Ljósmyndaleiðangur í undraheim Víðgelmis

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Helgina 16. – 18. október fékk ég einstakt tækifæri til að ljósmynda eitt mesta djásn íslenskra hraunhella, sjálfan Víðgelmi. Það var mikil upplifun að fara um víða ganga þessarar stórbrotnu hraunrásar og uppgötva undur hennar. Víðgelmir er löngu þekktur enda hafa fundist í honum fornar mannvistarleifar. Því miður mátti hann þola ótrúlegt virðingarleysi og níðingsskap  eins og sjá má á fjölda hryllilegra brotsára þar sem dropsteinar hafa verið fjarlægðir. Á endanum var ekki um annað að ræða en að læsa hellinum og var það gert 1991. Þrátt fyrir skemmdarverkin  er Víðgelmir stórbrotinn og fallegur hellir, tæplega 1,6km langur. Þarna er hátt til lofts og vítt til veggja, mikil litadýrð og undursamlegar hraunmyndanir. Meðalhæð hans er 9,15 metrar og mesta hæð 15,8 metrar. Meðalbreidd hans er 10,2 metrar og mesta breidd 16,5 metrar. „Víðgelmir er mestur íslenskra hella í flestum skilningi. Stærð hans og undur öll eiga engan sinn líka hér á landi,“ skrifaði Björn Hróarsson, hellakönnuður og jarðfræðingur  í sín frábæru rit um íslenska hraunhella. Eftir leiðangurinn um helgina veit ég hvað hann var að meina.

Á föstudeginum lagði ég af stað ásamt aðstoðarfólki mínu og góðum félögum upp í Fljótstungu þar sem við vorum í góðu yfirlæti um helgina á vegum ferðaþjónustunnar þar. Umferð í hellinn er stýrt þaðan og eingöngu undir leiðsögn. Um kvöldið hélt ég fund með  fólkinu mínu þar sem farið var yfir skipulag morgundagsins. Áríðandi er að skipuleggja svona leiðangur vel svo allir viti að hverju þeir ganga og þekki sitt hlutverk.  Fara þarf yfir búnað, skipulegga burð á honum, fara yfir uppstillingar og framkvæmd myndatökunnar, samspil og virkni ljósa og svo framvegis.

Skipulagsfundur kvöldið fyrir leiðangurinn.
Skipulagsfundur kvöldið fyrir leiðangurinn. Mynd: Birna Sigbjörnsdóttir.

Það sem nefnilega gerir hellaljósmyndunina mögulega eru þau forréttindi að fá að hafa í kringum sig hóp af úrvals fólki og hellaunnendum sem er tilbúið að taka þátt í þessu með mér. Þetta fólk sýnir manni endalausa þolinmæði því hellaljósmyndun er seinleg og krefjandi. Hún krefst líkamlegs úthalds því hellar geta verið mjög erfiðir yfirferðar, tala nú ekki um þegar bera þarf ljósmyndagræjur langar leiðir.  Þau vita orðið vel af fenginni reynslu að hellaferð með mér tekur helmingi lengri tíma en ella. Við stoppum lengi á hverjum stað til að stilla upp og gera prufur þangað til ég er sáttur. Enda tók þessi leiðangur nærri 8 tíma samfleytt neðanjarðar. Gæta þarf vel að umgengni í hellum og í svona löngum hellaferðum notum við sérstaka brúsa ef náttúran kallar. Ekkert má skilja eftir og ekkert má taka – nema myndir.

Með ljósbera á hælunum.
Með ljósbera á hælunum. Mynd: Birna Sigbjörnsdóttir.

 

_MG_1486

Í stórum hvelfingum þarf mikið ljós og þá er oft best að nota hægan lokarahraða og “mála” inn lýsinguna. Myndin hér að ofan er ágætt dæmi. Fólkið á myndinni er hvert með eitt þráðlaust flass sem þau beina framfyrir sig. Handan við beygjuna fremst er svo einn félagi með Led kastara sem hann notar til að mála lýsingu inn í beygjuna til að gefa myndinni meiri dýpt. Til hliðar við mig er svo einn í viðbót með Led kastara sem hann notar til að mála lýsingu í forgrunninn meðan á lýsingartímanum stendur. Þetta þýðir að fólkið með flössin þarf að standa grafkyrrt í þessar fimm sekúndur sem lokari myndavélarinnar stendur opinn. Það sem ég er þakklátur þessum vinum mínum fyrir að nenna þessu.

Þrátt fyrir þessa 8 tíma hellaferð er ljóst að hellir af þessari stærð verður ekki ljósmyndaður almennilega í einni ferð og er því stefnt á aðra ferð við tækifæri.

 

Þar sem loft hefur hrunið í hraunhellum koma jafnan miklir litir í ljós, rauðir, og fjólubláir.
Þar sem loft hefur hrunið í hraunhellum koma jafnan miklir litir í ljós, rauðir, gulir, bleikir og fjólubláir.

 

Hraunstrá. Hér þarf að fara gætilega til að brjóta ekki neitt.
Hraunstrá. Hér þarf að fara gætilega til að brjóta ekki neitt.

 

Fallegur dropsteinn með áföstu hraunstrái sem slitnað hefur frá loftinu. Þetta er meðal viðkvæmustu djásna í íslenskri náttúru. Ef þú sér svona, í guðs bænum farðu varlega og alls ekki snerta.
Fallegur dropsteinn með áföstu hraunstrái sem slitnað hefur frá loftinu. Þetta er meðal viðkvæmustu djásna í íslenskri náttúru. Ef þú sérð svona, í guðs bænum farðu varlega og alls ekki snerta.

 

Hér notaði ég flass handan við beygjuna til að fá hliðarlýsingu og draga fram dropana sem detta af hraunstráunum. Anns flass er síðan aftan við manninn.
Hér notaði ég flass handan við beygjuna til að fá hliðarlýsingu og draga fram vatnsdropana sem detta af hraunstráunum. Annað flass er síðan aftan við manninn.