Undir yfirborðinu – Viðtal

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Eftirfarandi viðtal birtist í tímaritinu Í boði náttúrunnar í vorútgáfu þess 2019 og birtist hér í styttri útgáfu:

Ellert Grétarsson er mörgum að góðu kunnur fyrir ægifagrar myndir af Reykjanesskaganum en hann notar myndavélina í þágu náttúruverndar. Eftir að honum bauðst að fara í hellaferð fyrir nokkrum árum varð hann afar snortinn af þeirri undraveröld sem þar er að finna neðanjarðar og hóf að mynda hraunhella. Ellert segir hellaljósmyndun svo skemmtilega því ekki sé unnið með ljós heldur myrkur.

Hvenær og hvernig hófst áhugi þinn á ljósmyndun og hvernig hefur hann þróast?

„Mjög snemma á lífsleiðinni fékk ég áhiga á að taka myndir. Ég eignaðist fyrstu myndavélina fyrir rúmum 40 árum þegar ég sem stráklingur var sendur í sveit norður í Kelduhverfi og pabbi sendi mér Kodak Instamatic í sveitina. Ég hef meira eða minna verið með myndavélar í höndunum síðan en auðvitað mismikið. Það hafa komið kaflar þar sem ég hef ekkert sinnst þessu en alltaf blundar þetta í manni og þá hef ég tekið upp þráðinn að nýju. Seinna fór ég að starfa sem blaðamaður og ljósmyndari sen sagði alfarið skilið við þá starfsgrein árið 2010 og sneri mér að náttúruljósmyndun. Ég hef lengi verið mikill náttúruunnandi og útivistarmaður. Árið 2006 fór ég að stunda gönguferðir á Reykjanesskaganum með myndavélina mína og kynna fólki þá stórbrotnu náttúru sem svæðið hefur að geyma og alltof fáir vita um. Ljósmyndabókin mín, Reykjanesskagi–náttúra og undur, sem ég gaf út á síðasta ári, var m.a. afrakstur þeirrar vinnu. En jafnframt fann ég farveg og tilgang með þessari ljósmyndun í náttúruverndarbaráttunni en ég hef verið ötull talsmaður náttúruverndar á Reykjanesskaga þar sem myndmálið hefur verið mitt helsta vopn.“

Hver var innblásturinn að hellaseríunni?

„Fyrir sex árum var mér boðið í hellaferð í einn stórkostlegasta hraunhelli landsins. Ég varð mjög snortinn af því sem ég upplifði þar og langaði að skoða fleiri hella. Ég hugsaði með mér að fyrst ég væri búinn að ljósmynda allan Reykjanesskagann ofanjarðar gæti verið ágætis viðbót að ljósmynda líka þá undraveröld sem hann hefur að geyma neðanjarðar, svona til að sýna hvað náttúra skagans er stórkostleg í öllu tilliti. Ég hafði samband við ágæta vinkonu mína, sem hafði stundað hellamennsku, og fékk hana til að fara með mér í kynnisferð í nokkra hella. Ég varð algjörlega heillaður af þessari náttúru, sem flestum er hulin, og hellti mér í þetta. Hellamennskan togar alltaf í mann af einhverjum ástæðum – kannski er það dulúðin í myrkrinu. Auk þess var ég með þessu að fara inn á nýjar brautir í náttúruljósmyndun og það fannst mér líka spennandi. Þeir eru ekki margir ljósmyndararnir sem hafa sérhæft sig í að ljósmynda íslenska hraunrásarhella. Það gerir hellaljósmyndunina líka svo skemmtilega að þú sért í rauninni ekki að vinna með ljós heldur myrkur. Það er engin náttúruleg skíma þarna niðri heldur almyrkur og lýsingin ræðst alfarið af því hvaða ljósgjafa þú kemur með og hvernig þú beitir honum. Þú hefur lýsinguna algjörlega í hendi þér.“

Hvað heillar þig við náttúruljósmyndir?

