Í heimi hins smáa

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Ef þig hefur langað til að prófa macro-ljósmyndun en hélst að þú þyrftir rándýra, sérstaka macro-linsu til þess – þá er ég með góðar fréttir fyrir þig.

Gleymdu macro-linsunni. Þú þarft hana ekki.

Á ódýran og einfaldan hátt getur þú breytt venjulegri linsu í öfluga macro-linsu. Það er gert með 7-10 dollara viðbótar-röri eða extension tube, sem hægt er að kaupa t.d á Ebay eða Aliexpress.  Og viljir þú vera með enn öflugri macro linsu geturðu snúið henni við með sérstökum hring (reverse ring) til að skrúfa hana fasta – sumsé ÖFUGA. Þar með ertu kominn í heim hins smáa í tilverunni.

Extension rörið er sett á milli myndavélarinnar og linsunnar og líkir þannig eftir macro-linsu. Mögnunin í linsunni fæst semsagt með því að færa hana fjær myndavélinni. Það þýðir að þú kemst miklu nær myndefninu með linsuna. Við þetta missir hún samband við myndavélina og því þurfa allar stillingar að vera manual.  Áður en linsan er sett á rörið þarf með myndavélinni að stilla ljósopið sem þú ætlar að nota. Ef þú átt hins vegar linsu með stillihring fyrir ljósopið þá ertu í enn betri málum.

Einnig er hægt að fá extension rör með rafsnertlum til að halda sambandinu á milli vélar og linsu en það kostar að sjálfsögðu eitthvað meira. En eins og þú veist að þá er rosalega gaman að gera allt manual – það er meira alvöru.

Með 15-85mm linsunni kemst ég ekki nær blóminu en þetta. Linsan nær ekki fókus reyni ég að fara nær. Takið eftir blómknappinum í miðjunni.
Með 15-85mm linsunni kemst ég ekki nær blóminu en þetta. Linsan nær ekki fókus reyni ég að fara nær. Takið eftir blómknappinum í miðjunni.
Með extension röri og öfugri linsu kemst ég hins vegar alveg ofan í blómið með linsuna. Hér er blómknappurinn í nærmynd.

 

Gríðarlega þröngt fókussvið gerir macro-ljósmyndun ákaflega krefjandi. Besta aðferðin er að stilla fókusinn manual og hreyfa síðan linsuna örlítið fram og til baka uns maður sér hvar fókusinn er. Þar sem fókussviðið er svona þröngt og mögnunin mikil hefur minnsta hreyfing á linsunni gríðarmikil áhrif. Til dæmis getur verið mjög snúið að ljósmynda blóm sem flöktir örlítið í vindinum. Macro ljósmyndum krefst því mikillar þolinmæði og mörg skot fara forgörðum. Hér er það æfingin sem skapar meistarann. Með æfingunni og reynslunni lærir maður hvernig best er að bera sig að.

Sem fyrr segir er fókussviðið mjög þröngt en ef maður vill fá meira af myndinni í fókus er hægt að notast við tækni sem kallast focus stacking.  Hún byggist á því að myndvinnsluforrit er látið raða saman í eina mynd nokkrum myndum sem hafa verið teknar með þeim hætti að fókusfjarlægðinni er breytt á milli ramma.

Nú er tími sumarblóma og skordýra sem eru skemmtileg macro-myndefni. Endilega prófaðu þig áfram. Til að koma þér af stað eru hér að neðan nokkur mjög gagnleg fræðslumyndbönd sem ég mæli með en vissulega er hægt að finna meira efni á Youtube ef þú vilt fræðast meira.

 

Frábær fyrirlestur með Tim Cooper:

 

 

Thomas Shaahan tekur magnaðar nærmyndir af litlum, krúttlegum stökk-köngulóm með ekkert svo merkilegum græjum.

 

 

Tony Northrup útskýrir focus stacking: