Berggangar í ýmsum myndum

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Undanfarið hefur mikið verið talað um kvikugang í tengslum við hugsanlegt eldgos millli Fagradalsfjalls og Keilis á Reykjanesskaga. Hér er átt við berggang eða kvikuinnskot sem eru algengari orð þegar þetta fyrirbæri ber á góma.  

Berggangar verða til þegar kvika þrýstir sér út í sprungur í jarðskorpunni. Ef magnið og þrýstingjurinn er nógu mikill nær hún að brjóstast upp á yfirborðið með eldgosi en algengara er að hún storkni í sprungunum og verði að hörðu bergi ofarlega í jarðskorpunni. Eðlisþyngd kvikunnar er frekar há og því hefur hún frekar tilhneigingu til að finna sér farveg innan skorpunnar án þess að gjósa. Þessar sprungufyllingar eru því alltaf yngri en bergið í kring.

Forna bergganga, sem urðu til undir yfirborði jarðar, má sjá víða á yfirborði fyrir tilverknað rofaflanna eftir að fargi ísaldarjöklanna létti með tilheyrandi landrisi. Bergangar á Íslandi geta verið margir kílómetrar að lengd en oftast einungis einn til tveir metrar á breiddina. Berggangar hafa ýmis heiti eftir því hvernig þeir mynduðust. Talað er um gosganga þegar um er að ræða aðfærsluæðar að eldstöð, keiluganga sem mynda öfuga keilu með toppinn í miðju eldstöðvarinnar og lagganga (sillur) sem liggja samsíða hraunlögunum, hafa skotist inná milli þeirra og liggja því lárétt.

Stærsti berggangurinn á Jörðu er Great Dyke í Zimbabwe, 550km langur og breiddin allt að 11km. Hann er um 2,5 milljarða ára gamall.

Á meðfylgjandi myndum eru nokkrir berggangar í íslensku landslagi.

Hvítserkur við Vatnsnes er einn þekktasti berggangur Íslands. Hér væri þó réttara að tala um leifar af berggangi.
_______________________________________________________________________________
Skammt ofan við Krýsuvíkurberg má finna þennan fallega berggang. Hér hafa roföflin sorfið veikt móbergið í burtu svo eftir stendur gangurinn eins og hryggur á steinrunnu fornaldarskrímsli.
______________________________________________________________________________________
Þessi þverhníptu hamraþil eru leifar bergangs í Þilgili í Lónsöræfum. Hér hafa roföflin opnað æðakerfi hinna fornu eldstöðva upp á gátt og gefið landslaginu ægifagurt svipmót.
_____________________________________________________________________________________
Göngukona hvílir lúin bein við fallegan berggang í Lónsöræfum.
______________________________________________________________
Við austanverðan Héraðsflóa er rúst fornrar megineldstöðvar sem er mikið rofin við haf. Er hún nefnd Fagradalseldstöð, var virk fyrir um 14-15 milljónum ára og er elsta þekkta megineldstöðin á Austurlandi. Það af henni sem enn stendur ofansjávar er í raun þversnið af eldfjalli, skorið þvers og kruss af berggöngum. Þessi hluti bergsins kallast Þerribjarg.
Reiðskörð (Rauðdalsskörð) á Barðaströnd eru með flottari berggöngum landsins. Ekki hefur mér tekist að finna upplýsingar um aldur hans en miðað við að Vestfjarðarkjálkinn hafi hlaðist upp fyrir 13 – 16 milljónum ára er hann ævaforn enda út blágrýti, sem er elsta bergmyndun landsins.