Ef þú ert að stíga þín fyrstu skref sem áhugaljósmyndari hefurðu kannski upplifað vanmáttinn þegar þú skoðar gríðarlega flottar ljósmyndir á netinu og finnst þú eiga svo langt, langt í land. Ekki örvænta – þeir sem eru lengra komnir hafa upplifað þetta líka. Þeir voru nefnilega einu sinni byrjendur alveg eins og þú. Ansel Adams var einu sinni byrjandi. Líka David LaChappelle og Annie Leibovitz. Það að skara framúr sem ljósmyndari byggist ekki á því að eiga fullkomna, flotta og dýra myndavél. Virtustu listmálarar listasögunnar náðu ekki svona langt vegna þess að þeir áttu svo góða pensla, er það? Ekki fá minnimáttarkennd þó þú eigir ekki dýrustu fullframe vélina eða skörpustu L-linsuna. Græjurnar gera þig ekki að góðum ljósmyndara.
Skoðaðu og pældu
Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem áhugaljósmyndari fyrir nær 30 árum naut ég leiðsagnar hins mæta manns Heimis Stígssonar, sem í árafjöld rak ljósmyndastofu í Keflavík. Hann kenndi mér undirtstöðuatriðin og að því góða veganesti hef ég búið æ síðan. Heimir sagði að maður yrði auðvitað fyrst og fremst að hafa auga fyrir því sem maður væri að gera. Það væri ekki nóg að eiga góða myndavél. Ef eitthvað vantaði upp á „gott auga“ þá væri hægt að þjálfa það með því að skoða og velta fyrir sér verkum þeirra sem sköruðu framúr. Að ráði Heimis eyddi ég löngum stundum á bókasafni bæjarins og flétti í gegnum hvern árganginn á fætur öðrum af National Geographic en þar sá maður það besta sem var að gerast í náttúruljósmyndun samtímans. Þessar stúderingar gerðu mikið fyrir mig. Margt hefur breyst og nú til dags höfum við Internetið og getum skoðað þar aragrúa góðra ljósmynda og sótt okkur fræðslu og kennsluefni í ómældu magni. Endilega notaðu það!
Fáðu gagnrýni hjá öðrum en mömmu þinni
„Listen to Your Critics, Not Your Mum“ skrifaði ágætur pistlahöfundur nýlega á Light Stalking. Og það er nokkuð til í þessu. Ekki biðja um gagnrýni eingöngu hjá þeim sem standa þér næst því þeir segja kannski ekki það sem þú raunverulega þyrftir að heyra til að ná árangri. Settu myndir inn á samskiptasíður áhugaljósmyndara (Íslensk ljósmyndum og Ljósmyndakeppni.is og fl) og biddu um gagnrýni. Þú gætir líka gengið í ljósmyndaklúbb. Ekki taka gagnrýnina nærri þér ef hún er ekki alveg eins og þú vildir heyra hana. Notaðu hana til að vita hvað þú getur gert betur og byggðu árangur þinn á því. Uppbyggileg gagnrýni er það besta sem maður fær og leitaðu eftir henni.
Vertu þú sjálfur
Það er um að gera að sækja sér innblástur og hugmyndir í verk annarra ljósmyndara en forðastu að kópera allt sem þeir gera. Þeir sem skara framúr eru yfirleitt þeir sem hafa skapað sér persónulegan stíl. Forðastu að elta „trendið“ og gerðu frekar tilraunir sem geta leitt þig á spennandi slóðir. Forðastu að festast í „lækaða landslaginu“ eins og ljósmyndarinn Christopher Lund orðar það svo vel í þessari frábæru grein sem ég hvet þig til að lesa. Reyndu að finna ný sjónarhorn og aðra nálgun á „klisjurnar“. Vertu skapandi í hugsun og rannsakandi. Ekki taka mynd „af því bara“. Gaumgæfðu vel hvernig þú getur komið myndefninu sem best til skila til áhorfandans – hughrifunum, slagkraftinum, rýminu, andstæðunum, hinu ljóðræna, – leitastu við að gæða myndina tilfinningu og túlkun. Ekki eltast við „lækaða landslagið“ ef það er ekki þinn stíll. Skapaðu þinn eigin og vertu trúr því sem þú ert að gera. Þannig færðu mest út úr ljósmynduninni.
Leave a Reply