Svokölluð Time lapse-ljósmyndun hefur notið vaxandi vinsælda síðustu misserin. Ekki er mér kunnugt um íslenskt orð yfir time lapse svo ég ætla að nota enska orðið. Time lapse er sumsé aðferð sem notuð er til að búa til myndskeið úr fjölda ljósmynda sem teknar eru með ákveðnu millibili yfir tiltekið tímabil.
Þessa aðferð er til dæmis upplagt að nota til að sýna einhverja ummyndun eða breytingu yfir ákveðið tímabil. Við gætum t.d. hugsað okkur að þú stilltir upp myndavél fyrir framan blóm sem væri í þann veginn að fara blómstra. Ef myndavélin væri stillt þannig að hún tæki eina mynd á hálftíma fresti í nokkra daga, gæturðu náð flottu myndskeiði af blóminu springa út. Það er gert með því að færa myndirnar inn í videovinnsluforrit og gera úr því myndskeið. Time lapse er t.d. hægt að nota til að búa til kraftmikil myndskeið af hreyfingu skýja eða sólinni hníga til viðar á fallegu kvöldi.
Ég hef í nokkur skipti verið spurður hvernig ég vinn svona myndskeið og ætla því að renna hér yfir nokkur atriði.
Fyrst skulum við líta á snoturt time lapse-video frá Noregi:
Tímasetning
Venjulegt videó er 24 rammar á sekúndu. Þú þarft því að taka 24 myndir til að búa til eina sekúndu af time lapse myndskeiði. Ef þú ætlar að búa til 10 sekúndna myndskeið þarftu 144 myndir. Ef þú hefur 5 sekúndur á milli skota tekur alls 12 mínútur að skjóta þessa 144 ramma. Ef þú værir að gera jafnlangt video sem er 60 rammar á sekúndu þyrfti 360 ramma, sem tekur um hálftíma að skjóta. Til að reikna þetta út er hægt að ná sér í þar til gert símaapp, ókeypis á Google Play. Sláðu bara inn „time lapse calculator“ í leitarstrenginn og þú færð úr nægu að velja.
Afheyparinn
Til að skjóta time lapse þarftu afhleypara (Intervalometer). Sumar myndavélar eru reyndar með hann innbyggðan t.d. frá Nikon. Canon vélar eru það ekki, nema kannski nýjustu módelin, en afhleyparann er annars hægt að fá fyrir 15-20 dollara á Aliexpress eða Ebay.
Afhleyparinn smellir af samkvæmt því millibili sem þú stillir hann á. Sem dæmi eru hafðar 2 – 5 sekúndur á milli skota á björtum degi til að ná skýjum á hreyfingu. Eftir því sem viðfangsefnið hreyfist hægar er þessi tími lengdur. Ef þú værir t.d. að taka time lapse af hreyfingu vetrarbrautarinnar eða rísandi tungli, myndir þú láta afhleyparann smella af á 20 – 30 sekúndra fresti.
Þetta þýðir að til að ná 10 sekúnda myndskeiði (144 rammar), með 20 sekúnda millibili, tekur klukkutíma og rúmar 7 mínútur að skjóta þessa ramma. Time lapse getur því verið býsna mikið þolinmæðisverk. Kuldagallinn og hitabrúsinn er því hluti af staðalbúnaði ljósmyndarans við þessar aðstæður.
Myndbandsbúturinn hér að ofan er tekin á góðum degi fyrir time lapse þegar skýjafarið bauð upp á kjöraðstæður.
Hliðarhreyfingin fékkst með sleða (slider) og hafðar voru 4 sekúndur á milli ramma. Milli skota var myndavélin færð um einn fjórða úr sentimetra, þ.e. fjögur skot á hvern sentimetra. Þetta er gríðarlegt þolinmæðisverk sem væri mun auðveldara með mótordrifnum sleða. Myndin að neðan sýnir uppsetninguna.
Stillingar
Eindregið er mælt með að nota manual stillingar hvað varðar lokarahraða, ljósop og white balance. Birtan er síbreytileg og á auto stillingu færi myndavélin að stilla sig eftir henni meðan á tökunni stæði. Rammarnir yrðu því mislýstir. Myndavélin er að sjálfsögðu höfð á þrífæti og best er að nota ekki of mikinn lokarahraða til að tryggja gott flæði og koma í veg fyrir hökt í myndskeiðinu. Á björtum degi er gott að fara ekki upp fyrir 1/80. Ljósopið er síðan stillt eftir því samkvæmt ljósmælinum á myndavélinni.
Það er misjafnt hvort tekið er í raw eða jpeg formatinu. Sjálfur nota ég jpeg því það dugar mér vel. Raw formatið tekur meira pláss og krefst meiri vinnslu. Óþarfi er að taka í fullri upplausn nema kannski fyrir 4K videó en 3456x2304pixlar (8megapixlar) dugar vel fyrir 1920×1080 full HD videó. Þá ertu með einhverja pixla uppá að hlaupa ef þú vilt nota aðdráttar-effekt í videovinnslunni.
Vinnslan
Misjafnt er hvaða forrit eru notuð í vinnslunni eftir hentugleik hvers og eins. Flestir nota myndvinnsluforrit, t.d. Lightroom til að vinna með liti, contrast og annað slíkt. Síðan þarf klippiforrit til að gera myndskeiðið.
Sjálfur vinn ég skotin í Photoshop áður en ég bý til myndskeiðið. Að sjálfsögðu væri gríðarlega tímafrekt að vinna hvert skot fyrir sig en til að losna við það nota ég Actions fídusinn. Ég vinn eingöngu fyrsta skotið, tek aðgerðina upp með Actions og „spila“ hana síðan á öll hin skotin. Það geri ég með Automate –Batch skipuninni en með henni fær forritið skipun um að nota tiltekna Action aðgerð á allar myndirnar í tiltekinni möppu. Á meðan getur maður fengið sér kaffi.
Þegar myndirnar eru klárar eru þær teknar inn í klippiforritið. Þegar farið er í import-aðgerðina er viðkomandi mappa með myndunum valin sem „sequence“. Í Adobe Premiere er hakað við Image Sequence. Forritið tekur þá myndirnar inn sem myndskeið.
Ýmis fleiri forrit eru framleidd sérstaklega til að vinna með time lapse, t.d. LRT-timelapse, sem vinnur vel með Lightroom. Hvað best er að nota og hvernig er eitthvað sem hver og einn finnur út fyrir sig. Á netinu er aragrúi fróðleiks um þetta efni og því um að gera að gúggla. Youtube er t.d. góður vettvangur fyrir slíka fróðleiksleit.
Að lokum er hér video sem ég gerði nýlega um náttúruperlur Reykjanesskagans en í því eru nokkur time lapse myndskeið í bland við skot tekin með dróna.