Hvenær er rétta veðrið?

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Þetta sumarið hef ég verið óvenju rólegur í ljósmynduninni miðað við oft áður. Hef verið að dudda við að ljósmynda hraunhella Reykjanesskagans en lítið annað þar fyrir utan. Bæði hafa önnur störf verið ofar á forgangslistanum og svo er það blessað veðrið.  Maður nennir lítið að þvælast með myndavélina í leiðinda rigningarslarki og gráum sudda.

En einmitt við þær aðstæður getur verið áhugavert að taka myndir. Í þannig  veðri er ákveðin stemmning sem getur verið ögrandi að fanga.  Það er útbreiddur misskilningur að eina „rétta“ veðrið til að fara út að mynda sé á sólríkum sumardegi með heiðskíran himinn.  Margir ljósmyndarar eru sammála um að það sé einmitt leiðinlegasta veðrið:  birtan hörð, ljósið sundrað og skuggar of sterkir.

Þess vegna kjósa margir landslagsljósmyndarar að fara út að mynda annaðhvort snemma morguns eða síðdegis þegar sólin er lægra á lofti og birtan mýkri með hlýlegum, roðagylltum bjarma.  Þá er talað um „ golden hour“.

Nú fer sá tími í hönd þegar mér finnst birtan hvað fallegust. Haustlægðirnar bjóða upp á ýmis tilbrigði þar sem vindur ýfir sæ, skin mætir skúrum og dramatísk birtan leikur um skýjabólstrana eins og á gömlu meistaramálverki. Eftir uppstyttuna glóir döggin eins og demantar á litríku haustlaufinu og allt verður svo tært.  Allt er þetta fallegt og verðugt myndefni.

Vetrarstormurinn og hríðarbylurinn getur líka falið í sér dramatíska stemmningu sem gaman er að fanga í mynd.  Sömuleiðis þokan sem sveipar landslagið dulúð.  Það er mjög áhugavert að fara á sömu staðina og upplifa þá við mismunandi veðuraðstæður. Sveifluháls í Krýsuvík er t.d. einn af mínum uppáhaldsstöðum og þar hef ég margoft farið í göngutúr. Einu sinni labbaði ég eftir hálsinum á Jónsmessunótt í niðaþoku sem sveipaði landslagið kynngimagnaðri dulúð þar sem við sáum alls kyns kynjaverur í veðursorfnu móberginu. Þetta var algjörlega magnað og aldrei, hvorki fyrr né síðar, hef ég upplifað Sveifluhálsinn á þennan hátt.  Maður fylltist eiginlega hálgerðri angist yfir því að geta ekki komið þessum hughrifum til skila í myndunum.

Við mismunandi aðstæður upplifir maður margvísleg hughrif sem geta t.d. verið tengd minningum og fela í sér áskorun að koma þeim til skila í mynd.  Get nefnt sem dæmi að eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að rölta um gamla bæjarhlutann í heimabænum mínum á aðventunni þegar bærinn er jólaskreyttur í vetrarskrúða. Þá upplifi ég andblæ liðinna bernskujóla og reyni að fanga hann í myndirnar. Þetta kemur manni alveg í jólaskapið.

Það er alltaf veður til að taka myndir – spurningin er bara hvaða stemmningu við sækjumst eftir á hverjum tíma.

 

Leave a Reply