Í góðu jafnvægi

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Það er ekki endilega sjálft myndefnið sem gerir ljósmynd góða. Meira máli skiptir hvernig myndin er tekin. Hún þarf að virka vel fyrir augað – vera í góðu jafnvægi.

Stundum hef ég orð á því við nemendur mína á ljósmyndanámskeiðunum að þeir hefðu gagn af  myndlistarnámskeiði. Ljósmyndun og myndlist byggjast nefnilega á sömu grunnatriðunum, t.d. hvað varðar myndbyggingu. Hún skiptir gríðarlegu miklu máli til að skapa það jafnvægi í myndflötinn sem þarf til að myndin virki þægilega fyrir augað. Þar komum við aðallega að þriðjungareglunni svokölluðu.

Þriðjungareglan byggir á því að staðsetja ekki myndefnið í miðju rammans heldur utan við hana hægra eða vinstra megin þannig að það beri við ímyndaðar línur sem skipta myndrammanum í þrjá hluta lóðrétt og lárétt. Þannig fæst það jafnvægi sem augu áhorfandans leita eftir þegar hann horfir á myndina. Augað leitar eftir föstum punkti til að staldra á. Ef hann er í miðju myndarinnar skapast ójafnvægi því augað fer að flökta um rýmið í kring.  Þá er komin spenna í myndflötinn sem virkar óþægilega fyrir augað. Þungamiðja myndarinnar er sumsé höfð utan við miðju hennar.

Hér er að neðan eru dæmi um myndbyggingu þar sem stuðst er við þessar línur.

1rules of third
2rules of third
3rules of third

Oft getur maður fengið jafnvægi í myndina með því að skera hana til með þar til gerðu Crop-tóli sem finna má í öllum myndvinnsluforritum.

Hér að neðan er dæmi um mynd sem var ekki að virka fyrr en hún hafði verið skorin.

Fyrir skurð. Stærri trén, sem skaga upp úr rjóðrinu, eru of mikið fyrir miðju. Vinstra megin við þau er frekar autt rými sem gerir ekkert fyrir myndina. Hér er ójafnvægi.
Fyrir skurð. Stærri trén, sem skaga upp úr rjóðrinu, eru of mikið fyrir miðju. Vinstra megin við þau er frekar autt rými sem gerir ekkert fyrir myndina. Hér er ójafnvægi.

 

Eftir skurð
Eftir skurð

Í landlagsmyndum er talað um 70/30 regluna. Þar er átt við hlutfallið milli himins og landslags. Landslagið er látið ná yfir 70% myndflatarins á meðan himininn þekur ekki meira en 30%, þ.e. ef við á annað borð ætlum að hafa himinn á myndinni.   Ef við erum hins vegar að sýna fallegt skýjafar fremur en landslag, þá er þetta haft öfugt.  Sjóndeildarhringurinn – eða línan þar sem himinn mætir jörð,  er sumsé aldrei í miðjunni, (þ.e. 50/50). Þá skapast ójafnvægi. Gott er að styðjast við hjálparlínurnar. Athugið að þetta hlutfall er aðeins viðmið. Stundum gætum við viljað sýna minna af himninum, t.d. 20% eða  jafnvel 10%, fer allt eftir viðfangsefninu.

 

Um það bil 30% himinn.
Um það bil 30% himinn.

 

Hér er hins vegar verið að sýna fallegt skýjafar. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir myndinna að hafa meira landslag inná henni.
Hér er hins vegar verið að sýna fallegt skýjafar. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir myndinna að hafa meira landslag inná henni.

 

Athugið að þetta eru aðeins viðmið – ekki lögmál. Það þarf alls ekki að vera slæmt að fara út fyrir viðmiðin. Einhver sagði hins vegar að til þess að brjóta reglurnar, svo vel færi, þyrfti maður fyrst að kunna þær.