Heillandi heimur jöklanna

posted in: Ljósmyndablogg | 0

_MG_8214

 

Sumarið 2009 fór ég að ganga á jökla í fylgd með vinum mínum hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Þeir hafa í mörg ár farið með erlenda ferðamenn í gönguferðir og ísklifur á Sólheimajökul og Svínafellsjökul við góðan orðstýr.

Að ganga á skriðjökul með myndavélina mína er með því skemmtilegasta sem ég geri. Það er eins og maður sé kominn í aðra veröld þar sem maður finnur kraftinn í þessari stórbrotnu náttúru og fyllist óttablandinni lotningu frammi fyrir djúpum sprungum og ógnvænlegum jökulsvelgjum í þessu kynngimagnaða, hrikalega og myndræna landslagi. Í þessu felst ólýsanleg náttúruupplifun sem því miður alltof margir Íslendingar missa af. Það heyrir nefnilega til undantekninga ef Íslendingar bóka sig í jöklagöngu.

Ekki veit ég almennilega hvað veldur þessu. Þar sem jöklarnir eru svo stór hluti af náttúru Íslands hefði maður haldið að Íslendingar fyndu hjá sér forvitni og þörf til komast í meira návígi við þá. Kannski spilar ákveðinn ótti þarna inn í. Þegar fólk skoðar ljósmyndirnar mínar úr jöklaferðunum spyr það gjarnan hvort þetta sé ekki hættulegt.

Að þvælast einn upp á jökul án þekkingar á aðstæðum, þjálfunar og rétts búnaðar er vitaskuld stórhættulegt. Dapurleg örlög sænsks ferðamanns á Sólheimajökli í nóvember 2011 er dæmi um það. Hins vegar er það svo að á skriðjöklunum sér maður sprungurnar og getur því varast þær. Á Langjökli aftur á móti hafa orðið alvarleg slys þegar fólk hefur fallið ofan í sprungur sem það ekki sá vegna þess að fennt hafði yfir þær.

Jöklagöngu ætti fólk aldrei að fara í nema í fylgd sérþjálfaðra leiðsögumanna með reynslu og réttan útbúnað. Hér á landi eru sérhæfð ferðaþjónustufyrirtæki, t.d. Íslenskir fjallaleiðsögumenn, sem bjóða upp á skipulagðar jöklagöngur og leggja til þann búnað sem til þarf. Að sjálfsögðu er einnig mikilvægt að fara að fyrirmælum leiðsögumannsins. Þannig er maður öruggur og jöklagangan verður sannkallað ævintýri, afar ánægjuleg og ógleymanleg upplifun.

Með því að ganga á jökul er maður kominn í annan og heillandi heim með myndavélina og sannarlega með allt aðra sýn og sjónarhorn heldur en þær ljósmyndir sýna sem teknar eru frá þjóðveginum eða við jökulsporðinn.

Hér í þessu myndagalleríi má sjá úrval mynda sem ég hef tekið á jöklunum.

Leave a Reply