Undanfarið hefur mikið verið talað um kvikugang í tengslum við hugsanlegt eldgos millli Fagradalsfjalls og Keilis á Reykjanesskaga. Hér er átt við berggang eða kvikuinnskot sem eru algengari orð þegar þetta fyrirbæri ber á góma.
Berggangar verða til þegar kvika þrýstir sér út í sprungur í jarðskorpunni. Ef magnið og þrýstingjurinn er nógu mikill nær hún að brjóstast upp á yfirborðið með eldgosi en algengara er að hún storkni í sprungunum og verði að hörðu bergi ofarlega í jarðskorpunni. Eðlisþyngd kvikunnar er frekar há og því hefur hún frekar tilhneigingu til að finna sér farveg innan skorpunnar án þess að gjósa. Þessar sprungufyllingar eru því alltaf yngri en bergið í kring.
Forna bergganga, sem urðu til undir yfirborði jarðar, má sjá víða á yfirborði fyrir tilverknað rofaflanna eftir að fargi ísaldarjöklanna létti með tilheyrandi landrisi. Bergangar á Íslandi geta verið margir kílómetrar að lengd en oftast einungis einn til tveir metrar á breiddina. Berggangar hafa ýmis heiti eftir því hvernig þeir mynduðust. Talað er um gosganga þegar um er að ræða aðfærsluæðar að eldstöð, keiluganga sem mynda öfuga keilu með toppinn í miðju eldstöðvarinnar og lagganga (sillur) sem liggja samsíða hraunlögunum, hafa skotist inná milli þeirra og liggja því lárétt.
Stærsti berggangurinn á Jörðu er Great Dyke í Zimbabwe, 550km langur og breiddin allt að 11km. Hann er um 2,5 milljarða ára gamall.
Á meðfylgjandi myndum eru nokkrir berggangar í íslensku landslagi.

_______________________________________________________________________________

______________________________________________________________________________________

_____________________________________________________________________________________

______________________________________________________________


