Litskrúðug fjöll sem ber við bláan himinn, norðurljós, sindrandi fossar, ólgandi brim, fallegt sólsetur, hvæsandi hverir og tignarlegir jöklar eru vissulega skemmtileg og fjölbreytt myndefni. En náttúran er svo miklu meira en þetta.
Í klettavegg eða hraunbreiðu geta verið ótal áhugaverð form og kynjamyndir sem maður kemur auga á með því að staldra aðeins við og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Til að koma auga á þetta þarf maður að horfa framhjá því augljósa. Horfa inn í landslagið, ekki bara á það. Og gefa sér tíma.
Hér að ofan er dæmigerð landslagsmynd sem ég tók af Húsavíkurkirkju á gönguferð um Víknaslóðir. Hér er allt eins og það á að vera – falleg sveitakirkja í íslensku landslagi, staðsett utan við miðju myndarinnar og framhliðin vísar inn til að gefa myndinni jafnvægi. En það er meira í þessu fólgið þegar maður horfir betur –fram hjá því augljósa.
Ef við beinum sjónum okkar að fjallsegginni í bakgrunni kemur í ljós skemmtilegt form. Skellum aðdráttarlinsunni á og skoðum þetta betur. Jú, þarna er kona með hönd undir höku og horfir út á hafið!
Myndefnin eru alls staðar. Oft eru skemmtileg myndefni alveg við nefið á manni án þess að maður taki eftir þeim. Til að koma auga á þau þarf maður að gefa sér tíma til að gaumgæfa – horfa vel í kringum sig og vera rannsakandi.
Tökum sem dæmi myndina hér að neðan. Hvað sérð þú í myndinni?
Ég sá þarna hempuklæddan draugaher.
En hvað er þetta?
Jú, þetta er rykið á afturrúðu bílsins eftir að hafa hossast um íslenskan fjallveg á góðum sumardegi.
Leave a Reply