Steinar eru spakir

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Um árabil hef ég haft mikinn áhuga á jarðfræði og jarðsögu. Alls kyns berg- og jarðmyndanir hafa jafnan vakið hrifningu mína og forvitni. Af þeim sökum sæki ég í margvíslegan fróðleik og fræði um slíka hluti. Þetta varð jafnframt til þess að ég skellti mér í leiðsögunám  fyrir fáeinum árum, ekki vegna þess að ég ætlaði mér að starfa sem leiðsögumaður heldur vegna þess hve námið var fróðlegt og yfirgripsmikið um land og sögu og þá sérstaklega jarðfræði Íslands.

Þessi áhugi og þekkingarleit hefur haft mikil áhrif á það hvernig ég vel og nálgast viðfangsefni mín. Mér finnst gaman að skoða það sem fyrir augu ber í náttúrunni og oft er það út frá jarðfræðilegum pælingum. Mér geðjast lítt að hraðgöngum með gönguhópum því  þá fer svo margt framhjá manni. Best finnst mér að fara einn á mínum forsendum eða með örfáum . Þá fær maður þann tíma sem maður vill til að gaumgæfa, skoða og taka myndir. Þannig kemur maður auga á formin og ýmsar myndanir í náttúrunni.

Ég tel að aukinn skilningur og þekking á náttúrunni móti þá náttúruljósmyndara  sem bera sig eftir slíku og skili sér í dýpri náttúrutúlkun í myndum þeirra. Þeir fá næmara auga fyrir ýmsu sem annars færi  framhjá þeim. Eða eins og Kjarval sagði:

„En ég segi þér satt, steinar eru spakir í landslagi,
steinar brosa í landslagi. En það fer auðvitað eftir því
hver gengur framhjá.“

 

steinar1

steinar2

steinar3

steinar4