Trekanturinn

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Ein af uppáhalds bókunum í bókasafninu mínu er Ljósmyndabókin eftir John Hedgecoe. Þessi frábæra handbók er um allt sem viðkemur ljósmyndun og kom fyrst út árið 1977. Hún reyndist mikið þarfaþing þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem áhugaljósmyndari fyrir hartnær 30 árum. Þá hafði maður ekkert internet til að leita sér þekkingar og fræðslu en bókin sú arna reyndist frábær leiðarvísir. Sumir hafa sagt hana vera Biblíu áhugaljósmyndarans.

Þrátt fyrir þennan aldur er bókin enn í fullu gildi og stendur fyrir sínu, merkilegt nokk!

20140317_194311

Hún er alls ekki úrelt þó tækniþróunin hafi verið mikil á umliðnum árum með tilkomu stafrænu tækninnar. Ljósmyndun snýst nefnilega ennþá í þremur meginatriðum um það sama og hún gerði þegar bókin kom út. Og reyndar löngu áður. Ljósmyndun hefur alltaf snúist um þessi þrjú atriði, oft kölluð „The Exposure Triangle“.

Þau eru: Ljósop, lokarahraði og ISO (ljósnæmi).

Þetta eru þau atriði sem maður þarf alltaf að huga að áður en smellt er af.
Spurningin er ávallt sú sama:
Hversu miklu ljósmagni ætla ég að hleypa í gegnum linsuna og á hve löngum tíma?
Exposure-Triangle
Þessi atriði vinna saman og ráða lýsingu myndarinnar.  Þessa vegna heitir þetta LJÓSmyndun – við erum að vinna með ljós.

Tæknileg færni ljósmyndarans veltur á skilningi hans á þessum atriðum. Því betur sem hann kann skil á þeim þess meiri stjórn hefur hann á því sem hann er að gera.

Þetta snýst ekki eingöngu um það að fá rétt lýsta mynd heldur líka HVERNIG hún er lýst – hvaða áferð við erum að sækjast eftir.  Auto-stillingin á myndavélinni hefur ekki hugmynd um það!

Tökum sem dæmi þessar tvær myndir að neðan. Eins og sjá má eru lýsingin á þeim nákvæmlega sú sama.  Samt sem áður eru hraða- og ljósopsstillingar ólíkar. Önnur er tekin á hraðanum 1/160 við ljósop 8. Hin á hraðanum 1/15 við ljósop 22.

Með hægari lokarahraða fæst meiri mýkt í hreyfingu vatnsins, sem virkar betur fyrir augað.  Þetta er gott að hafa í huga þegar verið er að taka myndir af fjallalækjum og minni fossum. Ef við værum hins vegar að taka mynd af beljandi jökulfossi, eins og á myndinni af Dettifossi  hér fyrir neðan, viljum við auðvitað sýna ógnarkraftinn í fossinum með því að „frysta“ hreyfinguna. Það  gerum við með því að nota meiri lokarahraða.

Lærðu að nota myndavélina þína á þennan hátt. Gúgglaðu „The Exposure Triangle“ og þú verður margs vísari. Og ef þú veist ekki hvernig á að stilla hraða og ljósop á myndavélinni þinni þá fylgdi með henni lítil galdrabók sem kallast leiðarvísir eða „User Manual“.

_MG_3142

IMG_0128

Leave a Reply