Er myndasafnið þitt öruggt?

posted in: Ljósmyndablogg | 0

afrit

Á dögunum gerði ég örlitla könnun á Facebook-síðunni minni þar sem ég spurði hvort einhver væri ennþá að framkalla/prenta myndir til að setja í gamla, góða fjölskyldualbúmið.  Það kom mér á óvart að þeir sem svöruðu kváðu svo vera. Fjölskyldualbúmið virðist lifa ágætu lífi ennþá.  Trúlega er það nú varla í þeim mæli sem var áður en stafræna tæknin kom til sögunnar en fram að því voru albúmin nánast eini geymslumiðillinn. Einhvern tímann heyrði ég sagt að þegar eldsvoði kæmi upp í heimahúsum væri algengt að fólk tæki börnin undir annan handlegginn og fjölskyldualbúmin undir hinn þegar það forðaði sér út. Fjölskyldualbúmin innihalda minningar fjölskyldunnar – þar er skrásett saga hennar. Húsmuni er alltaf hægt að endurnýja en ekkert getur bætt glataðan fjársjóð minninganna.  Það er því skiljanlegt að fólk reyni að bjarga fjölskyldualbúmunum úr eldsvoða – ásamt börnunum auðvitað. En hvað með minningarnar sem geymdar eru á stafrænu formi?

Allt of oft hefur maður heyrt sorgarsögur af því hvernig fólk tapaði heilu myndasöfnunum vegna þess að harður diskur hrundi eða tölva glataðist. Sumarfríið á framandi slóðum, stúdentaútskriftin, brúðkaupið, fermingin – augnablikin sem ekki verða endurtekin  – allt farið! Það er skelfilegt að verða fyrir slíku og þetta getur hent þig eins og hvern annan.  Hafðu það ávallt í huga og í guðs bænum taktu afrit af myndunum þínum!

En hvernig er þá best að geyma myndirnar sínar?

Sjálfur nota ég lausa USB tengda diska eða flakkara. Síðan afrita ég reglulega einn disk yfir á annan, er sumsé alltaf með tvö sett.  Diskinn með afritunum geymi ég í rammgerðri tösku í húsi út í bæ. Auðvitað er ekkert vit í því að geyma afritin á sama stað ef eitthvað færi úrskeiðis, t.d. ef upp kæmi eldsvoði eða framið yrði innbrot.  Hér eru útlistaðar nokkrar aðferðir til að klóna diska.
Hægt er að kaupa hýsingu á myndunum hjá þar til gerðum hýsingaraðilum í gegnum netið. Það get ég ekki hugsað mér að nota þar sem mér er meinilla við að láta myndirnar mínar í hendurnar á fólki sem ég þekki ekki neitt. Þetta eru ekki heldur alveg öruggir geymslumiðlar eins og þetta dæmi sýnir. En þótt þessi möguleiki hugnist mér ekki þá gæti hann hentað einhverjum öðrum.  Þetta er allavega einn möguleikinn.

RAID kerfið er vinsælt meðal þeirra sem eru að sýsla með mikið gagnamagn en það gerir notanda þess kleift að vista sömu gögnin samtímis á marga diska á mismunandi stöðum. Þetta er líklega eitthvað sem maður mun skoða betur þegar myndasafnið stækkar.

Hér eru svo nokkur forrit sem gætu nýst vel til afritunar og utanumhald.
Það eru því margar leiðir og aðferðir til að tryggja öryggi myndasafnsins og allir ættu að geta fundið það sem hentar hverjum og einum.  Í þessum efnum er ágætt að hafa í huga slagorð sem innheimufyrirtæki eitt notaði lengi vel: Ekki gera ekki neitt!

Leave a Reply