Landslagsljósmyndun nýrra tíma – hvar erum við stödd?

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Hvað ætlarðu að gera við allar þessar myndir fyrst þú ert ekki lengur á Facebook og Instagram?

Þessa spurningu fékk ég í sumar frá góðum vini mínum þar sem ég stóð í fallegri vík við Lagarfljótið og tók myndir í gríð og erg. Ég hafði þá ekkert verið á Facebook í fimm mánuði og fyrir löngu búinn að eyða Instagram aðganginum mínum. Ástæðuna útskýri ég á eftir en ég hef verið svolítið hugsi yfir þessari spurningu. Er það virkilega svo að ljósmyndun í dag snýst um samfélagsmiðla eingöngu? Sumsé –  að ef þú ert ekki að deila myndum á samfélagsmiðlum  hafi ljósmyndunin engan tilgang?
Er fólk virkilega hætt að stunda ljósmyndun sjálfu sér til ánægju og yndisauka heldur eingöngu fyrir samfélagsmiðla? Snýst þetta bara um að fá sem flest like og fylgjendur?

Hvert erum við þá komin?

Stærri myndir – minni miðill

Ég tel að blómaskeið stafrænnar ljósmyndunar hafi verið  fyrir 12-14 árum síðan,  áður en samfélagsmiðlar og snjallsímar urðu ráðandi. Á netinu voru vefsíður og samfélög  þar sem fólk setti inn ljósmyndir, spjallaði, skiptist á góðum ráðum og tæknilegum upplýsingum og svo framvegis. Þetta voru einskonar ljósmyndaklúbbar á netinu.  Ein íslensk síða, ljósmyndakeppni.is, var nokkuð vinsæl á þessum tíma en þar voru reglulega haldnar þemakeppnir og verðlaun í boði. Á þessum árum voru allir að skoða ljósmyndir á tölvuskjám þar sem þær nutu sín í stærðinni. Núna eru hins vegar langflestir að skoða myndir á símaskjám og Facebook og Instagram hafa tekið við. Það er svolítið öfugsnúið að á meðan pixlafjöldi myndavéla hefur margfaldast hefur miðillinn minnkað.  Í dag ertu kannski að vinna mynd sem er svo stór í pixlum að hægt væri að prenta hana í þokkalegum gæðum á heilan stofuvegg. Langflestir sjá myndina hins vegar á pínulitlum símaskjá þar sem hún nýtur sín engan veginn miðað við það sem hún gerir á tölvuskjá.  Það finnst mér svolítið dapurlegt.

Instagram er drasl

Þá komum við að því af hverju ég eyddi Instagram reikningnum mínum. Ástæðan er einfaldlega sú að Instagram er það allra leiðinlegasta platform sem ég hef komist í kynni við. Það er ónothæft til að miðla landslagsljósmyndum, eða var það að minnsta kosti þegar ég reyndi að nota það.  Í fyrsta lagi er það fyrst og fremst hannað fyrir síma. Fínt fyrir tækifærismyndir af því sem þú ert að borða á veitingahúsinu og sjálfumyndir en glatað að öðru leiti. Í fyrstu varð maður að vinna myndina í tölvunni og færa hana síðan yfir á símann til að geta sett hana inn á Instagram. Síðar kom viðmót sem hægt var að nota til að setja myndina inn beint frá tölvunni . Það var hins vegar mjög óþjált í notkun, myndirnar pínulitlar og ef maður skar þær ekki í hárrétta pixlastærð klipptist af þeim. Þær urðu helst að vera ferkantaðar sem hentar engan veginn landslagsformatinu. Þannig að fljótlega gafst ég upp á að nota þetta drasl. Veit ekki hvort það hafi skánað eitthvað síðan en ég myndi frekar mæla með 500px, Behance, Flickr eða álíka vefsíðum til að deila/miðla ljósmyndum.

