Málað með ljósi

posted in: Ljósmyndablogg | 0

samsett400p

Að mála með ljósi (lightpainting) er ein tegund ljósmyndunar sem ég hef ekki fengist við áður.  Eitt af því sem gerir ljósmyndun svo skemmtilega er alls konar tilraunastarfsemi svo ég ákvað að þreifa aðeins á þessu eftir að hafa séð spennandi efni um þetta á netinu.  Lightpainting gengur sumsé út á það að mála með ljósgjafa í umhverfið framan við linsuna meðan á lýsingartímanum stendur en hann getur verið frá nokkrum sekúndum upp í nokkrar mínútur, allt eftir viðfangsefninu.  Þetta er sama aðferð og notuð er til að taka myndir af norðurljósum – þrífótur, langur lýsingartími og ekki hátt iso.

Fyrst var að finna sér ljósgjafa en segja má að við ljósmálun sé hægt að nota allt sem gefur frá sér ljós. Ég ákvað að búa mér til ljósabretti en í það notaði ég marglita LED jólaseríu sem ég klippti niður, lóðaði upp á nýtt og breytti fyrir 12 volta spennu. Hægt er að kaupa háþróuð ljósabretti til þessara nota en þau eru rándýr. Þangað til núna en nýlega kynnti Yongnuo til sögunnar ljósabretti sem þeir ætla að selja á aðeins 62 dollara. Það er nokkur hundruð dollurum ódýrara en sambærileg bretti sem fyrir eru á markaði, t.d. ICE Light sem kostar um 500 dollara.  Yongnou er sannarlega vinur litla ljósmyndarans en fyrirtækið er þekkt fyrir að framleiða ódýr flöss og annan ljósmyndabúnað sem stendur fyllilega fyrir sínu.

Meðfylgjandi myndir tók ég á 20-30 sekúndum en með því að vera á hreyfingu allan lýsingartímann nærðu ekki að festast á mynd. Gott er að vera í dökkum fatnaði sem endurvarpar ekki ljósi. Myndavélin skráir hins vegar feril ljóssins. Í lok lýsingartímans skaut ég flassi til að fá umhverfið inn en sá sem var með ljósabrettið  þurfti þá að vera farinn út fyrir sjónsvið linsunnar til að koma ekki fram á myndinni.  Það er endalaust hægt að leika sér í með þetta og prófa mismunandi útfærslur. Ef þú gúgglar orðið „lightpainting“ og skoðar myndirnar gæturðu eflaust fengið nokkrar góðar hugmyndir.

 

_MG_2255

_MG_2258

_MG_2242