Áttavilltur í iðrum jarðar – myndband

posted in: Ljósmyndablogg | 0
Hraunrásarhellar geta verið flóknir með göngum sem kvíslast til margra átta.
Hraunrásarhellar geta verið flóknir með göngum sem kvíslast til margra átta.

Að vera rammvilltur í iðrum jarðar er frekar óhugnanlegt. Upplifði það nýlega. Við félagarnir höfum haft þann háttinn á að þegar við finnum op á helli, sem við höfum ekki farið í áður, fer ég gjarnan fyrst í könnunarleiðangur á meðan hinir bíða á yfirborðinu. Það er óþarfi að allir séu að græja sig fyrir inngöngu ef ekki er um réttan helli að ræða eða nógu álitlegan.  Einnig þarf að meta hvaða græjur maður ætlar að taka með niður en það getur verið misjafnt eftir hellum, hvort þeir eru víðir eða þröngir.

Þarna gerði ég þau mistök að fara of langt án þess að líta nógu vel í kringum mig og leggja leiðina á minnið. Allt í einu var ég staddur í algjöru völundarhúsi þröngra ganga í allar áttir, aleinn í myrkrinu og rataði ekki út aftur.  Þar sem þetta átti að vera stuttur könnunarleiðangur hafði ég skilið aukarafhlöður og varaljós eftir uppi á yfirborðinu. Ég var því farinn að hafa áhyggjur af því að verða ljóslaus þarna niðri, sem hefði verið skelfilegt því þarna er almyrkur – ekki minnsta skíma. Hellirinn var gríðarlega erfiður yfirferðar þar sem maður þurfti að bogra og skríða allan tímann. Að lokum fann ég leiðina út en þá voru félagarnir farnir að hafa verulegar  áhyggjur.

Farðu ALDREI  undir nokkrum kringumstæður einn í hellaskoðun. Það VERÐUR einhver að vita af ferðum þínum. Ef eitthvað kemur uppá ertu algjörlega sambandslaus þarna niðri við umheiminn. Í hellum er ekkert farsímasamband. Aldrei fara inn án þess að hafa varaljós meðferðis og slatta af rafhlöðum til skiptana.

Þetta  myndband er ekki fyrir þá sem eru með innilokunarkennd.