Er myndvinnsla svindl?

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Fyrir nokkru fékk ég tölvupóst frá manni sem hafði farið á tvö ljósmyndanámskeið til að læra sem best á DSLR-myndavélina sína. Þótt hann væri orðinn öllum hnútum kunnugur  á myndavélina var hann samt ekki alveg ánægður með myndirnar sínar, þrátt fyrir að hann teldi sig eiga alveg þokkalega góða myndavél.

Hann sendi mér tengil á myndasíðuna sína og þegar ég skoðaði myndirnar sá ég strax hvað vantaði uppá;  myndirnar voru með öllu óunnar og teknar beint af vélinni.

Myndvinnsla eða eftirávinnsla hefur alltaf verið hluti af  ljósmynduninni, hvort sem fólk hefur gert hana undir stækkaranum í myrkraherberginu eða á tölvuskjánum eftir að stafræna tæknin tók við.

 

Það sem þú sérð er ekki það sem þú færð

Það er aldrei svo að myndavélin skili nákvæmlega því sem þú ert að reyna fanga þegar smellt er af. „What you see is what you get“ er sjaldnast niðurstaðan, alveg sama hversu vel þú kannt á vélina þína og hversu góð hún er. Það þarf alltaf að einhverju leyti að laga lýsingu, leiðrétta liti, kontrast og fleira í eftirávinnslunni.  Aðstæður geta einfaldlega verið þannig að myndavélin þín ræður ekki við þær, t.d. við birtuskilyrði þar sem dökkir skuggar og skjannhvítir fletir fara saman eða baklýsing er of mikil.  Birtuskalinn við þær aðstæður getur hlaupið á 10-12 stoppum á meðan myndavélin ræður kannski við fimm. Við þær aðstæður er til dæmis hægt að nota HDR tæknina þar sem 3-4 mislýst skot eru „brædd“ saman í myndvinnsluforriti. Þannig fæst allur birtuskalinn inn sem myndavélin gæti annars aldrei náð í einu skoti.

 

 Er ekki búið að fótósjoppa þetta?

Stundum verð ég var við ákveðna tortryggni hjá fólki þegar það skoðar fallegar ljósmyndir. Þá kemur stundum spurningin: „Er ekki búið að fótósjoppa þetta eitthvað?”

Jújú, það er sko búið að „fótósjoppa“. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég tek allt í RAW skráarsniðinu. Raw er hráfæll – sumsé hráefni sem eftir er að vinna úr. Það á eftir að „framkalla“ myndina.

Þegar tekið er í JPEG skráarsniðinu býr hugbúnaður myndavélarinnar til mynd úr þeim upplýsingum sem berast á myndflöguna í gegnum linsuna.  Hann vinnur þannig með liti, skerpu, kontrast og fleira og úr verður mynd. Þegar um Raw skrá er að ræða fer þetta ferli hins vegar ekki af stað. Þá verður bara til hráfæll sem þú átt síðan eftir að vinna úr en ekki hugbúnaður vélarinnar. Þetta þýðir að ég hef stjórn á vinnslunni alveg frá því að ég smelli af. Þannig get ég hámarkað gæðin. Til þess þarf ég að vinna úr „hráefninu“ í myndvinnsluforriti.

Eins og áður sagði hefur myndvinnsla alltaf verið hluti af ljósmynduninni, hvort sem hún hefur farið fram í myrkaherbergi eða á tölvuskjá. Myndvinnsla er ekki svindl heldur nauðsynlegur hluti af ferlinu.
Matreiðslumeistarinn þarf að gera eitthvað  við kjötið sem hann fær í hendur. Hann ber það ekki fram hrátt.  Svo er þetta alltaf spurning um það hversu mikið á að vinna hráefnið. Vissulega er hægt að vinna ljósmynd of mikið alveg eins og að ofsteikja kjöt svo það verði ólseigt undir tönn.  Gott hráefni er hægt að eyðileggja ef maður hefur ekki tilfinningu fyrir því sem maður er að gera.

 

Hvaða forrit er best að nota?

Til eru ýmis forrit til að vinna með myndirnar sínar. Hvað best er að nota fer eftir efnum og hversu djúpt fólk vill fara í hlutina.

Photoshop þekkja allir en það er fokdýrt og hentar atvinnumönnum best. Áhugaljósmyndarar eru hins vegar farnir að nota Lightroom frá sama framleiðanda. Það er í raun strípað Photoshop á viðráðanlegu verði og hentar vel til allrar myndvinnslu. Enn aðrir nota t.d. Gimp sem er ágætt forrit og fæst ókeypis á netinu. Hægt er að dánlóda því hér: http://www.gimp.org/

Picasa er vinsælt til heimilisnota en í því er hægt að gera einfaldar leiðréttingar og halda utan um myndasöfnin sín.

Það er um að gera að prófa sig áfram, fikta og lesa sér til. Á netinu er aragrúi af fræðsluefni um ljósmyndun og myndvinnslu.

Efri myndin er algjörlega óunnin rawskrá beint af vélinni. Hún er flöt og litlaus enda á eftir að „framkalla" hana. Neðri myndin sýnir útkomuna eftir vinnslu.
Efri myndin er algjörlega óunnin rawskrá beint af vélinni. Hún er flöt og litlaus enda á eftir að „framkalla” hana. Neðri myndin sýnir útkomuna eftir vinnslu.

Leave a Reply