„Þær sem skapa hughrif og hugrenningartengsl. Úti í náttúrunni verður maður fyrir margvíslegum hughrifum en að koma þeim til skila í ljósmynd er alls ekki auðvelt. Það sem gerir náttúruljósmynd áhrifamikla er þetta „sense of place“ eða tilfinningin fyrir staðnum og stemmningunni í myndinni. Þegar þú sérð slíkar myndir langar þig að fara á staðinn og upplifa hann. Ekki er öllum gefið að koma þessu til skila en þeir náttúruljósmyndarar sem hafa þennan hæfileika geta haft veruleg áhrif og áorkað miklu. Til dæmis var náttúra helsu þjóðgarða Bandaríkjanna vernduð fyrir tilstilli náttúruljósmyndara. Það er t.d. Ansel Adams að þakka að King´s Canyon –þjóðgarðurinn var stofnaður. Og við getum þakkað William Henry Jackson Yellowstone-þjóðgarðinn. Þótt myndirnar hans væru svarthvítar og sýndu ekki litadýrð hverasvæðanna, þá voru þær samt nógu áhrifamiklar til að sannfæra stjórnvöld um að þarna ætti að stofna þjóðgarð og verndarsvæði.“

Hvaða tæki og aðferðir notar þú?

„Það fer auðvitað eftir viðfangsefninu hverju sinni. Í hellaljósmyndun nota ég yfirleitt tvö til þrjú þráðlaus flöss, og reyni að stilla þeim þannig að maður fái sem mesta dýpt í myndina. Í stórum hvelfingum nota ég stundum líka ledljós til að „mála“ lýsingu í myndina. Þetta ægilega myrkur gleypir ljósið og þá getur verið nauðsynlegt að nota bæði flass og ljósmálun með hægum lokarahraða, og vélina á þrífæti. Í minni hellum nota ég flassið meira. Ég var nýlega að skipta yfir í speglalausa myndavél frá Canon, sem ég er nokkuð sáttur með, ekki síst vegna þess hversu nett og létt hún er. Það þarf talsvert mikinn búnað í hellaljósmyndunina, og þá munar um hvert kíló í bakpokanum, sérstaklega þegar gönguferðirnar eru langar. Ég hef verið svo heppinn að hafa gott fólk í kringum mig, sem nennir að fara með mér, bera dótið og sýnir endalausa þolinmæði þegar verið er að stilla upp fyrir myndatökur, en það getur verið nokkuð tímafrekt. Við höfum náð því að vera átta tíma samfleytt neðanjarðar. Annars er ég enginn græjudellukall og eltist ekki við merki. Mér er alveg sama hvað dótið heitir aðeins ef það virkar. Þannig hef ég t.d. notast við ódýr flöss frá Kína, sem hafa reynst ótrúlega vel í þrjú ár við afar erfiðar aðstæður í hellunum. Ég nota myndavélarnar mínar eingöngu á meðan þær duga, og eltist ekki við það nýjasta á markaðinum á hverjum tíma, því það er svo dýrt. Ég notaði t.d. sömu Canon myndavélina í 25 ár þangað til ég fór yfir í stafrænt. Það er ekki sjálfgefið að þú takir góðar myndir þótt þú eigir nýjustu og bestu myndavélina, ekkert frekar en þú málir flott málverk einungis því þú átt góða og vandaða pensla. Margt annað þarf að koma til.“

Hefur þú menntað þig í ljósmyndun?

„Ég hef enga formlega menntun sem ljósmyndari. Fyrir rúmum 30 árum fór ég á tvö námskeið í ljósmyndun og lærði framköllun hjá Heimi Stígssyni, ljósmyndara í Keflavík. Það reyndist mér mjög gott veganesti og grunnur til að byggja á. Svo hef ég bara fiktað mig áfram og náð mér í þekkingu af ýmsum miðlum. Áður keypti ég ljósmyndablöð og bækur en núna sæki ég þetta á Netið.  Youtube hefur verið býsna notadrjúgt í þessum efnum. Varðandi myndvinnsluna þá hef ég góðan grunn eftir margra ára starf í prentiðnaði þar sem ég lærði bæði myndvinnslu og umbrot. Eitt það skemmtilegasta við þetta áhugamál er að endalaust er hægt að bæta við þekkinguna og læra eitthvað nýtt því ljósmyndun hefur svo mörg svið.“