Að skapa og selja

posted in: Ljósmyndablogg | 0

_MG_9193

Reglulega er ég skammaður af vinum mínum fyrir það hversu óduglegur ég er að afla tekna af ljósmyndunum mínum. Ég fæ að heyra að ég haldi alltof sjaldan sýningar, sé slakur í að koma myndunum í sölu, taka að mér verkefni og koma mér á framfæri. Og þegar ég sel eitthvað sé það yfirleitt allt of ódýrt.

Þetta er allt satt og rétt en ég kæri mig nokkuð kollóttan um það. Fyrir mér er ljósmyndunin fyrst og fremst ástríða.

Einn góður vinur minn, verslunareigandi og sölumaður af Guðs náð, er alltaf að nuddast í mér út af þessu. Hann vill að ég fari út í grjótharðan bissness með alls konar veseni sem ég nenni ekki að standa í. Ég vil frekar vera úti að taka myndir.

Ég á enn eftir að rukka fyrir myndatöku síðan í október. Og það er kominn miður júní. Gleymi alltaf að senda reikning. Þeir sem vilja kaupa af mér myndir þurfa yfirleitt að ganga á eftir erindi sínu. Ég gleymi eða nenni ekki að sinna þeim. Humma þetta bara fram af mér. Kannski soldið dónalegt og sjálfsagt hafa einhverjir gefist upp á því að reyna eiga viðskipti við mig. En svona er þetta bara – ég er fyrst og fremst að þessu af ástríðu.

Þegar ég held sýningar, sem er sjaldan í seinni tíð, er hálfgerður útsölubragur á þeim. Maður hugsar bara um það eitt að hafa upp í kostnað og er bara sáttur ef það tekst. Það er ærin fyrirhöfn og kostnaður við að setja upp sýningu og þess vegna nenni ég lítið að standa í því.

Það er nefnilega eitt að skapa eitthvað og annað að selja það. Margir listamenn eru sammála um að þetta tvennt fari sjaldnast vel saman. Ég þekki ekki marga listamenn sem eru um leið góðir bisnessmenn í því að selja verk sín. Oftast finna þeir út að það sé betra að láta sölumálin í hendurnar á öðrum. Því miður tilheyri ég ekki flokki  þeirra sem heyra til undantekninga í þessu og ekki hef ég lagt mig fram um að finna einhvern aðila til að selja myndirnar mínar. Þar af leiðandi er salan frekar dræm. En það skiptir mig reyndar litlu máli eins og áður segir – ég er fyrst og fremst í  þessu af ástríðu. Mér finnst líka svo leiðinlegt að rukka peninga.

Það er ekki þar með sagt að maður eigi að gefa verk sín. Oft hef ég lagt mikið á mig, jafnvel margra daga gönguferðir, til að ná þessum myndum. Þessu fylgir líka oft ærin ferðakostnaður og eitthvað kosta nú græjurnar sem maður notar. Tala nú ekki um þegar maður verður fyrir skakkaföllum eins og að brjóta linsu.

Samt finnst mörgum alveg sjálfsagt að maður gefi myndirnar sínar með einum eða öðrum hætti. Ef fulltrúi einhvers fyrirtækis hringir í þig og vill fá að nota myndirnar þínar endurgjaldslaust í kynningarefnið sitt, skaltu segja nei. Viðkomandi segir þér kannski að nafnið þitt komi fram undir myndinni þinni og það verði góð auglýsing fyrir þig þar sem mikill fjöldi heimsæki viðkomandi heimasíðu. Ekki láta glepjast af svona boðum.  Berðu meiri virðingu fyrir verkum þínum en það. Þetta er nákvæmlega engin auglýsing fyrir þig því fæstir pæla í því hver tók myndina. Viðkomandi er bara að ná sér í myndefni á þinn kostnað.

Einhver gæti haft samband við þig og boðið þér að setja upp ljósmyndasýningu í húsnæðinu sínu. Gæti t.d. verið veitingahús, gististaður eða skrifstofa. Yfirleitt er ástæðan sú að viðkomandi vantar myndir á tóma veggina og vill að þú sjáir um að fylla tómarúmið. Svona gylliboð þarf að meta gaumgæfilega. Það fylgir því mikill kostnaður að setja upp sýningu og þú þarft að vera viss um að þú sért ekki að borga með þér. Mun viðkomandi t.d. leggja sig fram um að selja myndirnar þínar? Kannski færi betur að gera honum tilboð með magnafslætti svo hann geti prýtt veggina á sanngjarnan hátt fyrir báða aðila.

Þér gæti líka staðið til boða að taka þátt í ljósmyndakeppni. Lestu skilmálana mjög vel því þeir gætu falið í sér að keppnishaldarinn taki sér rétt til þess að nota myndirnar sem þú sendir inn algjörlega eftir eigin geðþótta og án þess að greiða krónu fyrir. Fyrirtæki og stofnanir eru farnar að leika þetta í auknu mæli til að ná sér í ókeypis myndefni. Berðu meiri virðingu fyrir verkum þínum en svo að þú takir þátt í slíkri vitleysu.

Þótt þó sért lélegur sölumaður eins og ég skaltu umfram allt bera virðingu fyrir verkum þínum. Það gerir þú ekki með því að gefa þau fyrirtækjum og stofnunum sem hafa vel efni á því að greiða fyrir þau. Ef þú getur sett sölumálin í hendurnar á öðrum er það svo sem ágæt leið en hafa ber í huga að sá tekur auðvitað þóknun fyrir. Og þá er það spurningin: Hvað færð þú fyrir þinn snúð?

Kannski er bara best að vera  úti að taka myndir.

Leave a Reply