Fimm algeng myndvinnslumistök

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Myndvinnsla er mikilvægur og stór hluti af því ferli sem við köllum „ljósmyndun“.  Þegar við tökum mynd erum við í raun að safna upplýsingum í gegnum linsu myndavélarinnar á myndflöguna sem skrásetur upplýsingarnar á minniskortið, yfirleitt í RAW skráarsniði.  Eins og nafnið bendið til er um að ræða hráar upplýsingar – hráefni sem á eftir að vinna úr. Það á sumsé eftir að „framkalla“ myndina. Það er gert með myndvinnsluforriti en Lightroom og Photoshop eru algengust í þeim efnum.

En hver er munurinn á RAW og JPEG? Þegar tekið er í JPEG skráarsniðinu býr hugbúnaður myndavélarinnar til mynd úr þeim upplýsingum sem berast á myndflöguna í gegnum linsuna.  Hann vinnur þannig með liti, skerpu, kontrast og fleira og úr verður mynd. Þegar um RAW skrá er að ræða fer þetta ferli hins vegar ekki af stað. Þá verður bara til hráfæll sem þú átt síðan eftir að vinna úr en ekki hugbúnaður vélarinnar. Þetta þýðir að ég hef stjórn á vinnslunni alveg frá upphafi til enda.

Myndvinnsla er ekki „svindl“. Hún er nauðsynlegur hluti af ferlinu.  Matreiðslumeistarinn þarf að gera eitthvað  við kjötið sem hann fær í hendur. Hann ber það auðvitað ekki fram hrátt.  Svo er þetta alltaf spurning um það hversu mikið á að vinna hráefnið. Vissulega er hægt að vinna ljósmynd of mikið alveg eins og að ofsteikja kjöt svo það verði ólseigt undir tönn.  Gott hráefni er hægt að eyðileggja ef maður hefur ekki tilfinningu eða auga fyrir því sem maður er að gera. Það getur verið snúið að rata hinn gullna meðalveg á milli of – og vanvinnslu. Alltof algengt er t.d. að sjá myndir þar sem búið er að skrúfa liti svo upp úr öllu valdi að myndin verður annarleg og virkar ekki fyrir augað. En með reynslunni og æfingunni ratar maður á veginn þann sem áður er nefndur.

Hér að neðan er fróðlegt myndband þar sem ljósmyndarinn Mark Denney fer yfir fimm algeng mistök í myndvinnslunni.