Fullkomnlega fallegt kál

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Romanesco brokkólí er svo fallegt að þú tímir ekki að borða það.  Lengi hefur mig langað til að ljósmynda þessa tegund og eftir talsvert langa leit komst ég loksins yfir slíkan kálhaus nú í haust. Þetta kál er sannkallað listaverk, með  fullkomið gullinsnið og fraktalmynstur sem gerir það fótógenískt í meira lagi. Ótrúlegt að kál geti verið svona fallegt.

Stillti kálhausnum upp á eldhúsborðinu, notaði macro ljós og litlu Canon EOS M6 myndavélina með Canon EF-M 28mm macro linsunni. Við svona nærmyndatökur verður fókussviðið mjög þröngt en til að víkka það notaði ég Focus Stacking tæknina en hún gengur út á að taka mörg skot með fókuspunktinn á mismunandi stöðum í rammanum.  Síðan er öllum skotunum „staflað“ þannig að myndvinnsluforritið notar þau svæði í rammanum sem eru í fókus til að búa til eina mynd. Þannig næst fókussviðið yfir allan myndflötinn. Hér að neðan er tengill á Youtube myndaband  sem útskýrir þessa tækni.  Ef fólk hefur áhuga á að vita meira um þetta viðfangsefni er hægt að slá inn „Focus Stacking“ í leitarstrenginn á Youtube. Út nógu er að velja.