Ofgnóttin

Eitt af því sem þessi þróun snjallsíma og samfélagsmiðla hefur leitt af sér er gríðarleg ofgnótt ljósmynda. Allir eru að taka myndir allstaðar og pósta þeim í milljónatali dag hvern. Hátt í 100 milljón myndum er póstað daglega á Instagram og meira inn 50 billjón myndum hefur verið póstað þar frá upphafi. Þá erum við tala um Instagram eingöngu. Það er því fátt orðið eftir sem ekki hefur verið ljósmyndað áður. Gríðarlegt magn ljósmynda af vinsælum ferðamannastöðum streymir inn á samfélagsmiðla eins og Instagram og Facebook. Og þú ert búinn að sjá þetta allt saman áður. Hvað hefurðu til dæmis séð margar myndir af Stuðlagili?  Eldgos braust út í Geldingadölum og örfáum dögum síðar varstu búinn að sjá tugþúsundir mynda frá þessu eldgosi. Eftir hálfan mánuð var maður orðinn hundleiður á þessum gosmyndum. Hvað þá eftir fimm mánuði.

Meðalmennskan

Fyrir nokkru var ég að vinna heima og langaði að hlusta á einhverja tónlist á meðan. Fór á Spotify og fann lagalista með öllu því helsta sem er efst á baugi í kántrí-tónlistinni í dag. Þegar ég hafði heyrt nokkur lög fór ég að hugsa:  Bíddu… er ég alltaf að hlusta á sama lagið eða hvað?
Þetta hljómaði nefnilega allt mjög svipað. Það var eins og sama manneskjan hefði samið og útsett öll lögin. Þarna er búið að finna einhverja formúlu sem fjöldanum líkar og er líkleg til vinsælda – fær mestu hlustunina. Og þá þykir bara best að halda sig við það. Mér finnst landslagsljósmyndunin í dag vera á svipuðum stað. Ekkert nýtt að frétta. Allt mjög einsleitt, sömu myndirnar af sömu stöðunum, sömu sjónarhornin aftur og aftur. Engin frumlegheit – helst að pósta bara því sem fær flest like.
Það er ákaflega skemmtilegt að sjá eitthvað skapandi og frumlegt í ljósmynduninni, nýja nálgun, nýjar hugmyndir og allskonar tilraunastarfsemi. En því miður virðist það oft verða undir allri hrúgunni.
Vissulega eru samfélagsmiðlar ekki slæmir, ég er alls ekki að segja það. Þeir hafa t.d. haft í för með sér að fólk hefur nú miklu meiri möguleika en áður til að koma sér og verkum sínum á framfæri. Það er er auðvitað hið besta mál. En að fá síðan eitthvað fyrir verk sín er svo annað mál. Þá komum við að virðinu.  

Af hverju á sköpun að vera ókeypis?

Tökum aftur Spotify sem dæmi. Tónlistarmaðurinn fær örfá cent fyrir hverja spilun á því sem hann hefur lagt mikla vinnu í að skapa. Örfá cent. Hann þarf að fá gríðarlega mikla spilun til að hafa eitthvað af viti upp úr krafsinu. Eigandi Spotify mokar hins vegar inn peningum og lifir í vellystingum praktuglega. Svipaða sögu er að segja af myndabönkunum sem eru til í að selja myndinar þínar. Þú færð smáaura, seljandinn hirðir rest. Þannig er þetta orðið, því miður. Sá sem skapar og leggur á sig allt erfiðið fær skít og kanil en aðrir græða hins vegar á því og vita að svona verður þetta meðan fólk hefur þörf fyrir að skapa. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef aldrei sett myndirnar mínar inn hjá slíkum miðlurum. Ég ber einfaldlega meiri virðingu fyrir verkum mínum en það. Talandi um það, mér skilst að miðlarar eins og Getty´s og fleiri vilji helst ekki fá fleiri landslagsmyndir. Ofgnóttin er orðin slík.

