Leave a Reply