Eyðimerkurlandslag í Sandvík

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Sandvíkin var yndisleg í dag, á þessum sólríka en kalda vetrardegi. Greinilega höfðu engin vélhjól og önnur farartæki verið þar á ferð síðustu daga. Sandurinn er gjarnan alsettur hjólförum þvers og kruss en vindar síðustu daga ásamt haföldunni höfðu sléttað sandinn svo allt virtist ósnortið. Mér varð hugsað til þess hvernig náttúran hefur tilhneigingu til að laga og leiðrétta það sem aflaga hefur farið í umgengni okkar mannanna um hana. Þegar mannkynið hefur gert jörðina óbyggilega og tortímt sjálfu sér vegna eigin heimsku og græðgi mun náttúran taka til hendinni og laga það sem aflaga hefur farið. Víða má sjá merki um þessa tilhneigingu náttúrunnar, til dæmis í Chernobyl. Já, ég veit að þetta hljómar ekki eins og ég hafi trú á mannkyninu en er einhver hissa á því?

Stóra-Sandvík á Reykjanesi er yndislegur staður og þangað fer ég oft til að sækja mér orku. Þegar gengið er innan um sandhólana er engu líkara en maður sé staddur í eyðimörk í framandi landi. Vindrákirnar í sandinum innan um hólana er skemmtilegt myndefni. Þetta landslag er mjög „fótógenískt“ og gaman að rölta þar um með myndavélina. Að ganga meðfram ströndinni, skoða fuglalífið, hlusta á nið haföldunnar, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta þessa magnaða landslags gerir þetta svæði alveg einstakt og eftirsóknarvert. Hins vegar þýðir ekkert að fara þangað um helgar því þá leggja vélhjólamenn svæðið yfirleitt undir sig. Betra er að fara á virkum degi í miðri viku, þá er maður líklega laus við ónæðið og hávaðan af vélhjólunum.  Síðast þegar ég vissi var vélhjólaakstur ekki leyfilegur í Sandvík en ef það hefur breyst þá er erfitt að skilja hvers vegna slíkt er leyft á jafn yndislegum og friðsælum stað.