Ljósmyndun og myndgerð er ekki sami hluturinn

Hefurðu pælt því hvað það er mikið feik í landslagsmyndunum sem þú skoðar? Alltof oft sér maður myndir sem búið er að „fótasjoppa“  í drasl t.d. með yfirgengilegri litamettun og allskonar fiffi. Ekki misskilja mig, það er ekkert að því að vinna myndir – það er reyndar hluti af ferlinu og hefur alltaf verið. Áður en stafræna tæknin kom unnum við myndirnar í myrkrakompunni. Pressuðum filmur og undirlýstum eða yfirlýstum eftir því sem við átti undir ljósinu á stækkaranum. Gáfum t.d. himninum extra lýsingu til að fá meiri contrast og teikningu í skýin. Forrit eins og Photoshop og Lightroom leystu myrkrakompuna af hólmi með tilkomu stafrænu tækninnar. Það er ekkert að því að leiðrétta liti, birtuskil, mýkja skugga eða laga skurð. Það er óaðskiljanlegur hluti af ferlinu, tala nú ekki um þegar tekið er í RAW/DNG skráarsniðinu. Þá þarf að framkalla myndina stafrænt.
En núna erum við hins vegar komin á þann stað að við verðum að fara aðskilja þessa tvo þætti, ljósmyndun annarsvegar og hinsvegar það sem við getum kallað myndgerð. Hvenær ljósmyndunni sleppir og myndgerðin tekur við, þ.e.a.s þegar við erum hreinlega farin að BÚA TIL myndir.
Ekki þarf að elta birtuna lengur vegna þess að gervigreindin býr hana til. Í nýjustu útgáfu Photoshop er hægt með einum músarsmelli að breyta grámuskulegri og flatri ljósmynd tekinni á rigningardegi, í geggjaða sólsetursmynd – bara si sona. Þá er verið að búa til mynd, sem á ekkert skylt við ljósmyndun og myndvinnslu í hefðbundum skilningi. Nýjustu forritin gera þetta svo vel að afar erfitt er orðið að greina hvað er feik og hvað er raunverulegt. Þess vegna þarf að skipta þessu upp í tvær greinar – ljósmyndun annars vegar og myndgerð hinsvegar og skilgreina betur mörkin þar á milli. Ef það verður ekki gert er hefðbundin landslagsljósmyndun búin að vera.

Frelsið að vera maður sjálfur

Þetta var bara svona hugleiðing um ljósmyndun nútímans og ég vona að ég hljómi ekki eins og gamall, bitur kall sem á erfitt með að sætta sig við breytingar. Ég er bara að segja að það er ekkert sem segir að þú þurfir að elta trendið. Ef maður er ekki af Instagram-kynslóðinni og finnur sig ekki þar þýðir það ekki að maður sé úr leik. Það góða við þetta er að við getum staðsett okkur hvar sem við viljum í því sem við erum og viljum gera og verið sjálfum okkur næg og trú án þess að keppast við að fá læk, fylgjendur og velþóknum annarra. Það er nefnilega hægt að stunda ljósmyndum sjálfum sér til ánægðu og yndisauka, óháð þessu öllu. Það er frelsi. Hvort sem maður vill halda sig við filmurnar og gamla handverkið í myrkrakompunni eða eitthvað annað. Gefðu sjálfum þér alltaf frelsi til að skapa það sem þú vilt með þeim aðferðum og nálgun sem henta þér. Það er mest gefandi. Því þegar maður er ekki of upptekinn af trendinu getur skapast rými fyrir nýjar hugmyndir sem leiða mann á nýjar og spennandi slóðir. Vertu þú sjálfur/sjálf í því sem þú ert að gera. Ef þig langar ekkert til að ljósmynda í mannmergðinni í Stuðlagili eða Geldingadölum er það bara allt í lagi. Það er ekkert sem segir að þú þurfir að gera það.

Upphaflega birt 20.08.2021

Ellert Grétarsson