Glitský

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Glitský eru ekki algeng en þetta fallega fyrirbæri myndast þegar óvenju kalt er í heiðhvolfinu við 70 – 90 gráðu frost. Þau eru afar litrík og glóa á himni þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð. Litbrigði glitskýja minna á þá liti sem sjá má innan á sumum skeljum og eru þau af þeim sökum einnig nefnd perlumóðurský.
Glitský myndast úr ískristöllum eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum, segir í fróðleiksmola á Veðurstofu Íslands um þetta fyrirbæri. Þar segir einnig að þau geti valdið ósóneyðingu en yfirborð ískristallanna geti virkað sem hvati í efnaferli þar sem klór í heiðhvolfinu breytist í skaðleg ósóneyðandi efni.

„Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland“, segir á vef Veðurstofunnar.

Þegar ljósmynda skal glitský verður að gæta þess að yfirlýsa ekki ljósustu tónana í miðju skýsins. Blæbrigðin eru afar fín og maður þarf að gæta þess að ná þeim öllum inn á myndina. Best er ljósmæla frá miðju skýsins og ákveða lýsinguna út frá því og muna að betra er að undirlýsa myndina aðeins heldur en að yfirlýsa vegna þess að með yfirlýsingu brenna ljósustu tónarnir út í 100% hvítt. Með því að undirlýsa aðeins er auðvelt er að jafna lýsinguna eftirá í myndvinnsluforriti þannig að öll blæbrigði og litatónar komi í ljós og njóti sín í myndinni.

Meðfylgjandi myndir tók ég á Héraði fyrir um 15 árum. Þessi sería vann til fyrstu verðlauna í sínum flokki í PX3 ljósmyndakeppninni í París árið 2008. Seríuna kallaði ég Nacreous Clouds sem er enska heitið yfir glitský.