Canon EOS M6: Myndavél sem kemur á óvart

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Í nokkurn tíma hef ég leitað að hentugri myndavél. Hef þá verið að horfa eftir nettri og léttri vél sem gæti komið í stað stóru DSLR vélarinnar. Hún er ágæt til síns brúks en hentar ekki vel í sum viðfangsefni, t.d. í hellaljósmyndun.  Hún er frekar þung að bera langar leiðir þegar maður er auk þess með fullt af öðrum búnaði sem hafa þarf með í hellaferðir. Og þegar ég hef farið í gönguferðir með drónann í bakpokanum hef ég ekki nennt að taka myndavélina með af sömu ástæðu. Þess vegna vantaði mig netta og létta myndavél með eiginleika DLSR véla, án þess að hún kostaði  bæði handlegg og nýru.

Eftir að hafa skoðað ýmsar vélar datt ég niður á speglalausa Canon EOS M6. Boddí vélarinnar vegur ekki nema 360 grömm. Linsan sem fylgir með henni bætir ekki miklu við þyngdina.
Eftir að hafa prófað þessa vél fyrsta daginn var ég nokkuð sannfærður um að þetta væri vélin sem hentaði mér. Ég þarf nefnilega ekki fullframe sleggju sem skýtur 12 ramma á sekúndu. Slíkt hentar vel fyrir sportmyndatökur en ég er ekki á þeim vettvangi.  Mín viðfangsefni eru í landslagi, náttúru og hraunhellum og Canon EOS M6 hentar vel í það. Óhætt er að segja að hún hafi komið mér skemmtilega á óvart. Myndgæðin alveg prýðileg, ágætt dynamic range, þokkalega skörp linsa, stillieiginleikar vélarinnar eru mjög vel uppsettir og aðgengilegar og svo er ég alveg að fíla þennan snertiskjá.  Vélin er með hotshoe tengi sem gerir mér kleift að nota sendinn fyrir þráðlausu flössin. Einnig er hægt að nota tengið fyrir auka viewfinder eða flass. Í fyrstu hellaferðinni með þessa vél  fann ég gríðarlega mikinn mun á því að athafna mig með svona netta og létta myndavél í stað DSLR hlunksins.

Af öðrum eiginleikum má nefna 24.2 megapixla CMOS APS-C myndflögu  með Pixel CMOS AF og 5 öxla hristivörn. Myndavélin tekur upp vídeó  í fullri HD upplausn í 60 römmum á sekúndu. Með vélinni kemur þokkalega skörp 15-45mm IS STM linsa með stærsta ljósaopi  f3,5 – 6,3. Vélin er búin 11 punkta sjálfvirku fókuskerfi  og ISO ljósnæmið er frá 100 – 25,600.

Ef þú ert að leita að nettri og vandaðri ferðamyndavél sem kostar ekki of mikið þá mæli ég hiklaust með Canon EOS M6. Hún kostar ekki nema rétt um 120 þúsund hér á landi. Helsti ókostur hennar er lítil rafhlaða þannig að fyrir þá sem eru gikkglaðir gæti verið nauðsynlegt að kaupa aukarafhlöðu. Fullhlaðin rafhlaða skilar 250-300 RAW skotum.  Vélin hentar ekki í sport og aksjón-myndatökur þar sem hún er ekki það hraðvirk en hún hentar í flest annað. Og þá má geta þess að þeir sem eiga Canon linsur geta notað þær áfram með þar til gerðum millihring.

Hér er hægt að sjá umfjöllun um vélina á vef DPreview: https://www.dpreview.com/products/canon/slrs/canon_eosm6

Að neðan eru tvær myndir úr vélinni, annars vegar úr hellaferð og hins vegar frá sólsetri á Garðskaga. Með því smella á myndirnar er hægt að sjá þær stærri.

Rétt er að taka fram að ég er ekki styrktur af Canon eða neinni ljósmyndavöruverslun.

 

1/100, f5.6. ISO 400. Lýst með tveimur þráðlausum flössum. RAW fæll unnin í Camera Raw 10.5 og Photoshop.

 

1/160, f6,3 ISO100. RAW fæll unnin í Camera Raw 10.5 og Photoshop.